Þegar við fáum okkur göngutúr þessa dagana í náttúrunni, sjáum laufblöðin fjúka til í vindinum eða falla léttilega til jarðar, þá er tilvalið að leiða hugann að því á hvaða leið við erum sjálf.
Berumst við með straumnum eða nýtum við goluna til að ýta okkur hænufetið áfram – eða látum við kannski vindinn feykja okkur út og til hliðar, jafnvel í allmarga hringi? Föllum við harkalega til jarðar, eða svífum við léttilega og komum þægilega niður?
Hvernig hefur þetta verið að undanförnu?
Það er í raun nokkuð sama þótt það hafi verið nokkuð stormasamt í kringum þig það sem af er árinu, það segir ekkert að svo þurfi að vera þessa síðustu mánuði ársins.
Hvað getur þú gert í dag til að breyta um stefnu – ef það er það sem þú þarft. Ef þér finnst sem þú hafir fokið langt í burtu frá markmiðunum þínum, hvað getur þú þá gert til að nálgast þau á ný?
Ertu ef til vill komin svo langt í burtu frá þeim að þú ert nærri búin að missa sjónar? Hafðu ekki áhyggjur af því, settu þér frekar ný markmið. Hugsaðu hvernig þú getur lært af reynslunni. Hvað olli því að haustvindarnir urðu svona sterkir að þeir tóku að blása af ofurstyrk í kringum þig, jafnvel þó að það virtist aðeins smá gola í kringum vini þína og kunningja?
Hvað varð til þess að stormsveipurinn varð að þessum hvirfilbyl – mitt í öllu logninu?
Við breytum engu eftir á. Ef við lendum í vanda, þá er vandinn sjálfur ef til vill ekki aðalatriðið heldur hvernig við bregðumst við. Erum við með nægan varaforða til að geta tappað af honum þegar á þarf að halda? Allt er orka. Orkuflæðið er síbreytilegt. Ekkert er það sama í gær og í dag. Við þurfum orku og kraft til að geta staðið upprétt, líka þegar á reynir.
Kynnstu sjálfri þér þér betur. Hvers vegna líður þér eins og þér líður? Hverjir eru draumarnir þínir? Ertu að lifa samkvæmt draumunum þínum og æðstu óskum og ef ekki, hvernig væri lífið og tilveran hjá þér ef svo væri? Hvernig heldurðu að þér myndi líða? Væri meiri hamingja í lífi þínu? Ertu viss? Það er ekki allt gull sem glóir? Það er ekki alltaf allt betra og skemmtilegra og þægilegra hjá öðrum og ekki allt sem sýnist.
Gefðu þér nú stund til að meta lífsleiðina sem þú ert á. Ertu á réttri leið eða ertu á einhverri hliðarbraut og að leita eftir smá stíg sem liggur inn á aðalbrautina þína? Líttu vel í kringum þig. Hlustaðu. Horfðu aftur vel í kringum þig. Hlustaðu enn betur. Hvað sérðu? Hverjir eru í kringum þig? Hver veit nema þarna séu vegvísar allt í kringum, vegvísar í ýmsu formi og dulargervum. Það þarf nefnilega oft að hafa dálítið fyrir hlutunum. Lífið væri líklega ekkert skemmtilegra eða auðveldara til lengdar ef þú þyrftir aldrei að leggja höfuðið í bleyti og láta reyna á jafnt rökhugsun þína og ímyndunaraflið til að finna og komast upp á næsta þrep á þrekstiga lífsins.
Mundu að gera reglulegar teygjuæfingar á milli þrepa. Sestu niður – oftar en þú gerir í dag – bara til þess að slaka á og hlusta verulega vel á þinn eigin hug, hlustaðu á hug þinn og hjarta þitt, hvað viltu?
Njóttu þess að hugleiða, hugsa, upplifa, skipuleggja og framkvæma. Njóttu þess að hafa val.
Njóttu kvöldsins, bestu kveðjur
Jóna Björg Sætran, M.Ed., markþjálfi www.coach.is
Jóna Björg er menntunarfræðingur, M.Ed., frá KHÍ, er með alþjóðlega vottun sem ACC markþjálfi frá ICF (International Coach Federation) og er einnig Feng Shui ráðgjafi.
Í vetur hefur Jóna Björg svo lagt stund á Hugræna atferlismeðferð (HAM) í Endurmenntun HÍ. Jóna Björg starfar sjálfstætt við einkaleiðsögn, námskeiðahald, ritstörf, fyrirlestra og ráðgjöf jafnt hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Hún var leiðbeinandi hjá Brian Tracy International hér á landi og er fyrrverandi námstjóri hjá menntamálaráðuneytinu.
Jóna Björg fer ótroðnar slóðir, elskar að takast á við krefjandi verkefni og finnst langmest gefandi að vinna með fólki að bættri líðan, meiri hamingju og hugrró.
Einkunnarorð hennar eru: Blómstraðu í einkalífi og starfi, njóttu þess að vera þú!