Í dag, fimmtudaginn 8 nóvember er alþjóðlegur dagur gegn einelti en einelti er eitt það ljótasta sem er til í hegðun mannfólksins. Það birtist í ótal myndum, fer oft afar leynt og skilur eftir sig djúp sár sem gróa stundum aldrei um heilt.
Sumir upplifa einelti strax í leikskóla, ótrúlegt en satt – en hvaðan læra fjögurra til fimm ára börn að koma illa fram við leikfélaga sína, aftur og aftur? Er það vegna þess að þau læra af þeim sem eldri eru heima fyrir?
Aðrir upplifa einelti í æsku frá nákomnum ættingjum. Þá heitir það að það sé verið að „glettast við krakkann, eða unglinginn, bara smá stríðni eða hrekkir sem ástæðulaust sé að taka alvarlega“.
„Það má jú grínast smá, ekki satt“? Það sem einn upplifir sem grín getur valdið öðrum varanlegu andlegu meini. Hér er ekki auðvelt að fara í felur til að forðast ofbeldið.
Svo er það skólinn. Það er alveg magnað hvað sumir komast upp með að níðast á öðrum dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð og það innan veggja grunnskólans. Dæmin sýna að það er stundum lítið að marka fögur orð uppi á vegg um að einelti líðist ekki. Foreldrar láta börn sín jafnvel skipta um skóla til að forða barni sínu úr hrinu eineltis. Þar sem það er hægt þá er það oft besta lausnin í bili.
Sárin sitja þó eftir og það þarf að græða þessi sár. Barnið eða unglingurinn þarf að skilja – og ekki bara skilja heldur líka trúa því – að eineltið sé ekki vegna þess að hún eða hann sé ómöguleg/ur, ljót/ljótur, heimsk/ur, leiðinleg/ur – eða hvaða ástæðu sem gerendurnir gáfu nú sem ástæðu fyrir “stríðninni”. Eineltið er ekki fórnarlambinu að kenna. Eineltið er sök gerendanna.
TILRAUN TIL AÐ SÝNA YFIRBURÐI
Einelti er oft notað til að upphefja sig í augum félaga sinna, sýna yfirburði sína, ná fram vilja sínum að lokum þegar fórnarlambið er orðið uppgefið og varnarlaust. Einelti situr í hjarta þess sem verður fyrir því og getur ekki talað um það við neinn. Það veldur ekki síður hjartasárum hjá þeim fórnarlömbum sem herða upp hug sinn og láta aðra vita af eineltinu – stundum er það ekki einu sinni til neins að segja frá því þegar það er ekkert að gert, og stundum kemur upp eftirsjá yfir því að hafa sagt frá því gerandinn fréttir af því og eineltið versnar og verður harkalegra.
STYRKUR Í AUKNU SJÁLFSTRAUSTI
Eitt af því sem við getum gert til að yfirvinna erfiðar upplifanir og minningar um einelti er að byggja upp sjálfstraust og sjálfsvirðingu. Þetta er líka eitt sterkasta aflið sem við getum notað til að byggja upp börnin okkar til að hjálpa þeim, til að þau geti höndlað einelti ef – eða þegar – þau upplifa það í einhverri mynd.
Svo er það líka staðreynd að gerendurnir leiðast stundum út í einelti vegna þess að aðrir leggja þá í einelti. Þessir einstaklingar eru stundum svo veikgeðja að þeir láta auðveldlega að stjórn til að fá að vera “vinir” hinna sterku. Þessir einstaklingar þurfa jafnvel líka hjálp síðar meir til að sættast við sjálfa sig vegna þess sem þeir hafa gert á hlut annarra. Samviskubitið getur orðið mikið og niðurbrjótandi.
FULLORÐNIR GERA ÞETTA LÍKA
Einelti fyrirfinnst ekki síður hjá fullorðnum, t.d. á vinnustöðum. Fórnarlömbin geta verið karlmenn ekki síður en konur. Einelti er svo margþætt. Einhver sem vill mikla sjálfa/n sig og sér hugsanlegan höggstað á starfsfélaga fer að fikta smá við að gera lítið úr starfsframlagi starfsfélagans.
Það byrjar kannski smátt og er lítt áberandi en getur vaxið með ógnarhraða. Lítillækkandi orð – og ótrúlegt en satt – líka orð sem eru EKKI sögð, bara verið að gefa eitthvað í skyn “undir rós”, þetta hleðst upp þar til fórnarlambinu er farið að líða verulega illa. Ef gerandinn er stjórnandinn á staðnum, eða “innundir” hjá stjórnandanum, þá reynir fórnarlambið að harka þetta af sér en vanlíðanin vex með ógnarhraða og angistin sem þetta getur leitt af sér teygir anga sína langt út fyrir vinnustaðinn. Það verður erfiðara að gefa af sér heima fyrir gagnvart maka og börnum, andvökumínúturnar verða að klukkustundum, matarlystin minnkar, höfuðverkurinn eykst. Það verður erfitt að mæta í vinnuna. Hvað svo?
[poll id=”57″]Með bestu kveðju,
Jóna Björg Sætran markþjálfi coach@coach.is
Jóna Björg er menntunarfræðingur, M.Ed., frá KHÍ, er með alþjóðlega vottun sem ACC markþjálfi frá ICF (International Coach Federation) og er einnig Feng Shui ráðgjafi.
Í vetur hefur Jóna Björg svo lagt stund á Hugræna atferlismeðferð (HAM) í Endurmenntun HÍ. Jóna Björg starfar sjálfstætt við einkaleiðsögn, námskeiðahald, ritstörf, fyrirlestra og ráðgjöf jafnt hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Hún var leiðbeinandi hjá Brian Tracy International hér á landi og er fyrrverandi námstjóri hjá menntamálaráðuneytinu.
Jóna Björg fer ótroðnar slóðir, elskar að takast á við krefjandi verkefni og finnst langmest gefandi að vinna með fólki að bættri líðan, meiri hamingju og hugrró.
Einkunnarorð hennar eru: Blómstraðu í einkalífi og starfi, njóttu þess að vera þú!