Ég skrifaði eftirfarandi færslu á mitt eigið blogg fyrir rúmlega ári en greinin um vesalings grísku fréttakonuna vakti mig til umhugsunar aftur.
Reyndar vekur allt sem ég les í tengslum við reynslu fólks af átröskunarsjúkdómum mig til umhugsunar. Mér finnst ég svo oft lesa orð eins og að ,,ganga of langt” og hvernig fólk gat látið þetta ,,ganga svona langt”. Þetta er engin spurning um það. Ekki í augum sjúklingsins. Hann hefur fyrir löngu tapað öllu sem heitir almenn skynsemi eða einhverkonar takmörk.
Þegar ég var upp á mitt versta og iðulega við það að falla í yfirlið úr hungri hugsaði ég aldrei um hversu langt ég væri gengin. Aldrei!
Ég var bara svo ferlega sátt með að ég skyldi vera búin að sleppa þvi að borða í ákveðið langan tíma. Hvort sem það var sólahringur eða heil vika. Þvílíkt afrek sem það var í augum verulega veikrar manneskju. Hugsun manns verður svo brengluð að það er vart hægt að koma því í orð. Ég er til allrar hamingju heil manneskja í dag. Eða eins heil og ég mögulega verð eftir þessa lífsreynslu og baráttu.
Sjúkdómurinn býr með mér þó við eigum orðið lítil samskipti í dag. Undir vissum kringumstæðum leitar hann á mig, reynir að tæla mig af því að hann veit að stundum er ég veikgeðja. Þrjú ár síðan ég sagði honum upp – skrefin hafa verið ótal mörg. Aftur á bak og áfram. Fyrir ári skrifaði ég þetta og staðan er enn sú sama í dag, Guði sé lof:
Ég er á rosalega ruglingslegum stað í lífinu þessa dagana. Í fyrsta skipti, nánast frá því ég man eftir mér, hef ég ekkert út á mig að setja. Ég er ekki að segja að ég vakni á hverjum morgni og langi í sleik við spegilmynd mína af því ég er svo æðisleg. Langt frá því, í hvert skipti sem ég sé mig í spegli í morgunsárið þakka ég Guði fyrir að ég vakna alltaf langt á undan öllum.
Það sem ég á við er að loksins er ég sátt í eigin skinni. Guð einn veit að mikið hef ég brasað við að reyna að umturna sjálfri mér í gegnum árin. Með mjög misgáfulegum aðferðum sem á endanum komu mér næstum í gröfina.
Árið 2007 eignast ég barn. Þá smám saman fór allt til fjandans. Ég fékk gallsteina á meðgöngunni og þurfti að útiloka ýmislegt óhollt úr matarræðinu til þess að liggja ekki grenjandi úr magaverkjum allan daginn. Á þessu tímabili fauk hvert kílóið á fætur öðru.
Um sumarið 2008 var ég komin í ljómandi fín mál – líkamlega séð. En hausinn fylgdi ekki með. Ég sá alltaf sama hlunkinn í speglinum og fannst það algjör firra að ætla að hætta í megrun. Ég varð að vera í megrun því ég var ennþá feit!
Ég ætla mér svo sem ekki að fara út í nein smáatriði. Ég hef litla lyst á að rifja ítarlega upp þessi skuggalegustu ár lífs míns, tímabilið frá sumri 2008 til loka ársins 2010.
Taldi kaloríur í tvö ár
Líf mitt þessi tvö ár snerist ekki um neitt annað en að telja kaloríur og finna leiðir til þess að sneiða hjá samkomum og hittingum þar sem ég vissi að matur væri í boði. Það snerist allt um að forðast mat og ég refsaði mér harkalega ef ég bugaðist og lét undan svengdinni. Öll mín persónuleikaeinkenni hurfu á þessum tíma. Háværa stelpan (konan, ókei) sem alltaf hló hæst og talaði mest var hvergi sjáanleg. Ég var naumlega á lífi.
Þegar ég horfi til baka þá skil ég ekki hvernig ég gat orðið svona sjúk. Það er mér svo gjörsamlega hulin ráðgáta. En á þessum tíma fannst mér ég fullkomlega heilbrigð – ég var bara í smá aðhaldi. Ég sá nákvæmlega ekkert að hegðun minni og fannst fólkið í kringum mig sturlað að halda að ég væri eitthvað lasin. Ég geri mér fulla grein fyrir því núna að þetta er geðsjúkdómur. Geðsjúkdómur sem mun líklega fylgja mér alla ævi. Við vissar aðstæður skjóta ýmsar hugsanir upp kollinum en ég er orðin ansi góð í að útiloka þær. Þær verða líka færri og færri með tímanum.
Að grafa mig upp úr þessari holu er erfiðasta verkefni sem ég hef tekist á við. En á einhverjum tímapunkti virðist ég hafa séð ljósið sem svo margir höfðu reynt að benda mér á. Eftir áramótin 2010 tók við nýr kafli, fáránlega erfiður og held ég að honum sé fyrst að ljúka núna.
Ég er bara ég – það er góð tilfinning
Í dag tel ég mig hvorki feita né mjóa. Ég er hætt að skilgreina holdafar mitt. Ég er eiginlega bara ég. Ég eins og ég er sátt við að vera. Það er góð tilfinning.
Ég leitaði mikið að myndum frá þessum tíma en uppskar lítið. Ég virðist hafa hent þeim öllum. Þetta er ekki eitthvað sem ég kæri mig um að muna eftir. Ég fann samt þrjár, tvær þar sem sést aftan á mig og eina ömurlega mynd tekna á hlið þegar ég var búin að bæta á mig 10 kílóum vorið 2011 – þær gefa kannski einhverja mynd af þessu helvíti sem þetta tímabil var. Ég komst nú ekki nálægt útlitinu á þessari grísku en líkamar okkar eru mismunandi, minn gat ekki meir eftir jólin 2010. Þá var ég komin á botninn og líkaminn sem ég var búin að leggja svo mikið á sagði stopp.
Þessi viðurstyggilegi sjúkdómur tekur yfir hverja einustu hugsun og taug í líkamanum. Ég er ákaflega þakklát fyrir minn sigur í þessari baráttu því það eru svo sannarlega ekki allir jafn lánsamir.
Guðrún Veiga er mannfræðingur að mennt. Týpískt naut, kann vel að meta veraldleg gæði og þrjósk með eindæmum, fagurkeri og eyðslukló.
Naglalökk eru hennar helsti veikleiki og líkamsrækt stundar hún ekki en viðheldur brennslunni með óhóflegri kaffidrykkju.