Hvað er meira aðlaðandi en manneskja sem er algjörlega hún sjálf?
Í skrifum dáist ég alltaf mest að því fólki sem þorir að vera það sjálft, já því það er svo sannarlega að þora. Það virðist hver einasti maður vera hræddur við að vera hann sjálfur. Ég hef alltaf verið það. En það er sem betur fer að breytast.
Ég hef lagt mikla vinnu í að sjá til þess að það breytist, sérstaklega undanfarin þrjú ár, með hjálp frá góðu fólki, fagaðilum sem veit hvaða spurninga þarf að spyrja og hvað ég þarf að horfast í augu við. Ég hef skrifað um það oft og mörgum sinnum, ótal sinnum áður en ég þorði loks að birta þau skrif. Ég var hrædd um að vera of opin, of einlæg, að fólki myndi finnast það kjánalegt.
En er sá ótti ekki einmitt það sem er kjánalegt?
Ég dáist ekki aðeins að fólki sem þorir að vera það sjálft, ég dáist að fólki sem þorir að játa að það sé ekki fullkomið, að það sé hrætt, kvíðið og stressað, og að það efist um sig sjálft nánast á hverjum einasta degi. Það var að minnsta kosti upplifun mín. Mig grunar að þú kannist við eitthvað svipað.
Ég geri mitt besta til þess að þagga niður í þeirri rödd, röddinni sem segir að ég sé ekki nógu góð, á öllum sviðum. Ég reyni að hlusta frekar á röddina sem er stolt af mér, sem veit að ég get gert hvað sem ég vil, sem sér hið besta í öðrum, það besta í mér, það besta í öllum aðstæðum. Ég veit að viðhorfið skiptir mun meira máli en aðstæðurnar.
Ég hef svo oft verið svo hrædd, hrædd við að standa mig ekki nógu vel, fyrir að vera ekki nógu klár eða nógu góð eða nógu hugmyndarík. Ég hef látið það fara í taugarnar á mér að ég lít ekki lengur út eins og ég leit út þegar ég var tvítug þegar ég gat klætt mig í hvað sem er og var sama um kílófjöldann því sú tala var svo lág.
Þetta er það sem djöfullinn á öxlinni segir. Engillinn segir að ég viti hversu gáfuð ég er. Að ég líti fullkomlega vel út. Að framtíðin sé björt, ekki af tilviljun, heldur af því að ég mun sjá til þess að svo verði. Að ég megi ekki efast, alls ekki um sjálfa mig. Að þessi pistill sé góður af því að einlægni er svo mikið betri en að þykjast.
Hversu þreytandi er það ekki að þykjast? Er ekki betra að vera sannur? Hreinskilinn við sjálfan sig og aðra? Ég held það. Það finnst mér aðlaðandi. Það felur í sér vellíðan.
Guðný Guðmunds fæddist árið 1986 og ólst upp á Vestfjörðum. Hún hefur aðallega verið búsett í Reykjavík en líka alið manninn í Barcelona, Finnlandi og Englandi. Í dag starfar hún sem texta- og hugmyndasmiður auk þess sem hún rekur Innblástur.is, upplýsingasíðu um nám, atvinnu og ferðalög fyrir ungt fólk. Guðný hefur þó mestan áhuga á andlegum málefnum og sjálfsrækt.