Hvenær reiddist þú síðast? Ég á ekki við að þú hafir orðið smá pirruð, ég meina alveg virkilega reið? Hvernig leið þér þá? Hversu oft varðstu reið í síðustu viku? Hvað reiddi þig til reiði?
Það getur verið mjög einstaklingsbundið hversu auðvelt er að reita okkur til reiði. Ef til vill ert þú ein af þeim sem ert alltaf pollróleg og yfirveguð og lætur ekki hvað sem er koma þér úr jafnvægi. Það er alveg sama hvað á þér dynur, í hvaða aðstæðum þú lendir þá heldur þú ávalt þínu óaðfinnanlega jafnaðargeði og gefur þér tíma til að hugsa málið, finna bestu viðbrögðin áður en þú sýnir einhver viðbrögð.
Ef þessi lýsing á við þig þá er nokkuð víst að þú sért í miklum minnihlutahóp, eða þá að þú sért mjög tilfinningalega bæld, þú þorir af einhverjum ástæðum ekki að sýna viðbrögð þó svo að full ástæða væri til.
Ef til vill hefur þú ekki sjálf lent í vandræðum með reiðina þína en átt barn, ungling, já eða maka sem getur rokið upp í reiðiskasti þegar minnst varir, bara allt í einu án þess að þú sjáir hvað olli reiðinni.
Finndu orsökina
Það er alltaf eitthvað sem kemur reiðinni í gang, hvort heldur sem það er hjá þér sjálfri eða þeim sem þú umgengst. Í þeim tilvikum sem erfið reiðistköst eru tíð er mikilvægt að athuga hvernig hægt sé að hjálpa viðkomandi til að hafa hemil á viðbrögðum sínum í aðstæðum sem annars kalla fram heiftarlega reiði.
Það að reiðast eru í raun eðlileg viðbrögð og ekkert óeðlilegt við það að við reiðumst þegar við lendum t.d. í erfiðum aðstæðum, okkur er sýnd vanvirðing eða troðið á rétti okkar. Ástæðurnar fyrir því að við reiðumst geta í sjálfu sér verið alveg óteljandi. Reiðin er ein af þessum dýrmætu tilfinningum okkar sem við eigum að virða og leyfa að fá útrás þegar þannig stendur á. Stundum getur reiðin forðað okkur frá hættum en ef við ráðum ekki við reiðina og hún verður á einhvern hátt ofsafengin getum við misst stjórn á aðstæðum.
Orðum fylgir ábyrgð
Við verðum algjörlega brjáluð úr reiði og leiðumst hugsanlega út í að gera eitthvað sem við myndum alls ekki segja eða gera annars. Í slíkum tilvikum getur reiðin reynst okkur varasöm, jafnvel hættuleg. Það getur verið erfitt að græða sár sem verða til í reiðiskasti og ljót orð geta sært djúpum sárum ekki síður en líkamlegt ofbeldi og barsmíðar. Það er ekki hægt að spóla tilbaka og eyða út því sem var sagt vanhugsað og eða gert á hlut annars.
Það getur verið erfitt að tala við aðila sem er orðinn mjög reiður. Innri reiði getur magnast svo upp að hún yfirtaki alla rökhugsun og viðkomandi hreinlega gleymi eitt andartak bæði stund og stað. Þetta á ekki aðeins við fullorðna heldur getur þetta líka átt við börn og unglinga. Í slíkum aðstæðum borgar sig hugsanlega ekki að reyna að rökræða við þann reiða heldur hreinlega að leyfa reiðiskastinu að ganga yfir – svo fremi að ekki sé um ofbeldi að ræða. Að því loknu getur reynst auðveldara að ræða málin.
7 atriði til athugunar
Hvað er það sem kemur reiðinni í gang? Hvernig er hægt að vinna með reiðina til að reiðin verði ekki til þess að eitthvað neikvætt gerist. Svara við þessum spurningum getur þurft að leita vel og vandlega og getur tekið nokkurn tíma að finna þær lausnir sem henta viðkomandi best. Annað er almennara og getur oft hjálpað í vægari tilfellum:
1.
Það skiptir ekki höfuðmáli hvað gerist skömmu áður en reiðin brýst út heldur er það hvernig viðbrögðin við því verða.
2.
Hugsanir þínar stjórna tilfinningum þínum, ekki aðein hugsanir sem þú gerir þér grein fyrir heldur ekki síður ósjálfráðar hugsanir sem fljúga eins og eldibrandur í gegnum huga þinn og þú átt hugsanlega erfitt með að hafa hemil á.
3.
Hugsanir þínar eru aðeins hugsanir – það er alls ekki víst að þær séu á rökum reistar, það er etv. lítið sannleiksgildi sem styður þær.
4.
Þú getur lært að hafa áhrif á hugsanir þínar.
5.
Ef þú nærð að slaka smávegis á – þá áttu auðveldara með að ná völdum á reiði þinni.
6.
Með því að anda djúpt – hreyfa þig úr stað, jafnvel fá þér vatn að drekka og ganga aðeins um, þá getur það hjálpað þér til að ná áttum.
7.
Ef þú átt vanda til að fá reiðisköst við ákveðnar aðstæður, þegar eitthvað svipað er að gerast, þá getur þú fundið leið til að forðast að æsa þig verulega upp við þær aðstæður.
Ef þig langar til að fá fleiri ráð við reiðistjórnun þá er þér velkomið að senda mér línu á coach@coach.is og ég skal þá senda þér nokkur ráð í viðbót. Þá kæmi sér vel að þú skrifaðir mér við hvaða aðstæður þú reiðist helst.
Með bestu kveðjum
Jóna Björg Sætran M.Ed. markþjálfi, HAM
www.coach.is
Jóna Björg er menntunarfræðingur, M.Ed., frá KHÍ, er með alþjóðlega vottun sem ACC markþjálfi frá ICF (International Coach Federation) og er einnig Feng Shui ráðgjafi.
Í vetur hefur Jóna Björg svo lagt stund á Hugræna atferlismeðferð (HAM) í Endurmenntun HÍ. Jóna Björg starfar sjálfstætt við einkaleiðsögn, námskeiðahald, ritstörf, fyrirlestra og ráðgjöf jafnt hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Hún var leiðbeinandi hjá Brian Tracy International hér á landi og er fyrrverandi námstjóri hjá menntamálaráðuneytinu.
Jóna Björg fer ótroðnar slóðir, elskar að takast á við krefjandi verkefni og finnst langmest gefandi að vinna með fólki að bættri líðan, meiri hamingju og hugrró.
Einkunnarorð hennar eru: Blómstraðu í einkalífi og starfi, njóttu þess að vera þú!