Eitt það dýrmætasta sem þú getur eignast er góður vinur eða góð vinkona. Manneskja sem þú getur deilt gleði þinni og ánægjustundum með.
Enn dýrmætari er sá vinur eða vinkona sem þú getur líka deilt með vonbrigðum, erfiðleikum, sorg, depurð, þunglyndi og angist. Einhvern sem hlustar, einhver sem þú getur treyst.
Vonandi átt þú slíka vini.
Ræktaðu vináttuna við þá vel og leyfðu þeim að vita hvers virði þeir eru þér. Þú þarft ekki að eiga marga slíka vini, í raun dugar aðeins einn.
Hver dregur sig í hlé?
Þegar þú lítur yfir vinahópinn í huganum, kemur þér þá einhver í hug sem hefur eitthvað verið að draga sig í hlé úr hópnum? Hvers vegna heldur þú að svo sé?
Nú þarf að passa sig á því að mistúlka ekki aðstæður, viðbrögð og hegðun annarra. Það má alls ekki að búa til einhverjar ástæður sem reynast svo alls ekki réttar. Það er nefnilega ansi auðvelt að misskilja hlutina, bæði það sem er gert – en ekki síður það sem er látið ógert.
Ef þig grunar að eitthvað ami að vinkonu þinni, ekki leiða það þá hjá þér. Það er ekki alltaf best að láta eins og ekkert sé. Þegar eitthvað mikið er að, þá getur verið óyfirstíganlega erfitt fyrir vinkonu þína að koma orðum að því án þess að hún brotni niður.
Í svona tilvikum gætir þú sýnt henni vinarhug með því að leita eftir að nálgast hana á varfærinn hátt, ekki spyrja endilega hvað sé að heldur frekar að reyna að brydda upp á einhverju skemmtilegu.
Við það gæti vinkonu þinni farið að líða agnarögn betur. Hugsanlega gerir hún sér kannski grein fyrir að einhvern gruni að eitthvað sé að og líður ekki síður illa út af því að geta ekki viðhaldið grímunni á nógu sannfærandi hátt.
Ef vinkona þín ákveður að trúa þér fyrir erfiðleikum sínum þá gerir þú best í því að hlusta og þegja og leyfa henni að tala.
Já, ég sagði að þú ættir að þegja og hlusta!
Það er einmitt þetta sem vantar svo mikið í nútímanum, fólk má ekki vera að því að hlusta. Það er ógrynni af einstaklega hjálpsömu fólki út um allt, fólki sem veit allt og skilur allt, fólki sem telur sig vita langbest hvað hentar þér að gera í þínum erfiðleikum.
Það að geta hlustað virkri hlustun má flokka undir dyggð. Það að virkilega leggja sig eftir því að hlusta og skilja það sem er sagt – og ekki síður að reyna að skilja það sem ekki er sagt en látið liggja á milli línanna.
Þegar vinkonan fær að tala út – og heyrir sig yrða vandamálið, þá geta úrlausnirnar farið að koma nær dagsljósinu, hennar eigin úrlausnir sem eru byggðar á hennar eiginn raunveruleika, hugmyndum og hamingju. Aðeins hún veit hvað hún vill. Hún getur sagt þér drauma sína og þrár en þú skilur það í gegnum þína eigin túlkun af því sem sagt er. Eftir því sem vandinn er stærri, þeim mun meiri styrk þarf vinkona þín á að halda.
Ég tel að þú gerir þér grein fyrir því að hér er ég alls ekki að tala um vinkonu eða kunningjakonu sem kemur reglulega til þín til að kvarta yfir öllu og engu – það er allt annað mál sem við skulum skoða síðar.
Átt þú vanda til að grípa fram í fyrir öðrum?
Ef þú hefur tilhneigingu til að taka fram í fyrir öðru fólki þá skaltu endilega venja þig af því, eða réttara sagt:
Vendu þig á að leyfa viðmælanda þínum að tala út, ljúka máli sínu.
Ef þú hins vegar ert alveg að gefast upp á því að tjá þig í fjölmenni vegna þess að þar verður alltaf einhver til að grípa fram í fyrir þér – þá er kominn tími á að þú stoppir þetta fólk af.
Það er um að gera fyrir þig að þagna frekar en að hækka róminn. Hættu bara að tala – og þegar viðkomandi þagnar, horfðu þá bara á hann og spurðu kurteislega hvort þú getir fengið að halda áfram. Þetta hljómar ef til vill hálf kjánalega en það er þess virði fyrir þig að prófa.
Mundu að með því að bera virðingu fyrir sjálfri þér – sýnir þú einnig öðrum virðingu.
Jóna Björg Sætran, M.Ed., ACC markþjálfi og Feng Shui ráðgjafi Námstækni ehf.
http://www.namstaekni.is
Jóna Björg er menntunarfræðingur, M.Ed., frá KHÍ, er með alþjóðlega vottun sem ACC markþjálfi frá ICF (International Coach Federation) og er einnig Feng Shui ráðgjafi.
Í vetur hefur Jóna Björg svo lagt stund á Hugræna atferlismeðferð (HAM) í Endurmenntun HÍ. Jóna Björg starfar sjálfstætt við einkaleiðsögn, námskeiðahald, ritstörf, fyrirlestra og ráðgjöf jafnt hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Hún var leiðbeinandi hjá Brian Tracy International hér á landi og er fyrrverandi námstjóri hjá menntamálaráðuneytinu.
Jóna Björg fer ótroðnar slóðir, elskar að takast á við krefjandi verkefni og finnst langmest gefandi að vinna með fólki að bættri líðan, meiri hamingju og hugrró.
Einkunnarorð hennar eru: Blómstraðu í einkalífi og starfi, njóttu þess að vera þú!