Við könnumst öll við orðið “þunglyndi”, vitum kannski að þetta er andlegur sjúkdómur og þar af leiðandi eitthvað slæmt en þekkingin stoppar þar hjá mörgum.
Þunglyndi er satt best að segja hryllilegur sjúkdómur sem truflar daglegt líf þess sem við það berst.
Þunglyndið einkennist meðal annars af depurð, leiða, sektarkennd og hvatningarleysi, hefur mjög neikvæð áhrif á lífsgæði og getur í alvarlegustu tilfellum leitt til sjálfsvígstilrauna eða sjálfsvíga.
Algengur sjúkdómur
Þunglyndi er sérlega algengur sjúkdómur. Það er erfitt að gera sér í hugarlund hversu víðtækur hann er vegna þess að enn ríkir mikil feimni um að tala opinskátt um andlega sjúkdóma.
Ég get samt sagt þér að þunglyndi er svo algengt að líklegt er að þú þekkir einhvern sem berst við það, ef þú gerir það ekki sjálf/ur nú þegar en samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofuninni (WHO) er talið að 350 milljón manns víðsvegar um heiminn þjáist af þunglyndi.
Ég er ekki með þunglyndi og hef því ekki fundið fyrir því á eigin skinni.
Í gegnum mitt nám í sálfræði hef ég lært ýmislegt um þennan hryllilega sjúkdóm og þar af leiðandi talið mig vita sitt hvað um hann. Á tímabili hef ég líklega talið sjálfa mig betur í stakk búna til að eiga við þunglyndi sem sjúkdóm ef ég stæði frammi fyrir því einn daginn, einmitt vegna þess sem ég hef lært.
Síðar komst ég að því að ég hafði hrapað illilega að ályktunum. Ég byrjaði í sambandi með manneskju sem berst við þunglyndi. Áður taldi ég mig standa nokkuð vel að vígi en það var ekki rétt. Það er nefnilega ekkert sem getur undirbúið þig fyrir það að elska manneskju sem berst við þunglyndi.
Erfið ást
Ég ætla ekki að ljúga eða breiða yfir hlutina með rósrauðu sjali; þetta er erfitt. Þunglyndi er erfiður sjúkdómur að eiga við, sérstaklega fyrir þann sem við það berst en ekki síður fyrir aðstandendur og ástvini. Það er það sem er átt við með því hversu lamandi sjúkdómur þunglyndi er; hann skaðar fleiri en einstaklinginn sjálfan og það eru ekki til neinar nákvæmar leiðbeiningar sem er hægt að grípa auðveldlega í, enginn bæklingur með lausnum, engin einföld og þægileg leið að marklínunni.
Nú þegar ég hef lifað í návígi þessa sjúkdóms í nokkur ár finnst mér ég vita meira en ég gerði áður. Þó ég reki mig enn reglulega á vonast ég til að ég muni halda áfram að læra, breyta og bæta hegðun mína og hugsun í tengslum við þennan sjúkdóm eftir því sem árin líða. Það hefur þó í nokkurn tíma blundað í mér að rita nokkra punkta sem mér finnst ég hafa lært enn sem komið er.
1. Þetta er ferli, ekki ástand
Með þessu á ég við að þunglyndi virkar oftast ekki bara eins og kvef. Manneskjan er ekki bara þunglynd í nokkra tíma, daga eða vikur, læknast síðan og allt er betra. Algengara er að sjúkdómurinn fylgi fólki mestanpart ævi þess, eða ævilangt. Manneskja getur átt betri daga, vikur, mánuði og jafnvel ár en síðan læðist sjúkdómurinn upp að fólki eins og skuggi og getur haldið því í heljargreipum sínum í lengri tíma.
2. Þetta er ekki bara aumingjaskapur
Ég er mjög metnaðargjörn og ákveðin manneskja og viðurkenni þess vegna fúslega að ég á mjög erfitt með að skilja þunglyndi.
Þunglyndi sýgur úr fólki alla orku, það á erfitt með að finna til gleði, á jafnvel erfitt með að finna til sorgar, fólk er dofið, þreytt. Þunglyndi raskar eðlilegri starfsemi líkamans, sumir sofa og sofa en aðrir ná varla að festa svefn, aukin matarlyst hrjáir einhverja en aðrir eiga erfitt með að koma niður bita. Margir komast fram úr með herkjum á morgnanna og sumir bara alls ekki. Við “eðlilega” fólkið skiljum þetta ekki. Hvað er svona erfitt við að vakna á morgnanna? Þetta er ekkert flókið, þetta snýst um að setja annan fótinn fram fyrir hinn og vippa sér fram úr. Af hverju hættir aðilinn ekki bar’essu fjandans væli?
Þetta er ekki svona einfalt. Ég er viss um að þú gætir spurt hvaða manneskju sem er sem berst við þunglyndi hvort hún myndi bara hætta að vera þunglynd ef hún gæti, og hver ein og einasta myndi segja JÁ TAKK. Engan langar að vera dofinn tilfinningalega, engan langar að líða hörmulega, engan langar að finna til vonleysis. Ef það væri svona fjári auðvelt að “snappa” úr þunglyndi eftir hentisemi myndu ekki svona margir þjást af því, en staðreyndin er önnur, þunglyndi hrjáir fleiri en þú heldur.
3. Þetta snýst ekki um þig
Við erum öll mannleg. Við gerum mannlega hluti. Stór hluti af því að vera mannlegur er að reyna að finna skýringar á hlutunum. Þegar við skýrum hlutina finnst okkur við hafa meiri stjórn. Meiri stjórn veldur því að okkur líður betur.
Þess vegna leitumst við eftir því að skýra þunglyndi. Við grípum í eitthvað sem er kunnuglegt, og það erum við sjálf. Hvað er kunnuglegra þér en þú? Þar sem við gerum þetta ósjálfrátt sjáum við hluti oftar en ekki sem í tengslum við okkur sjálf, út frá okkur sjálfum. Þess vegna er algengt að reyna að skýra hegðun manneskjunnar sem á við þunglyndið út frá eigin hegðun. Makinn er þunglyndur vegna þess sem þú sagðir, sagðir ekki, gerðir eða gerðir ekki. Hann eða hún finnur ekki til nógu mikillar hamingju með þér. Þú ert ekki nógu skemmtileg/ur, áhugaverð/ur, merkileg/ur og svo framvegis og svo framvegis. Hættu þessu, hættu strax! Þetta snýst einfaldlega bara ekkert um þig. Hegðun makans orsakast ekki af þinni hegðun, heldur er atferli sjúkdómsins algjörlega óháð því sem þú gerir. Þunglyndi er ekki hægt að skýra á þennan hátt.
4. Þolinmæðin þrautir vinnur allar
Þó þunglyndi makans stafi ekki af þér hefur það samt áhrif á þig og þú hefur um leið áhrif á makann. Þú hjálpar ástandinu ekki neitt með því að snúast í vörn, fara í fýlu eða verða reið/ur makanum. Það versta sem þú getur gert er að gagnrýna manneskjuna fyrir það sem hún hefur ekki stjórn á. Þú myndir ekki krefja fótbrotna manneskju um að ganga þegar það er augljóst að hún getur það ekki. Það þarf að horfa eins á andlega sjúkdóma á borð við þunglyndi. Það er nefnilega þannig sem þunglyndi virkar, hann eða hún hefur ekki stjórn á því. Þú getur réttilega reiðst þunglyndinu sjálfu; en ekki reiðast makanum! Um leið og þú byrjar að líta á þunglyndið sem sjálfstæða eigind en ekki eitthvað sem makinn stjórnar getið þið saman byrjað að vinna á því.
Það sem maki þinn þarf virkilega á að halda er að þú sért til staðar fyrir hann. Hafir þolinmæði. Styðjir hann. Sýnir honum ást og umhyggju, væntumþykju og virðingu í gegnum súrt og sætt.
5. Þunglyndið skilgreinir ekki maka þinn
Þetta er líklegast það mikilvægasta af öllu! Þunglyndið er ekki makinn og þar af leiðandi á það ekki að vera meginskilgreiningin á honum, hans eðli eða hans persónu. Makinn þinn er svo miklu meira en þunglyndið sem hann þjáist af, öll höfum við ólíka og um leið einstaka persónuleika, gildi, áhugamál og húmor og fólk sem berst við þunglyndi er þar engin undantekning. Þunglyndi er bara einn lítill þáttur í öllum þeim fjölbreytileika sem einkennir eina mannssál. Ekki gera þau mistök að líta á þunglyndið sem aðalatriðið.
Tölum um andlega sjúkdóma, opnum umræðuna! Sýnum stuðning – Aukum skilning!
Andlegir sjúkdómar eru ekki feimnismál og ekkert til að skammast sín fyrir. Með því að hafa þá uppi á borðum verður mikið auðveldara fyrir okkur öll að eiga við þá, hvort sem um er að ræða okkar eigin sjúkdóma eða annara.
Sveindís Þórhallsdóttir útskrifaðist í vor með BS gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands en býr nú í fallegum bæ á Finnlandi þar sem hún leggur stund á mastersnám í íþrótta- og æfingasálfræði. Sveindís er jafnframt einkaþjálfari, heldur úti fjarþjálfun á vefsíðu sinni og hefur mikinn áhuga á hvers kyns hreyfingu og heilbrigði.
Pole fitness á hug hennar allan og fríkvöldunum er oftar en ekki varið í að teygja fyrir framan sjónvarpið. Hún á eitt stykki frábæran kærasta og dreymir um að bæta kisu á heimilið.