Ertu að átta þig á því að það styttist óðfluga í lokaprófin og fékkstu kipring í magann þegar þú leist á dagatalið og taldir vikurnar sem eru eftir af önninni? Áttu mikið eftir að lesa? Verkefnaskil – hvernig standa þau? Hvernig getur þú náð þessu á svona stuttum tíma?
Ef vilji er fyrir hendi er hægt að ná ótrúlega miklu með smá skipulagningu og góðri einbeitingu. Eftirfarandi 15 atriði eiga eftir að nýtast þér mjög vel.
1. Slökum á
Byrjaðu á því að slaka smá á. Sestu niður og sjáðu fyrir þér í huganum efnið sem prófið inniheldur. Ef þú færð gjörsamlega í magann þá er bara að slaka enn betur á – fara á uppáhalds staðinn þinn í huganum – anda djúpt og rólega inn – rólega út, bara slaka á og njóta þess að vera þarna í smá stund. Við breytum ekki því hvernig hefur spilast úr önninni hjá þér fram að þessu en við getum nýtt tímann þinn núna og fram að prófunum sem allra best og horft jákvæð til framtíðar. Svo er að hefjast handa.
2. Plan
Næst er að taka ákvörðun, ákveða að þú munir nota næstu ______ (daga / vikur) til að undirbúa þig vel fyrir lokaprófin til að þú náir góðum árangri. Það er í góðu lagi að ákveða hvað þú átt við með “góðum árangri” t.d. með því að segja hvað þú ætlar þér að ná í meðaleinkunn en þá skaltu orða það “….. og ég fæ _____ eða hærra í meðaleinkunn”.
3. Taktu til
Taktu til í vinnuaðstöðunni þinni. Hvort sem þú hefur sérherbergi með skrifborði og góðri vinnuaðstöðu, situr við eldhúsborðið eða á lesstofu í skólanum, þá er mikilvægt að hafa allt til alls þegar maður sest við lesturinn og vinnuna. Það er langbest að geta verið á sama stað þar sem þú ert eingöngu með efnið fyrir skólann.
4. Glósur
Gerðu yfirlit yfir hverja námsgrein um sig, hvaða efni þú þarft að kunna skil á fyrir prófið, einnig verkefni sem þú kannt að eiga eftir að ganga frá og skila fyrir lok annarinnar. Ertu með allar nauðsynlegar glósur – eða þarftu að semja við einhvern um að fá afrit af glósum? Ef þú gerir það er mikilvægt að þú sért viss um að viðkomandi hafi tekið “góðar” glósur.
5. Dagatal fram að prófdegi
Prentaðu út eða teiknaðu upp dagatal sem nær frá deginum í dag og þangað til að próftímabilið hefst. Settu inn á dagatalið þá tíma sem þú telur þig geta varið í að undirbúa þig fyrir lokaprófin. Nú er kennslu ef til vill ekki alveg lokið enn þannig að þú verður líka að ætla þér tíma í að undirbúa þig fyrir þær kennslustundir og verkefnaskil.
6. Byrjaðu strax í dag
Byrjaðu prófundirbúninginn strax í dag! Þú gerir það best með því að skipuleggja fáeina daga fram í tímann og byrja að vinna skipulega og af einbeitingu við upprifjun á efni frá því fyrr á önninni. Mörgum hentar best að gefa sér 2 – 3 daga til að velta sér vel upp úr hverri námsgrein um sig en stundum stendur það ekki til boða.
7. Settu þig inn í hvert verkefni
Taktu hverja námsgrein fyrir sig, taktu til allt efni sem tilheyrir námsgreininni og komdu þér vel fyrir. Slakaðu vel á og segðu við þig í huganum að nú ætlir þú að nota ___ til að vinna í ____.
Flettu síðan allri námsbókinni í gegn, skoðaðu uppröðun efnis, kaflaheiti, feitletraðan og breyttan texta og myndefni. Renndu yfir inngang og niðurlag hvers kafla því þar er oft að finna helstu áhersluatriðin. Spurningar í lok kafla eru einnig mjög mikilvægar og áríðandi að vita rétt svör við þeim. Hvaða verkefni tengdust þessari námsgrein? Er búið að skila þeim öllum? Kanntu góð skil á efni þeirra?
8. Helstu áherslur
Yfirferðinni sem hér var lýst á ekki að dreifa á marga daga. Þú staldrar ekki lengi við þennan þátt því þú ert EKKI að lesa allan textann, þú ert að BLAÐA í gegnum textann, renna í gegnum hann og skoða helstu áhersluatriði. Þegar þú hefur lokið við slíka yfirferð skaltu gefa þér smá stund til að loka bara augunum og reyna að sjá efnið fyrir þér í huganum. Ef þér detta í hug einhverjar spurningar, eitthvað sem þér finnst framandi, eitthvað sem þú botnar lítið sem ekkert í, punktaðu það þá strax niður. Taktu þér svo smá hlé áður en þú heldur áfram í næsta efni.
9. Einbeiting skiptir öllu
Einbeiting skiptir miklu máli. Þess vegna er svo mikilvægt að gefa sér örfáar mínútur til að slaka smá á áður en byrjað er á lestrinum. Þetta með að taka meðvitaða ákvörðun (og tjá það í huganum) gerir það að verkum að þú setur líka undirmeðvitund þína í gang. Þú ferð inn í lesturinn með allt öðrum hætti en annars.
10. Lestu í stuttum lotum
Minnisfestingar skipta miklu máli. Samkvæmt viðurkenndum minnisfræðum manstu best það sem þú lest skömmu eftir að þú byrjar lesturinn og svo það sem þú lest skömmu áður en þú hættir lestrinum. Því er hentugra að lesa í frekar stuttum tímaeiningum, líta þá rétt aðeins upp til að rjúfa sjónlínuna og halda svo áfram. Þannig á líka að vera unnt að halda góðri einbeitingu. Mælt er með 20 mínútna lestrareiningum. Þrjár 20 mínútna lestrareiningar með örstuttu hléi (rétt að líta upp og halda síðan áfram í næstu sirka 20 mín.) Gefa þér þannig sex góðar minniseiningar á meðan óslitinn lestur í 60 mín. Gefur tvær góðar minniseiningar. Ég hvet þig til að prófa þessa aðferð, þú aðlagar hana svo að því sem þér þykir henta þér best.
11. Passaðu stöðuna
Athugaðu að láta námsbókina ekki liggja alveg flata þegar þú ert að lesa. Við langan lestur sígur höfuð þitt smá saman ósjálfrátt nær bókinni en við það getur þrengst að súrefnisflæði upp til heilans, þú finnur fyrr fyrir þreytu og einbeiting minnkar. Bókastandar sem þú getur hagrætt þannig að bókin sé í ca 40 – 45% halla henta vel við námslestur.
12. Framkvæma ekki bara skipuleggja
Það er ekki nóg að skipuleggja sig vel, framkvæmdir skipta öllu máli. Nú er því að vinna verkið vel, vinna stöðuglega í undirbúningnum á hverjum degi. Merktu inn á dagatalið þitt hvaða efni þú hefur verið að vinna með. Að kvöldi er gott að líta yfir verk dagsins og áætla næsta dagsverk.
13. Hvað varstu að lesa?
Upprifjun er gífurlega mikilvæg. Því oftar sem þú rifjar upp lesið efni því betra.
14. Hreyfa sig
Hafðu í huga að góð hreyfing og holl næring er mikilvæg fyrir góðan námsárangur.
Með góðri kveðju
Jóna Björg Sætran,
coach@coach.is
Jóna Björg er menntunarfræðingur, M.Ed., frá KHÍ, er með alþjóðlega vottun sem ACC markþjálfi frá ICF (International Coach Federation) og er einnig Feng Shui ráðgjafi.
Í vetur hefur Jóna Björg svo lagt stund á Hugræna atferlismeðferð (HAM) í Endurmenntun HÍ. Jóna Björg starfar sjálfstætt við einkaleiðsögn, námskeiðahald, ritstörf, fyrirlestra og ráðgjöf jafnt hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Hún var leiðbeinandi hjá Brian Tracy International hér á landi og er fyrrverandi námstjóri hjá menntamálaráðuneytinu.
Jóna Björg fer ótroðnar slóðir, elskar að takast á við krefjandi verkefni og finnst langmest gefandi að vinna með fólki að bættri líðan, meiri hamingju og hugrró.
Einkunnarorð hennar eru: Blómstraðu í einkalífi og starfi, njóttu þess að vera þú!