Nú eru margir að setja sér persónuleg markmið fyrir veturinn og gera sér í hugalund hvað bíður á komandi mánuðum.
Þeir sem eru jólasjúkir eins og ég eru jafnvel farnir að huga að jólunum og gera plön fyrir aðfangadag.
Ég er ein af þeim sem er að setja mér persónuleg markmið fyrir veturinn, margt spennandi er að fara gerast á komandi mánuðum og hver er sinnar gæfusmiður þannig að nú er tíminn!
Það er ósköp eðlilegt að efast um að maður nái markmiðum sínum og það eru margir sem þora hreinlega ekki að tala opinberlega um væntingar sínar, þrár og langanir út af hræðslunni að mistakast.
Mín reynsla er sú að því opnari sem ég er með markmið mín því líklegri er ég til að ná þeim. Það virkar líka að umvefja sig fólki sem stefnir að því sama og skapa í leiðinni aðstæður sem styðja við ákvörðuna sem maður hefur tekið.
Kannski er það erfiðasta við persónulega markmiðasetningu að stundum þarf maður að hætta að umgangast fólk sem dregur mann niður eða styður ekki þær breytingar sem maður þarf að gera til að ná markmiðum sínum.
Það sem maður hræðist aftur á móti oft mest er væntanlega að ná ekki settum markmiðum og lítur maður oft á erfiðar aðstæður þannig að manni hafi mistekist. Það að mistakast er ekki það versta sem getur gerst, það versta er aftur á móti það að láta hræðsluna við að mistakast stoppa þig af í að vinna í átt að væntingum þínum, eða láta það stoppa þig að gera eitthvað yfirhöfuð!
Þér munt ábyggilega mistakast í vetur á einhvern hátt, en í staðinn fyrir að láta það stoppa þig af, vertu fljót að koma þér á réttan kjöl, lærðu af mistökunum og haltu áfram.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.