Heilbrigð sál og heilbrigður líkami = Samræmi ?
Allt frá barnæsku höfum við verið mjög meðvituð um líkamlega heilsu okkur. Ef við duttum sem börn var alltaf settur plástur á sárið. En hvar hefur plásturinn fyrir andlega líðan verið öll þessi ár ?
Eflaust kannast allir við það að um leið og tilfinningarnar fóru að koma fram þá var bara sagt við mann „Hættu að gráta“, „Hertu þig upp“ „Vertu ekki að þessu væli endalaust“. Þess vegna er ekkert skrýtið að við veitum líkamlegri heilsu okkar meiri athygli og gleymum jafnvel að huga að andlegu hliðinni og tilfinningum okkar.
Hér koma algeng sár sem við fáum á sálina sem enginn kemst hjá því að upplifa einhverntímann á ævinni:
MISTÖK: Að mistakast skerðir hugsun og sýn okkar á markmiðum og hæfni okkar. Við gefumst jafnvel upp á því að ná markmiðinu því okkur finnst það of langsótt, hvatningin minnkar og drögum úr okkur sjálfum sem manneskju.
MISSIR: Að missa eða tapa einhverju mikilvægu í lífinu er eitthvað sem við komumst ekki hjá. Oft reynist okkur erfitt að halda áfram, við fyllumst örvæntingu og fyllumst uppgjöf. Sjálfsvorkun gerir vart um sig og við verðum beisk út í lífið og tilveruna.
HÖFNUN: Að upplifa höfnun er mjög erfitt fyrir okkur og eftir að hafa upplifað hana einu sinni þá reynum við að forðast hana það sem eftir er. Að vera hafnað hrindir af stað sjálfsefa, vonleysi og depurð hjá okkur.
SÆRANDI ATBURÐIR: Oft lendum við í erfiðum aðstæðum sem fela jafnvel í sér ósanngjörn samskipti, neikvæða hegðun annara gagnvart okkur eða jafnvel slæmt umtal. Við förum að velta okkur upp úr og taka hlutunum persónulega og annars vegar efast um ágæti okkar, verðum döpur, kvíðin, reið og sár.
Eins og sjá má spila allir þessir þættir inn á tilfinningar okkar, hvernig getum við þá stuðlað að því að verða tilfinningalega heilbrigð ?
1.
Við verðum hreinlega að sætta okkur við það að mistök verða alltaf partur af lífsleið okkar og við komumst ekki hjá því að gera þau. Þá er gott að spyrja sig að því hvaða áhrif hafa þau á líf mitt í dag. Hvernig túlkar þú mistökin þín ? Gott er að horfa á mistökin sem nauðsynleg til að þroskast og verða betri manneskja. Það er bannað að velta sér upp úr þeim því þú getur engu breytt sem orðið er. Horfðu á þá þætti sem þú hefur stjórn á, breyttu því sem þú getur breytt.
2.
Að missa er erfitt að sætta sig við, en missir er einn af þeim þáttum í lífi okkar sem við höfum ekki mikla stjórn á, þess vegna verðum við að setja þá túlkun á missinn að það sé einhver tilgangur og þýðing á bakvið það að missa. Gott er að horfa á það hvað við höfum öðlast, sumt fáum við bara að láni til að upplifa eða sjá hlutina í nýju ljósi.
3.
Höfnun er nauðsynlegur hluti af þroskaferli okkar. Við verðum að horfa á hverja höfnun sem skref í þá átt að verða sterkari, reyndari og þroskaðri manneskju. Þegar okkur er hafnað verðum við að hætta því að fara í sjálfsásökun því hún dregur okkur bara niður og gerir höfnunina enn verri. Reynum að sjá frekar kosti og styrkleika sem við búum yfir og sjáum tækifærin.
4.
Fyrst og fremst þurfum við að gera okkur grein fyrir þeim þáttum í umhverfi okkar sem við höfum ENGA stjórn á eins og hegðun annara. Túlkun og skýring okkar á atburðum er það eina sem við höfum stjórn á. Ekki velta þér upp úr hlutunum, ekki taka þá persónulega og horfðu á hlutina sem tímabundna. Brjóttu upp vanabundið hugsanamynstur sem einkennist af neikvæðni og sjálfsgagnrýni.
5.
Sumir dagar eru betri en aðrir dagar og við erum misjafnlega stemmd. Þegar við erum ekki upp á okkar besta höfum við tilhneigingu til þess að detta í sjálfsgagnrýni. Notaðu líkingarmynd og settu upp tilfinningalegt ónæmiskerfi sem hjálpar þér að byggja upp sjálfsmyndina í stað þess að rífa hana niður.
Ragnheiður Guðfinna er fædd árið 1980. Hreinræktaður Vestmannaeyingur í húð og hár. Hún hefur í gegnum tíðina sinnt ýmsum störfum til sjávar og sveita, meðal annars tekið á því í netavinnu og humarvinnslu, sinnt fyrirsætustörfum og sölu -og markaðsmálum svo sitthvað sé nefnt en í dag starfar hún sem ráðgjafi í vinnusálfræði hjá Stress.is. Ragnheiður á tvö börn og á fyrirtaks mann sem tekur rómantíkina alvarlega.