Rigningin lemur framrúðuna. Þú situr í bílnum, nagar innanverðar kinnarnar, kreistir stýrið og hamast við að reyna að finna eitthvað í útvarpinu en það eina í boði eru syngjandi íkornar á sterum, gospel eða fimmtíu ára gamalt rokk.
Þér finnst fólk keyra eins og fífl og flestir allt, allt of hægt. Þú gargar. Inni í þér. Vinnan eða skólinn eru að bera þig ofurliði og þú skuldar helling af peningum en sérð ekki að það grynnki á súpunni sama hvað þú neitar þér um margt. Þú varst að segja Pétri upp af því þig langar að vera með Halla en hann vill þig ekki, eða þú heldur það, veist það samt ekki, átt eftir að fá sönnun. Veist ekki hvort þú átt að senda skilaboð, sleppa því, reyna að hitta hann, sleppa því, reyna bara við einhvern annan, sleppa því, reyna ekkert, sleppa því…
Þig langar að endurskipuleggja heimilið í gæru, hör, bast og beis fílíng til að ná tengslum við náttúruna en þó að þú ættir fyrir því þá hefðiru ekki tíma til að gera það. Þú byrjaðir í jóga en varðst að hætta af því þú komst alltaf seint og kennarinn sagði að þú truflaðir kennsluna.
Hvar endar þetta?!
Okkur dreymir flest oft og iðulega um að slappa rækilega af. Sjáum það jafnvel í hyllingum að eignast lítið hús með litlum garði þar sem við gerum ekki annað en að klappa hænum og setja niður eða taka upp kartöflur. Stundum sjáum við líka pálmatré og sólstrendur sem svar við vandanum. Þetta þarf þó ekki að vera svo langsótt. Það tekur sinn tíma að kaupa hús og reita arfa og það er bæði langt og dýrt að fara til Tene. En athugaðu að Hið stóíska hof innri friðar er ekki langt undan ef viljinn til þess að fara þangað er raunverulega fyrir hendi. Til að gera þér þetta auðveldara eru hér 17 afslöppunar aðferðir sem er einfalt að framkvæma. Þetta hef ég allt sannreynt sjálf, nema kannski að kveikja bál niðri í fjöru. Á það bara eftir. Gerist kannski á morgun.
1. RÁS 1 – Ekki bara fyrir eldri borgara
Stilltu á gufuna þegar þú ert í bílnum. Rás eitt getur verið mjög róandi þegar þau eru ekki að blasta nýjum verkum eftir Árna Heimi. Að hlusta á rödd Gerðar G. Bjarklind er eins andleg athöfn fyrir ungan íslending og það er fyrir búddista að kyrja. Þú heyrðir fyrst í henni þegar þú heyrðir fyrst í útvarpi og þetta tengir þig við barnæskuna þegar allt lék í lyndi og þú kunnir ekki að reima skóna þína, borga reikninga, skipta um stöð á fjarstýringunni eða segja stress.
2. Hitaðu þig með poka
Farðu út í apótek og keyptu þér hitapoka. Hann er mjög ódýr og hjálpar þér kannski virkilega vel að slappa af. Að liggja í rúminu með hitapoka á maganum er eins og að breytast í latan, malandi kött sem liggur í gluggakistu fyrir ofan ofn sem er stilltur á fjóra. Hitapokinn getur líka losað um vöðvaspennu sem safnast fyrir í bakinu, aftan á hálsinum og víðar.
3. Bókasafnið er róandi
Þar er hægt að fá milljón bækur um allt á milli himins og jarðar. Svo er líka mikil afslöppun fólgin í því að labba á milli rekkanna og skoða. Á bókasafninu er einnig hægt að nálgast hljóðbækur. Þær eru lesnar inn af sultuslöku fólki sem hefur róandi raddir og það eina sem þú þarft að gera er að fara upp í rúm með hitapokann og iPod eða vasadiskó (það er jú enn hægt að fá kassettur).
4. Slökktu á sjónvarpinu
Ekki horfa á fréttirnar meðan á slökunarferli stendur. Þær eru stressandi og láta þig fá áhyggjur af hlutum sem koma þér varla við. Það hefur enginn gott að því að hlusta endalaust á það hvað margir dóu í lestarslysi í Úsbekistan. Svo eru líka einhverjar alfa bylgjur í sjónvarpinu sem stressa mann og deyfa í senn. Það er ömurleg blanda.
5. Farðu í gufu
Það kostar bara nokkra hundraðkalla að fara í gufubað í sundlaugum Reykjavíkur. Svo eru pottarnir líka góðir. Maður á að loka augunum þegar maður er í pottinum og reyna að finna fyrir líkamanum. Stundum gerir stressið það að verkum að fólk gleymir að það er í líkama og hann verður svo fúll út í mann að hann stífnar allur upp til að mótmæla. Linaðu hann upp í gufu eða heitum potti. Svo er líka gott að láta nudda sig ef maður hefur efni á því. Ef maður hefur ekki efni á því þá á bara að plata vini sína til að hnoða mann aðeins. Snerting er róandi -svo lengi sem hún er ekki kynferðisleg… því þá er hún jú, æsandi. Sem getur reyndar endað í róandi. En það er svo annað mál sem hægt er að taka fyrir í öðrum pistli.
6. Ferska loftið
Skelltu þér í göngutúr í staðinn fyrir að fara í spinningtíma eða tækjasalinn í World Class. Þar eru allir hvort sem er betur vaxnir en þú og það er ekki gott fyrir sjálfsmyndina. Það er stressandi að vera innan um skínandi spandex fólk sem brosir svo breytt að munnvikin ná saman aftan á hnakka og þig svíður í augun af tannhvíttunarefninu þeirra. Labbitúrar eru hinsvegar góðir. Til dæmis er hægt að labba um í Elliðaárdalnum eða eftir Nauthólsvíkinni og vestur í bæ. Þetta getur þú gert einsamall eða einsömul, eða með góðum vini eða ættingja. Hafið slakar á stressi.
Eins og segir í vísunni:
Ef lundin þín er þreytt
þá þessum fylgdu orðum
gakktu með sjó og sittu við eld
-svo kvað völvan forðum
7. Syngdu heima hjá þér
Settu góða íslenska plötu á fóninn og syngdu með: Vilhjálmur Vilhjálmsson, Haukur, Bubbi, Ellý… hvað sem þú kýst, þetta gerir allt sitt gagn og má vera púkó enda bara þú að syngja með. Og þú þarft ekkert að kunna það. Að setja margar róandi plötur á í röð er frábært. Svo geturðu legið með hulstrið, lesið textana og sungið af lífi og sál.
8. Keyptu gullfiska.
Það er afslappandi að horfa á gullfiska. Þeir eru alltaf rólegir nema þegar þeir borða, muna EKKERT og horfa ekki á fréttir. Eru meira í núinu en Eckhart Tolle.
9. Heimsæktu gamalt fólk
Farðu heim til ömmu þinnar og afa og opnaðu ískápinn. Fáðu þér eitthvað. Leggstu í sófann. Ef þú átt ekki ömmu og afa er hægt að skrá sig á sjálfboðaliðalista hjá Rauða Krossinum og fara að heimsækja gamalt fólk sem elskar að spjalla við þig í rólegheitum. Og það hefur yfirleitt frá mörgu að segja.
10. Gefðu öndunum.
En ekki gefa mávunum. Mávarnir koma aftur og aftur þar sem þeir finna eitthvað æti. Mávar geta líka stressað mann upp. Endurnar eru betri.
11. Sorteraðu
Sorteraðu númer og eyddu þeim sem þú hringir aldrei í. Sorteraðu og eyddu af FB. Þetta slær á félagslegt panikk. Allar sorteringar eru af hinu góða en það er sérlega gott að sortera í vina og kunningjahópunum.
12. Einvera og hygge
Drekktu te og kveiktu á kertum. Leggðu kapal. Spáðu fyrir sjálfri þér í Tarot. Prófaðu að hlusta á Nick Drake eða Leonard Cohen. Ekki drekka kaffi eftir kl 18, nema þá koffínlaust. Skrifaðu vinkonu þinni bréf í pósti. Teiknaðu.
13. Andaðu!
Andaðu að þér fersku lofti og andaðu því djúpt. Fimm sinnum. Stundum er stressið svo mikið að maður gleymir að anda. Það tekur á að vera nútímamanneskja.
14. Snemma í bólið
Skiptu á rúminu þínu, farðu í heitt bað, hrein náttföt og eins snemma upp í og þú mögulega getur. Skildu símann, tölvuna, iPadinn eftir frammi. Þú mátt samt lesa.
15. Ertu með sálfræðimenntun? Nei? Slepptu þessu þá
Ekki reyna að sálgreina sjálfa eða sjálfan þig. Það er stressandi. Fólk fer í nám sem tekur mörg ár til að læra að sálgreina aðra. Geðlæknar eru í sirka tíu ár í háskóla. Láttu þessa fagmenn um að sálgreina þig ef þú þarft á svoleiðis að halda. Þú ein heima í sófanum að kafa í æskuna og sálgreina sjálfa þig veit aldrei á gott. Hættu. Núna.
16. Sléttu úr fjármálunum hjá þjónustufulltrúa í bankanum
Talandi um fagmenn. Það er miklu betra að hafa púlsinn á peningamálunum en að hafa þau í lausu lofti án þess að maður viti hvað maður á mikið eða hvað mann vantar mikið. Mjög mikið af sambandslitum eiga sér stað vegna ósættis í peningamálum. Peningaáhyggjur eru algengustu áhyggjurnar og áhyggjur eru algengasta tegundin af stressi sem leiðir svo til kvíða sem leiðir svo til allskonar vandræða. Farðu í bankann.
17. Farðu í jarðarför
Þetta er kannski frekar skrítið en farðu endilega í jarðarför ef þú getur. Þó það sé jarðarför hjá fjarskyldri frænku þinni sem bjó alltaf í Ameríku og fæddist árið 1926 skaltu samt fara. Að fara í jarðarför minnir okkur nefninlega alltaf á hvað lífið er stutt þó að það virðist stundum langt og hvað það er mikill óþarfi að eiða því í stress, reiði, fýlu og þessháttar rugl. Við eigum að njóta þess að vera hérna á meðan við erum hérna. Ekki stressa okkur óþarflega mikið. Það er ekki þess virði.
Góðar stundir
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.