Hvernig væri að fara í smá naflaskoðun varðandi það hvernig þú kemur fram við sjálfa þig?
Þú ert mikilvægasta persónan í þínu eigin lífi, ekki maki þinn eða börnin þín – heldur ÞÚ.
Þetta er ekki hroki heldur staðreynd. Þú hefur það í hendi þér hvernig þú byggir upp líf þitt og hamingju og ef eitthvað er öðruvísi heldur en þú vilt hafa það þá er það fyrst og fremst á þinni eigin ábyrgð að breyta aðstæðum, hafa þau áhrif að viðkomandi mál fái farsæla lausn.
Það er ekki þar með sagt að þú þurfir að kenna þér um allt það sem fer til verrar vegar í lífi þínu, málin eru sjaldnast það einföld.
Krossgötur, hringtorg og blindgötur
Það tekur alltaf minnst tvo til að deila og það getur tekið mun fleiri aðila í umhverfi manns til að koma sjálfum sér í klandur þó maður eigi jú alltaf sjálfur einhvern þátt. Þannig er lífið.
Það er margir hliðarstígarnir og krókarnir á lífsleið hverrar manneskju, margar krossgötur, mörg hringtorg og einstaka blindgötur. En – það er alltaf einhver leið út úr þessu öllu saman, ef ekki annað þá smá hjáleið yfir hóla og hæðir, möl og læki og þá er loksins hægt að komast aftur inn á breiða veginn á ný, þennan með bundna slitlaginu.
Lífsgleðin þín, skiptir hún ekki máli?
Það hvernig þú kemur fram við þig getur haft ótrúlega mikil áhrif á lífsgleði þína, hamingju og velsæld. Samt er það svo að mörgum finnst hálf óþægilegt að tala vel um sjálfa sig, hvað þá að hrósa sjálfum sér í áheyrn annarra. Mörgum þykir það mont eða hroki.
En þarf það að vera svo? Er ekki í góðu lagi að segja frá því sem vel tekst til – án þess að það sé mont?
Er ekki upplagt að hrósa sér og jafnvel verðlauna sig á einhvern hátt fyrir þá sigra sem þú vinnur í þínu persónulega lífi, þegar þú ert að byggja þig upp og finnur að þér hefur tekist vel til? Þú myndir jú hrósa öðrum, jafnvel verðlauna aðra.
Hvað gerist þegar þér mistekst eitthvað?
Hvernig hugsar þú þá um það sem fór úrskeiðis?
Rakkar þú þig endalaust niður, fyrirverður þig fyrir mistökin, sannfærð um að engum takist eins vel til að klúðra málum en þér, já einmitt þér?
Hvað með ef það sama hefði gerst varðandi besta vin þinn eða bestu vinkonu þína?
Hefðir þú skammast í þeim á sama hátt og þú rakkar þig niður fyrir mistökin – eða hlustað á þau, leyft þeim að tjá hug sinn og hughreyst þau síðan og hvatt þau til að gera það sem þau geta til að gera sem best úr málunum?
Hvort finnst þér hæfa betur, að særa þau með fúkyrðum og stingandi skömmum eða að leggja þitt af mörkum til að smyrja sár þeirra með fallegum hughreystingarorðum, hvatningu og vinarhug?
Nú er það þitt að svara.
Sýndu þér þá nærgætni að þegar þú lendir næst í vanda, þá komir þú svipað fram við þig eins og ef um besta vin þinn eða bestu vinkonu þína væri að ræða. Þannig sýnir þú þér líka virðingu, sjálfsvirðingu – annað flokkast undir sjálfsfyrirlitningu og getur engan veginn orðið þér til góðs.
Vertu þinn besti vinur, þín besta vinkona og komdu fram við þig af nærgætni og vinarhug. Leyfðu þér að elska þig eins og þú ert. Blómstraðu! Njóttu þess að vera þú!
Jóna Björg er menntunarfræðingur, M.Ed., frá KHÍ, er með alþjóðlega vottun sem ACC markþjálfi frá ICF (International Coach Federation) og er einnig Feng Shui ráðgjafi.
Í vetur hefur Jóna Björg svo lagt stund á Hugræna atferlismeðferð (HAM) í Endurmenntun HÍ. Jóna Björg starfar sjálfstætt við einkaleiðsögn, námskeiðahald, ritstörf, fyrirlestra og ráðgjöf jafnt hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Hún var leiðbeinandi hjá Brian Tracy International hér á landi og er fyrrverandi námstjóri hjá menntamálaráðuneytinu.
Jóna Björg fer ótroðnar slóðir, elskar að takast á við krefjandi verkefni og finnst langmest gefandi að vinna með fólki að bættri líðan, meiri hamingju og hugrró.
Einkunnarorð hennar eru: Blómstraðu í einkalífi og starfi, njóttu þess að vera þú!