Ertu komin í leiðinda rútínu, sefur yfir þig, nærð varla að borða morgunmat eða bara yfirhöfuð ekki, fatasamsetningin í ólagi og hárið úfið?
Í mínum bókum kallar þetta á ekki svo ljúfan dag en örvæntu ekki, það eru í raun bara nokkrir einfaldir hlutir sem í sameiningu geta stuðlað að FRÁBÆRUM degi.
1.
Sofðu með opinn glugga.
2.
Vertu búin að taka til fötin kvöldið áður, ég kíkji stundum á veðurspána til að fötin séu í samræmi við veðrið.
3.
Vertu búin að taka aðeins til áður en þú ferð að sofa, alveg er það hundleiðinlegt að vakna með drasl í kringum sig.
4.
Hafðu hreint á rúminu, mæli eindregið með því að hengja sængurfötin út á snúru eftir þvott.
5.
Hlustaðu á gott lag meðan þú hefur þig til eða borðar morgunmatinn.
6.
Jákvætt hugarfar, talaðu við sjálfa þig á jákvæðum nótum eins og; “þessi dagur verður góður” eða “vandamál eru til að leysa þau”.
7.
Planaðu daginn fyrirfram, ef þú ert búin að ákveða að fara út að hreyfa þig eða hitta vinkonu í kaffi eru miklu meiri líkur á því að þú gerir það ef það er komið niður á blað.
8.
Það er ekki hægt að hamra nógu oft á mikilvægi þess að borða morgunmat. Ég forðast að borða kolvetni á morgnana eins og morgunkorn eða brauðmeti vegna þess að ég verð fljótlega þreytt og svöng af því. Próteinsjeik með frosnum berjum, banana og dassi af grófu haframjöli er alltaf mitt fyrsta val. Ef þú fílar ekki próteinduft þá er skyr-boost engu síðri.
9.
Taktu farðann af áður en þú ferð að sofa og leyfðu húðinni að anda yfir nóttina. Það minnkar líkurnar á bólum og hrukkumyndun. Settu líka á þig fótakrem og handáburð þegar upp í rúm er komið.
10.
Lestu í góðri bók í stað þess að horfa á sjónvarpið. Ekki nóg með að þú virkjar heilann og styrkir hann heldur get ég með 100% vissu sagt þér að þú munt sofa betur.
11.
Ekki hafa rafmagnstæki í svefnherberginu, las þetta eitt sinn í feng shui bók og hef farið eftir því alveg síðan vegna þess að það virkar.
12.
Ekki borða þungan mat þrem tímum áður en þú ferð að sofa, vá hvað það er leiðinlegt að vakna með útþandan maga.
13.
Drekktu vatnsglas þegar þú vaknar.
14.
Eplaedik kvölds og morgna, tvö hylki á morgnana og tvö á kvöldin. Eitt af því sem eplaedik gerir er að draga úr bjúg en ég er yfirleitt með tvöfalt andlit þegar ég vakna á morgnana.
Nú er bara að byrja á að innleiða eitthvað af þessum punktum inn í þína rútínu. Þetta þarf auðvitað ekki allt að gerast í einu, Róm var ekki byggð á einum degi.
Einhverstaðar heyrði ég að það taki 21 dag til þess að eitthvað verði að vana.
Fanney hefur skrifað á Pjattið frá 2012. Hún skrifar mest um andlegu hliðina og lífsstílstengd mál. Fanney er viðskiptafræðingur og starfar sem slíkur hjá Markhóli markþjálfun. Hún býr í 105 Rvk ásamt sambýlismanni sínum Óskari Arnarsyni. Fanney er með sól í fiskum en er rísandi bogmaður.