Sjálfsskoðun síðasta árs hefur leitt mig á marga áhugaverða staði en í haust heimsótti ég til að mynda Fjólu Jensdóttur sem sérhæfir sig í védískri speki eða hinum indversku fræðum Ayurveda.
Það eina sem ég vissi um Ayurveda var að það væru indversk fræði og að fólk væri samkvæmt henni flokkað í þrjár mismunandi týpur sem hefðu áhrif á það hvers konar lifnaðarhættir og hvaða fæða væri best fyrir mann. Það sem kom mér mest á óvart var að þessi fræði voru raunar mun einfaldari en ég hafði gert mér í hugarlund.
Ég heillaðist af þessari speki enda snýst hún í grunninn um jafnvægi. Hún tengist náttúrunni og þeirri hugmynd að allt eigi sér stað og stund. Að lífið gangi sinn vanagang og að það sé enginn ástæða að þjóta um allt eins og hauslaus hæna að reyna að afreka allt sem við höldum að við þurfum að afreka á sem stystum tíma.
Við eigum þvert á móti að leyfa okkur að dvelja í kyrrð og framkvæma í rólegheitum enda er það fýsilegur möguleiki. Það eitt að skapa sér rútínu og fylgja henni er gjarnan nóg til þess að sleppa tökunum á þeim kvíða og stressi sem mörg okkar halda að sé eðlilegur partur af okkar lífi.
Fjóla blandar sínum ráðleggingum um heilsu og matarræði saman við indverska stjörnuspeki sem er fyrirrennari hinnar vestrænu. Það sem hún sagði mér um það sem á undan var gengið hjá mér stóðst afar vel og því verður forvitnilegt að uppgötva hvort hið sama reynist satt um framtíðina.
Ég skal játa það að ég hef ekki verið dugleg við að breyta mataræðinu eftir ráðleggingum Fjólu, að minnsta kosti ekki enn sem komið er. Að hitta hana sáði engu að síður fræjum í huga mér um hvers konar lífstíl ég vil móta mér. Skilaboðin sem við fáum frá samfélaginu snúast svo oft um að við eigum að afreka svo margt, því fyrr því betra, allt til þess að sanna okkur og hljóta viðurkenningu frá umhverfi okkar.
Það er þó ekkert sem segir að við þurfum að hlíta því. Það er nefnilega ekkert að því að slaka á kröfunum og njóta lífsins í jafnvægi.
Guðný Guðmunds fæddist árið 1986 og ólst upp á Vestfjörðum. Hún hefur aðallega verið búsett í Reykjavík en líka alið manninn í Barcelona, Finnlandi og Englandi. Í dag starfar hún sem texta- og hugmyndasmiður auk þess sem hún rekur Innblástur.is, upplýsingasíðu um nám, atvinnu og ferðalög fyrir ungt fólk. Guðný hefur þó mestan áhuga á andlegum málefnum og sjálfsrækt.