“Þú getur ekki bjargað neinum, segir Rúna kæruleysislega. Það er bara kommon sens. Forstor? Fólk sem þarf að bjarga nennir yfirleitt ekki að lesa lífsviskuna upp úr öðrum.”
– Ósjálfrátt e. Auði Jónsdóttur
Er vinkona þín of feit, pabbi þinn ósanngjarn, mamma þín óábyrg, samstarfsfélagi óþolandi og bróðir þinn í afneitun? Því fyrr sem þú sleppir takinu og áttar þig á að þú getur ekki breytt öðrum því betra. Það getur farið illa með sálarlíf þitt að standa í stríði sem þú munt aldrei vinna.
Kannski vill viðkomandi ekki breytast, kannski er viðkomandi sátt með líf sitt eins og það er, kannski er engin innri hvatning til staðar fyrir breytingu?
Ef það er málið þá er slagurinn tapaður áður en hann hófst.
Áttir þú ekki vinkonu sem deitaði helst stráka sem þurfti að “bjarga”?
Breyttust þeir einhvern tíma í raun?
Fóru þeir frá því að vera mestu skíthælar yfir í að verða almennilegir menn? Ég efa það.
Viðkomandi verður nefnilega sjálf/ur að vilja breytinguna. Það er t.d. engin að fara að halda út megrun/átak/lífsstílsbreytingu fyrir einhverja aðra manneskju en sjálfa sig. Það sem þú getur hins vegar gert er að kjósa að ganga í burtu eða breyta viðhorfi þínu, taka manneskjunni eins og hún er.
Það er líka alveg ótrúlega leiðinlegt og mögulega sárt fyrir vin – maka – móður að þú sért að reyna að þvinga einhverjum breytingum sem hún/hann vill ekki. Er ég ekki nógu góð/ur fyrir þig??
Í þessu samhengi langar mig að minnast á nýlegan pistil sem ég skrifaði um fólk sem að neitar að gangast við eigin mistökum. Fólk sem kennir aðstæðum og öðrum alfarið um eigin vandamál. Sumir voru ósammála mér en það var aðallega vegna misskilnings um að ég væri að gera lítið úr feitu fólki, sú var alls ekki raunin. Ég var einfaldlega að benda á þennan mannlega galla að vilja ekki taka ábyrgð á sjálfum sér, vilja ekki bjarga sér og kenna öðrum um hvernig komið er fyrir sér.
Að sjálfsögðu er hægt að hjálpa, að rétta hjálparhönd en á endanum erum það við sem björgum okkur sjálf! Og ef þú vilt breyta heiminum, þá byrjar þú á sjálfri þér 😉
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.