Ég fór á Subway um daginn og þá rifjaðist upp fyrir mér hversu erfitt ég átti með að fara þangað að borða þegar ég var í menntaskóla.
Það var of erfitt af því að ég gat ekki bara valið eitthvað eitt af matseðlinum heldur var ég spurð margra spurninga um hvers konar bát, brauð, álegg, sósu og krydd ég vildi fá. Það var of mikið af spurningum, of margir valkostir. Of margar leiðir til þess að velja rangt, segja eitthvað vitlaust. Vita ekki hvernig ég ætti eiginlega að bera mig að.
Það eru aðeins um það bil þrjú ár síðan ég fékk ennþá kvíðahnút í magann við að nálgast vinnustað minn. Ekki vegna þess að mér hafi liðið illa á vinnustaðnum eða þess að fólkið þar væri ekki gott.
En málið var að ég sat allan liðlangann daginn við skrifborðið mitt og hafði áhyggjur af því að ég væri ekki nógu klár til að gera verkefnin mín. Nógu sniðug. Nógu eitthvað. Svo ég eyddi öllum mínum dögum í að hafa áhyggjur og brjóta mig niður. Ekki skrýtið að mig hafi kviðið fyrir því.
Ég held að ég hafi ekki gert mér grein fyrir því fyrr en ég sat þarna á Subway núna í vikunni hversu kvíðin ég raunverulega var. Málið er að ef þú hefur alltaf búið við kvíða þá veistu ekki að hlutirnir geti, að þeir eigi, að vera einhvern veginn öðruvísi. Fyrir mér voru einföldustu hlutir alltaf erfiðir. Að fara á nýjan stað. Að gera eitthvað sem ég hafði ekki gert áður – þó svo það væri ekki flóknara en að fara á Subway eða að versla mér nýjan síma.
Að þurfa að gera eitthvað sem ég hafði ekki gert áður þýddi að ég var á ókunnugum slóðum og gat því ekki stjórnað því hvað myndi gerast. Ég gat ekki undirbúið mig alveg 100% til að vera viss um að ég yrði fullkomlega örugg. Lífið var alltaf erfitt en mér skildist á fólki, á bókmenntum, af reynslu, að það væri einfaldlega þannig sem lífið væri. Erfitt, og maður yrði bara að komast í gegnum það einhvern veginn, helst af hörkunni.
Ég hef sem betur fer lært að það er ekki satt. Lífið er ekki erfitt – það er stórkostlegt. Lífið er fallegt og það er einfalt. Ef maður kýs að sjá það á þann hátt, það er að segja. Ég veit núna að ég þjáðist af miklum kvíða en kvíði í slíkum mæli er ekki eðlilegt ástand.
Kvíði er tilfinning sem maður þróar með sér, ekki eitthvað sem maður fæðist með og verður að þola út ævina. En ef maður hefur þróað með sér kvíða, lært kvíða, þá þýðir það líka að maður getur aflært hann.
Kvíði er nefnilega ekkert annað en hugsanir okkar að hlaupa með okkur í gönur. Já, það er svona einfalt. Þú velur hugsanir þínar og þú getur valið hvort þú sérð heiminn sem hræðilegan stað þar sem allt sem getur farið úrskeiðis, fer úrskeiðis. Eða þú getur valið að treysta sjálfri þér, treysta umhverfi þínu, og ákveðið að sama hvað gerist þá muni allt fara vel. Þú getur hætt að hafa sífelldar áhyggjur. Og þú getur valið að brjóta þig niður, eða þú getur valið að byggja þig upp.
Þú átt valið. Þú getur leitað þér hjálpar frá fagaðila til að vinna úr þínum kvíða. Vinsamlegast ekki sætta þig við að eiga líf sem er alltaf svona óskaplega erfitt.
Guðný Guðmunds fæddist árið 1986 og ólst upp á Vestfjörðum. Hún hefur aðallega verið búsett í Reykjavík en líka alið manninn í Barcelona, Finnlandi og Englandi. Í dag starfar hún sem texta- og hugmyndasmiður auk þess sem hún rekur Innblástur.is, upplýsingasíðu um nám, atvinnu og ferðalög fyrir ungt fólk. Guðný hefur þó mestan áhuga á andlegum málefnum og sjálfsrækt.