Það er mikið talað um hversu mikilvægt það er að hafa jákvætt hugarfar. Hins vegar eru ekki allir seldir á þeirri hugmynd að hún geti haft svo mikil áhrif, sérstaklega þegar kemur að því að hafa áhrif á líkamlega kvilla.
Það furðulega er að það hefur hins vegar löngu verið sannað að það er samband á milli hugsana okkar og líkamlegrar heilsu.
Tökum lyfleysu sem dæmi. Lyfleysa gengur út á að manneskju, sem eitthvað hrjáir, er gefið lyf sem er ekkert meira en vítamín og sagt að það sé lyf sem bætir heilsu hennar. Það hefur verið sannað að heilsu slíkrar manneskju batnar.
Það þýðir að manneskju getur liðið betur, einvörðungu vegna þess að henni hefur verið sagt að henni muni batna, og vegna þess að hún trúir því heilshugar. Sannar það ekki að við getum læknað líkama okkar með því einu að hugsa ákveðnar hugsanir?
Tökum annað dæmi. Þú getur nú heyrt annan hvern mann kvarta yfir því að kvíði, áhyggjur og stress séu að valda sér vöðvabólgu, og hvað er kvíði og stress nema okkar eigin hugsanir? Það er þegar manneskja hefur áhyggjur með því að endurtaka ákveðnar, neikvæðar hugsanir í sífellu, sem hefur að lokum áhrif á líkamann.
Að segja því að það skiptir máli hvað þú hugsar, að þú getir raunar læknað líkamann af kvillum með því að breyta hugsanamynstri þínu, er raunar ekki svo brjáluð hugmynd eftir allt saman.
Að þylja upp jákvæðar staðhæfingar, eða staðsetja sig fyrir framan spegil til þess að tala fallega til sjálfrar sín upphátt hljómar kannski eins og mesta væmni sem nokkurn tímann hefur verið fundin upp.
En er eitthvað heimskulegra að velja að segja fallega hluti við sjálfan sig en það er að segja neikvæðar hluti við sjálfan sig? Er það ekki einmitt það bjánalega?
Flest tökum við ekki eftir því en við erum öll með rödd sem malar í sífellu við okkur og segir okkur alls konar leiðinda hluti. Galdur númer eitt að taka eftir því, taka eftir dómaranum sem situr á öxlinni okkar daginn inn og út, og reynir að fá okkur til þess að trúa því að við séum ekki nógu gáfuð, nógu klár til að geta þetta eða hitt, ekki nógu falleg, ekki nógu fyndin, ekki nógu sniðug, ekki í nógu góðu formi, ekki nógu heilbrigð, ekki nóg.
Um leið og þú ferð að taka eftir þessari rödd meðvitað, þá fyrst sérðu hvað hún er að hafa mikil áhrif. Þá fyrst er einnig mögulegt að breyta til. Þá geturðu farið að skipta út neikvæðri hugsun fyrir jákvæða. „Víst er ég nógu klár, víst er ég falleg/ur, víst er ég nóg.“
Það er magnað að sjá áhrifin þegar þetta er orðin viðtekin venja hjá fólki. Það sem við segjum við okkur sjálf skiptir máli. Hugsanir okkar skiptir máli. Þú getur breytt allri tilveru þinni, með því einu að byrja að hugsa fallega til þín.
Ef þú ferð að trúa því að þér sé allt mögulegt, að þú hafir til að bera gáfnafar, hugmyndaauðgi, framkvæmdagleði, að þér séu allir vegir færir … Hvernig getur það ekki haft áhrif á allt þitt líf, hvort sem um er ræða starfsvettvang þinn, einkalíf, ræktina, eða hvað sem það er sem þú beinir athygli þinni að?
Ef þú trúir þessu ekki, þá er einfalt að sannreyna það: prófaðu einn mánuð af því, og sjáðu hvað gerist. Ef þú sérð ekki árangur, þá hefurðu hvort eð er engu tapað. En þú hefur hins vegar til alls að vinna.
Að lokum vil ég benda á að með þessu meina ég að sjálfsögðu ekki að þú eigir að vera syngjandi kát/ur upp á hvern einasta dag. Eins gaman og það væri þá er það einnig ákaflega óraunhæft.
Auðvitað eru dagar okkar og aðstæður mismunandi, og þú átt að finna fyrir öllu tilfinningarófinu og leyfa þér að finna tilfinningar líkt og sorg, reiði, söknuð og svo framvegis. Það er eðlilegt að syrgja eftir missi, og reiðast þegar illa er komið fram við mann, – en það er munur á að þykjast vera jákvæður alla daga og temja sér jákvætt hugarfar.
Að búa yfir jákvæðu hugarfari þýðir að áföll geta dunið yfir, þar sem þú upplifir erfiðar tilfinningar og leyfir þér það, en reynir engu að síður að sjá hvað er hægt að gera, frekar en að kvarta og kveina yfir ákveðnu vandamáli.
Það er leiðinlegt að lenda í slysi en í stað þess að vorkenna sjálfum/sjálfri þér fyrir að hafa lent í slíku óhappi getur þú þess í stað valið að fókusa á hvað þarf að gera. Þú gætir jafnvel fundið fyrir þakklæti fyrir, til dæmis, að ekki fór verr.
Við getum ekki stjórnað því hvað kemur fyrir okkur en við getum alltaf valið hvers konar viðhorf við höfum til þess sem kemur fyrir okkur. Það er algjörlega undir þér komið.
Guðný Guðmunds fæddist árið 1986 og ólst upp á Vestfjörðum. Hún hefur aðallega verið búsett í Reykjavík en líka alið manninn í Barcelona, Finnlandi og Englandi. Í dag starfar hún sem texta- og hugmyndasmiður auk þess sem hún rekur Innblástur.is, upplýsingasíðu um nám, atvinnu og ferðalög fyrir ungt fólk. Guðný hefur þó mestan áhuga á andlegum málefnum og sjálfsrækt.