Fyrir rúmu ári síðan birti ég afar umdeilda grein þar sem ég lýsti upplifun minni af þunglyndi og viðraði þá skoðun mína að ég liti ekki á þunglyndi sem sjúkdóm heldur vanlíðan sem ætti sínar orsakir.
Þar sem að reynsla mín, og sérstaklega hin mikla og erfiða sjálfsvinna sem ég hef lagt í undanfarin ár hefur endanlega sannað fyrir mér að þunglyndi sé eitthvað sem hægt er að sigrast á með hjálp góðra meðferðaraðila, tel ég fulla ástæðu til að birta þessa umdeildu grein aftur.
Hér kemur hún því, þó að einhverju leyti endurskoðuð með tilliti til þess sem ég hef lært frá því að hún birtist fyrst:
Þunglyndi er að mínu mati ótrúlega misskilið fyrirbæri. Af mörgum er þunglyndi talið vera sjúkdómur. Ég er ekki alveg á því. Að minnsta kosti ekki í þeirri merkingu að þunglyndi sé eitthvað sem við fáum og ráðum ekki við, óheppin við. Eins og ég lít núna á þunglyndi sé ég það sem fullkomlega eðlilega vanlíðan sem er afleiðing af því sem ég hef gengið í gegnum.
Ég ólst upp við alkóhólisma og var lögð í einelti í grunnskóla. Það var ekkert sérstaklega gaman. Ég varð ákaflega þunglynd og íhugaði meira að segja sjálfsmorð þegar mér leið sem verst – þó svo að ég taki það fram að ég var aldrei nálægt því að framkvæma það. Ég hugsaði bara mikið um hvernig væri „best“ að framkvæma slíkt, bara svona ef til þess kæmi.
Fólk virðist telja að þunglyndi sé eitthvað sem þú fáir út úr blánum en í mínu tilviki var það að minnsta kosti ekki svo. Ég tel að allt hafi sína orsök og afleiðingu. Við fæðumst öll fullviss um okkar eigið ágæti – sjáðu bara hversu saklaust ungabarn er, hversu glatt það getur orðið yfir nánast hverju sem er, hversu opið og hlýlegt. Þegar við verðum eldri kemur hins vegar að því að við förum að trúa því að við séum ekki nógu góð – stundum smá samam og stundum harkalega – af því að það eru skilaboðin sem við fáum frá umhverfi okkar.
Stundum koma þessi skilaboð frá upplifunum eins og mínum: einelti sem sannfærði mig um að ég væri ljót og leiðinleg og ætti ekkert gott skilið. Að alast upp í meðvirkum aðstæðum sannfærir mann einnig um að það sé eitthvað að manni, því augljóst er að hlutirnir eru ekki eins og þeir eiga að vera og börn taka ábyrgð á því. Þess fyrir utan þá er ekki talað um tilfinningar, gjarnan ekki hrósað mikið, sem veldur því að börnum finnst eins og það sé eitthvað að þeim. Meðvirkni, einelti, misnotkun, allt eru þetta augljóslega hlutir sem brjóta barn eða fullorðna manneskju niður.
Þú ert aldrei nógu góð/ur
Hins vegar eru aðrar leiðir, óljósari leiðir, sem brjóta okkur líka niður, oftast án þess að við tökum eftir því. Þetta eru hlutir eins og óraunhæfar kröfur. Eins og ég upplifði skólakerfið var alltaf ætlast til þess að maður yrði að vera góður í öllu.
Ég var góð í bóknámi og fékk mikið hrós og uppörvun fyrir það. Ég var hins vegar ekki góð í íþróttum, og fann alltaf fyrir því að ég væri ekki nógu góð því ég hafði hvorki áhuga né hæfileika á því sviði. Þeir sem að voru svo aftur á móti góðir í íþróttum fengu gjarnan að heyra að þeir stæðu sig ekki nógu vel í bóknámi. Þannig að sama hver þú ert og hvaða hæfileika þú hefur þá er það einhvern veginn aldrei nóg.
Ég er komin á þá skoðun að við öll, hvert eitt og einasta, upplifum það að við séum aldrei nógu góð eins og við erum. Það er alltaf eitthvað sem við gætum gert betur, eitthvað sem okkur er sagt að við gerum ekki nógu vel, eitthvað „Já þú ert nú svona, þú ættir nú að gera þetta, þetta er ekki nógu gott hjá þér.“ Smá saman komumst við á þá skoðun að við séum hreinlega ekki nóg eins og við erum, að okkur skorti eitthvað. Það er ekki nóg að vera bara við.
Leitað að því sem vantar
Við eyðum öllu lífi okkar í leit að þessu sem okkur vantar. Það er alltaf eitthvað sem við getum afrekað til að sanna virði okkar, hvort sem það er góð vinna, nægir peningar, góð menntun, flott fjölskylda og heimili, allt sem við getum bent á og sagt, „sjáðu, ég er sko víst frábær, ég á/hef allt þetta.“
Við leitumst við að fá klapp á bakið, reynum að öðlast virðingu annarra, leggjum áherslu á að fá staðfestingu á virði okkar frá öðrum.
Þeir sem lenda verst í þessu, það eru þeir sem þjást af þunglyndi eins og ég upplifði það. Þeir upplifa ekki að það sé eitthvað smá sem vanti upp á að þeir séu nóg. Þeim hreinlega mislíkar, jafnvel hata sjálfan sig. Ég var í þeim flokki. Ég var 24 ára þegar ég uppgötvaði að mér líkaði ekki vel við sjálfa mig. Mér fannst sú sem ég var, menntun mín, tónlistarsmekkur, áhugamál, mér fannst að þetta væri allt saman rangt. Ég vissi hver ég var en ég átti að vera einhver önnur. Það sem ég var var ekki nógu gott.
Þarna var ég búin að vera þunglynd, þjást af félagsfælni, kvíða, áhyggjum, stressi og vöðvabólgu upp á hvern einasta dag. Það tók á að fara fram úr á morgnana og horfast í augu við daginn sem var framundan, að fara í skóla og vinnu þar sem fólk var og reyna að komast í gegnum daginn án þess að gera eitthvað heimskulegt, eitthvað sem gæti vakið athygli á mér og orðið til þess að hlegið yrði að mér. Ég sagði ekki skoðanir mínar því ég vildi ekki að það yrði gert lítið úr þeim. Ég hefði ekki getað staðið með sjálfri mér þó lífið hefði legið við.
Þú ert fín eins og þú ert – fullkominn
Því er haldið fram að þunglyndi sé óræður sjúkdómur sem erfitt sé að finna lausn á. Kannski er það rétt – já auðvitað getur verið að ég hafi rangt fyrir mér! Eða kannski er fleira en eitt rétt svar til? En gangi þér engu að síður vel að fara fram úr rúminu á morgnana ef þér líkar ekki vel við sjálfan þig. Gangi þér vel að komast í gegnum daginn ef þú hreinlega hatar sjálfan þig.
Gangi þér vel að lifa lífinu ef röddin í undirmeðvitundinni hvíslar að þér allan liðlangann daginn að þú sért ekki nógu góð/ur, að allt mögulegt og ómögulegt sé að þér, að þú sért ljót/ur, leiðinleg/ur, heimsk/ur, og allt sem þér dettur í hug sem aðstoðar þig við að rífa þig algjörlega niður. Þetta er það sem þunglyndi var fyrir mér. Það var að líka ekki við manneskjuna sem ég var, og þurfa samt að fara hvert sem var með sjálfa mig þig í togi!
Fyrir fólk eins og mig er þunglyndi að vera brotin/nn. Leiðin til þess að sigrast á þess konar þunglyndi, og já það er svo sannarlega hægt, því um það er ég lifandi vitni, er sú að horfast í augu við sjálfan sig og sjá að þú ert ekki svo hræðilegur eftir allt saman. Það er að fara í gegnum það sem þú hefur upplifað um ævina og uppgötva að skilaboðin sem þú fékkst voru röng, að þú ert fullkomin/nn nákvæmlega eins og þú ert. Þú þarft ekki á neinu að halda til að vera það.
Hjálpaði að hætta að líta á þunglyndi sem sjúkdóm
Lausnin felst í því að taka eftir röddinni sem segir alla þessa ljótu, leiðinlegu hluti og skipta því sem hún segir út fyrir jákvæða hluti. Að velja að segja við sig: „Ég er fullkomin/nn, ég er frábær eins og ég er, ég elska þig eins og þú ert.“ Lausnin er að horfast í augu við þig í speglinum og vita að þú ert nóg.
Það hjálpaði mér gríðarlega að hætta að líta á þunglyndi sem óræðan sjúkdóm. Sem vanlíðan gat ég hins vegar séð fyrir mér að eitthvað væri hægt að gera, að þessa vanlíðan væri hægt að laga. Það gaf mér eitthvað til að tækla, til að verða meðvituð um, til að sjá fyrir mér að ég gæti tekið stjórnina og ákveðið hvers konar lífi ég vildi lifa. Þetta ferli, þessi leið, hefur tekið mig fjögur ár.
Fjögur ár síðan ég gerði mér grein fyrir að mér líkaði ekki vel við sjálfa mig. Fjögur ár af blöndu af viðtalsmeðferð, heilun, uppgjöri við fortíðina, fyrirgefningu, hugleiðslu og af því að horfa á mig í speglinum og segja „ég elska þig eins og þú ert.“
15. mars 2014 er mér sérstaklega minnistæður því þá rann upp fyrir mér ljós og mér fannst ég loks uppskera afrakstur alls mín erfiðis. Það var dagurinn sem ég hætti loksins að skammast mín fyrir það hver ég er. Ég hef ekkert til að skammast mín fyrir enda er ég sko falleg, gáfuð, góð manneskja og ÉG ER NÓG. Ég mun ekki eyða einni einustu mínútu það sem eftir er ævi minnar í að vera þunglynd því ég elska sjálfa mig svo sannarlega eins og ég er. Það er mín einlæga von að það gerir þú líka.
Í dag veit ég að þessi yndislega tilfinning sem ég lýsi hér að ofan endist ekki að eilífu, ekki nema ég leggi mig fram við að viðhalda henni. Lífið fer jú upp og niður og sumir dagar eru erfiðari en aðrir. Munurinn er hins vegar sá að með því að vera meðvituð þá get ég fylgst með því þegar ég geng í gegnum tímabil sem eru erfiðari en önnur.
Ég tek eftir því þegar ég hef ekki verið að hugsa neitt sérstaklega hlýlega til sjálfrar mín og er óhrædd við að leita mér hjálpar þegar ég er að ganga í gegnum breytingar eða erfiðleika sem valda hjá mér óöryggi. Þessi blessaða sjálfsvinna tekur nefnilega aldrei enda, það koma jú alltaf upp ný verkefni og nýjar áskoranir sem nauðsynlegt er að takast á við.
Á meðan ég lít hins vegar á erfiðleikana einmitt sem áskoranir, sem verkefni sem ég þarf einfaldlega að leysa, þá er ég fær um að takast á við hvað sem er og líta björtum augum fram á veginn.
Guðný Guðmunds fæddist árið 1986 og ólst upp á Vestfjörðum. Hún hefur aðallega verið búsett í Reykjavík en líka alið manninn í Barcelona, Finnlandi og Englandi. Í dag starfar hún sem texta- og hugmyndasmiður auk þess sem hún rekur Innblástur.is, upplýsingasíðu um nám, atvinnu og ferðalög fyrir ungt fólk. Guðný hefur þó mestan áhuga á andlegum málefnum og sjálfsrækt.