Magir setja sér markmið ár hvert, lítið eða stór, rituð niður á blað eða ekki. Þetta eru góðar venjur sem mörg stórmenni sverja fyrir.
Ef þú átt markmiðalista frá því í janúar þá er kominn tími til að draga fram listann og fara aðeins yfir hann. Ef þú átt ekki lista, þá er um að gera og skrifa einn akkúrat núna!
Ég er að reyna að temja mér þessar venjur og skrifa niður öll mín markmið um leið og mér detta þau í hug.
Ég veit að ég er ekki ein um að eiga stóra drauma sem hreinlega hræða mig og ég veit að það eru margir frábærir draumar sem fara í vaskinn því dreymandinn þorir ekki að biðja um að hann verði að veruleika.
Þar sem við erum samt öll orðin aðeins upplýstari, og vitum hvaða tól margar af okkar fyrirmyndum nota, þá er engin ástæða til að gefast upp á draumum okkar.
Núna þegar um fjórðungur ársins er búinn er gott að líta yfir listann þinn fyrir árið 2015 eða byrja að skrifa hann niður ef þú varst ekki búin/n að því.
Lestu hann vel yfir og sjáðu hvað það er sem þú hefur nú þegar náð að ljúka. Þú getur strokað yfir það sem þú ert búinn með og hvar þú þarft að setja meiri vinnu í markmiðin til að þau verði að veruleika.
Ef þú vilt byrja að skrifa listann þinn núna, en veist ekki alveg hvar þú átt að byrja, þá eru hér nokkur atriði til að hafa í huga. Þau virka einnig vel ef þú vilt uppfæra núverandi listann þinn og gera hann aðeins djarfari.
Skrifaðu:
- Eitthvað sem þú virkilega vilt í lífinu, ekki bara eitthvað sem hljómar vel
- Langtíma markmið og önnur til styttri tíma
- Settu tímaramma á hvenær þú vilt vera búin að ná markmiðinu, þ.e. ár, vikur eða daga
- Passaðu að þau passi saman, peningalega og tímalega séð
- Að þau séu nógu stór og ógnvekjandi
- Hvað hefur þú að bjóða samfélaginu og/eða heiminum?
- Vertu jákvæð
- Persónuleg markmið
- Atvinnutengd markmið
En vinnan er ekki búin hér. Hengdu listann upp á spegilinn sem þú lítur í á hverjum morgni, eða geymdu hann á náttborðinu.
Lestu listann yfir á hverjum degi ef þú vilt – bara það að líta reglulega á listann þinn og sjá hann minnir þig á markmiðin þín og þú ferð ósjálfrátt með þau með þér út í daginn. Vertu spennt yfir markmiðunum þínum. Taktu þessar tilfinningar með þér og láttu þær hvetja þig áfram.
Taktu lítil skref á hverjum degi og trúðu því að þú getir náð öllum þínum markmiðum og þú munt ekki klikka.
Erna er vatnsberi sem má ekkert illt sjá. Hún býr í stórborginni Bogotá í Kólumbíu ásamt manni sínum og syni. Erna er stúdent í tungumálum og samtímadansi, er yogakennari hjá Yoga Alliance en hún er jafnframt útlærður ferðamálafræðingur frá Ferðamálaskólanum í Kópavogi. Erna talar fimm tungumál og þrjú af þeim daglega. Hennar helstu áhugamál eru ferðalög, fjölskylda, hugur og heilsa.