Mig langaði að setja niður nokkur orð vegna umræðunnar undanfarið um hómópatíu og heildrænar lækningar.
Þegar ég byrjaði í viðtalsmeðferð fyrir nokkrum árum til að vinna úr því að hafa alist upp við alkóhólisma og verið lögð í einelti í grunnskóla þá fór ég á sama tíma til hvoru tveggja; Sálmeðferðaraðila og heilara.
Í fyrsta skipti sem ég fór í heilun vissi ég að sjálfsögðu ekki alveg við hverju ég ætti að búast.
Eftir að hafa spjallað við heilarann í rúmlega hálftíma lagðist ég á bekkinn en fann ekki fyrir miklu í fyrstu. Á ákveðnum tímapunkti benti heilarinn mér hins vegar á það að það væri eitthvað á magasvæðinu sem væri að trufla mig og bað mig að anda djúpt niður í maga.
Grét inn í eyru
Þegar ég gerði það fann ég sterkt fyrir því að losnað hefði um eitthvað og byrjaði að gráta… og grét svo eins og stunginn grís í rúman hálftíma, svo mikið raunar að tárin láku niður andlitið á mér og út í eyru.
Það sem var að gerast þarna var að ég fann skyndilega fyrir tilfinningum sem ég hafði ýtt niður á sínum tíma í von um að koma í veg fyrir að þurfa að upplifa sársaukann sem þeim fylgdi. Þetta er það sem við gerum mörg hver sem verðum fyrir áföllum í lífinu, sérstaklega á unga aldri. Við reynum að láta eins og vanlíðan okkar sé ekki til enda kunnum við ekki að fá heilbrigða útrás fyrir hana.
Þessar tilfinningar fara hins vegar ekki neitt, við geymum þær einfaldlega í líkama okkar í staðinn. Ef ekkert er að gert verða þær fyrr eða síðar að líkamlegum verkjum. Dæmi um slíkt er vöðvabólgan sem var minn daglegi fylgifiskur þangað til ég hætti að taka ábyrgð á fólkinu í kringum mig – álagið sem ég lagði á sjálfa mig lyftist bókstaflega af öxlum mínum.
Hugur og líkami eru sama fyrirbærið
Ég veit núna að líkami okkar og hugur eru svo sannarlega ekki aðskilin. Það var hins vegar langt ferli að átta mig á því. Þegar ég fór út í mína sjálfsvinnu þá þurfti ég að læra að undir niðri væri ég uppfull af tilfinningum líkt og ótta, reiði og sorg. Ég var hins vegar búin að loka svo algjörlega á tilfinningar mínar, deyfa mig svo lengi, að ég fann ekki fyrir nokkrum sköpuðum hlut.
Það tók mig tíma að tengjast líkama mínum aftur og finna fyrir þessum tilfinningum, sem var það sem ég þurfti að gera til þess að fá útrás fyrir þær. Það var svo sannarlega ekki skemmtilegt enda upplifði ég þessar erfiðu tilfinningar jafn sterkt og daginn sem ég fann fyrir þeim fyrst.
Það sem heilunin gerði fyrir mig – og síðar höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð – var að hjálpa mér að losa um þessar tilfinningar, sem oft á tíðum liggja eins og þungur klumpur í líkama manns, og fá fyrir þær útrás. Mín upplifun er sú að það sé algjör grundvöllur fyrir því að ná bata.
Ég er búin að vera í þessari sjálfsvinnu í nokkur ár núna og ég er ennþá að uppgötva gamlar tilfinningar sem ég þarf að vinna úr. Ef ég finn fyrir líkamlegum verkjum í dag þá veit ég að þar liggur tilfinningaleg orsök að baki og ég geri mitt besta til að finna út úr því, annað hvort með því að líta inn á við eða með hjálp fagaðila.
Að sjálfsögðu eru til fúskarar í þessum geira sem og öðrum stéttum sem ætla að selja fólki alls konar töfralausnir.
Það fallega við heildrænar lækningar er hins vegar að engum töfralausnum er lofað – þvert á móti útskýra þær að það sem við hugsum og upplifum hefur áhrif á líkamann og að það tekur tíma að vinna úr gömlum sárindum til þess að ná huglægum sem og líkamlegum bata.
Það er nefnilega alls ekki væmið að tala um tilfinningar okkar. Það er lífsnauðsynlegt.
Guðný Guðmunds fæddist árið 1986 og ólst upp á Vestfjörðum. Hún hefur aðallega verið búsett í Reykjavík en líka alið manninn í Barcelona, Finnlandi og Englandi. Í dag starfar hún sem texta- og hugmyndasmiður auk þess sem hún rekur Innblástur.is, upplýsingasíðu um nám, atvinnu og ferðalög fyrir ungt fólk. Guðný hefur þó mestan áhuga á andlegum málefnum og sjálfsrækt.