Enn stendur áramótasjálfskoðunin yfir en þá lítum við meðal annars um öxl, horfum yfir farinn veg veltum því fyrir okkur hvernig árið gekk.
Náðum við þeim markmiðum sem við settum okkur í fjármálum, einkalífi, heilsu, vinnu? Hvað gerðist markvert á árinu? Á meðan verslanir gera vörutalninguna getur verið ágætt fyrir okkur að litast aðeins um í eigin ranni og skoða hvað var gott og hvað mætti svo betur fara.
Hér eru nokkrar góðar spurningar sem þú getur velt fyrir þér meðan þú sötrar heitt te og ekki er verra að skrifa svörin niður. Það gefur skýrari mynd af því sem gerðist og eykur með þér þakklæti eða kraft til að standa þig betur á árinu sem nú er að ganga í garð.
Árið 2012
- Með hvaða hætti kom ég mér út fyrir þægindamörkin?
- Með hvaða hætti kom lífið (fólk, aðstæður) mér út fyrir þægindamörkin?
- Hvaða einstaklingum kynntist ég (eða efldi kynnin við) sem hafa staðið upp úr og haft jákvæða/uppbyggilega merkingu fyrir mig?
- Hvaða bækur las ég eða hvaða reynslu upplifði ég sem gerðu mig að betri útgáfu af sjálfri mér?
- Hvaða staði heimsótti ég sem ég hef aldrei séð áður?
- Með hvaða hætti hafði ég jákvæð áhrif á líf annara?
- Hvaða stundir voru mínar uppáhalds á árinu?
- Með hvaða hætti hjálpuðu aðrir mér á árinu sem leið?
- Hvað var það merkilegasta sem ég lærði?
- Hverju breytti ég til hins betra í lífi mínu?
Þetta eru eingöngu leiðbeinandi spurningar og þú getur að sjálfsögðu sett fleiri inn eða breytt þeim. Aðal málið er að skoða og meta lífið og tilveruna með svolítilli fjarlægð.
Skoða það sem á undan er gengið og hvert er verið að stefna á þessu ári.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.