Brian Tracy sagði eitt sinn að ef við skipuleggjum ekki það sem við þurfum að gera til að færast nær markmiðum okkar þá séum við í mörgum tilvikum að vinna skipulega að því að ná ekki markmiðunum.
Kannast þú við þessa ógnvænlegu tilfinningu? Helgin var að byrja og í huganum ertu með ótrúlega langan lista af hinu og þessu sem þú bara verður að drífa í.
Það er aldrei tími til neins og þú ert alltaf á fullu, samt verður þér lítið úr verki, tekst ekki að koma hlutum í verk og staflinn bara hækkar.
Hvaða hugsanir fara í gegnum huga þinn þegar þú uppgötvar að þú gleymdir að gera eitthvað sem var í raun ansi mikilvægt?
Í staðinn náðir þú jú að vísu að gera eitthvað– EN þetta sem þú náðir að gera, var það jafn ákallandi og hitt – sem þú náðir ekki að gera?
Með því að skipuleggja og forgangsraða náum við að gera mun meira en ef við gerðum það ekki. Framkvæmum það sem er mikilvægast frekar en það sem skiptir minna máli og getum samt náð að vera afslöppuð, halda stillingu og hugarró.
SVONA FERÐU AÐ
Finndu nú blað og blýant. Hugsaðu aðeins um það sem þú hefur trassað að gera að undanförnu, eitthvað sem þér finnst að þú hefðir þurft að gera.
Skrifaðu niður þau tíu til tuttugu atriði sem koma fyrst upp í hugann. Þú skrifar bara allt sem þér dettur í hug.
Skrifaðu þau upp í lóðréttan dálk og merktu hvert og eitt með tölustöfum. Númeraröðin segir hér ekkert til um hvort eitt atriði sé mikilvægara en annað. Þetta er bara það sem þú ert með í kollinum og þarf að framkvæma.
1. Bjóða Siggu systir í mat
2. Sækja um vinnu
3. Endurvinnslan
4. Skipta um peru
Skrifaðu að minnsta kosti 10 atriði.
Þegar þessu er lokið er að setja atriðin í forgangsröð.
Það gerir þú með því að bera alltaf saman tvö og tvö atriði í senn og velja þá það atriði sem er þér mikilvægara en hitt. Hvort er þér mikilvægara nr. 1 eða nr. 2?
Segjum að það sé nr. 2. Þá eru það næstu tvö atriði, það er að segja atriðið sem þú valdir áðan, nr. 2 sem þú berð núna saman við atriði nr. 3.
Segjum að nr. 2 hafi enn vinninginn – þá er það borið saman við nr. 4 – og þannig koll af kolli þannig að það atriði sem stendur eftir í lok samanburðarrununnar má telja mikilvægast.
Síðan er að skilgreina hvað þarf í raun að gera til að þú hefjir framkvæmdir, þú ákveður einnig og skrifar niður hvenær þú munt vinna í þessu.
Þessi einfalda aðferð virkar vel á allt val, meira segja til að finna hvaða þætti þú vilt leggja meiri áherslu á í eigin fari.
Við skulum skoða það fljótlega en byrjaðu á því að æfa þig á þessu til að nýta tímann betur – gera það sem er þarft að gera og geyma hitt þar til síðar – eða jafnvel að sleppa einhverju sem allt í einu virðist ekki eins mikilvægt og við héldum áður.
Um leið og þetta kemst upp í vana nærðu mikið betri tökum á lífinu og tilverunni og um leið færðu eftirsótta hugarró og MEIRI TÍMA!
Gangi þér vel!
Jóna Björg Sætran, markþjálfi
Jóna Björg er menntunarfræðingur, M.Ed., frá KHÍ, er með alþjóðlega vottun sem ACC markþjálfi frá ICF (International Coach Federation) og er einnig Feng Shui ráðgjafi.
Í vetur hefur Jóna Björg svo lagt stund á Hugræna atferlismeðferð (HAM) í Endurmenntun HÍ. Jóna Björg starfar sjálfstætt við einkaleiðsögn, námskeiðahald, ritstörf, fyrirlestra og ráðgjöf jafnt hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Hún var leiðbeinandi hjá Brian Tracy International hér á landi og er fyrrverandi námstjóri hjá menntamálaráðuneytinu.
Jóna Björg fer ótroðnar slóðir, elskar að takast á við krefjandi verkefni og finnst langmest gefandi að vinna með fólki að bættri líðan, meiri hamingju og hugrró.
Einkunnarorð hennar eru: Blómstraðu í einkalífi og starfi, njóttu þess að vera þú!