Ég veit það er ekki alveg komið haust, en ég er farin að gera mér í hugarlund hvað mig langar að gera í vetur og að hverju ég á að stefna.
Það styttist í að skólinn byrji, haustvindarnir fara fjúka, bílrúðurnar verða rakar á morgnana og bláberin fara bráðum að verða tilbúin.
Það er svolítið sniðugt að sjá fyrir sér á sjónrænan hátt drauma sína og hefur það verið þekkt lengi að gera sér svokallað óskaspjald, en fyrir nokkrum árum gerði ég eitt slíkt og ótrúlegt en satt þá rættist ýmislegt á því.
Ég ákvað að gera mér eitt slíkt í fyrrakvöld og er það komið á skjáborðið á tölvunni minni. Ég trúi því að ef ég horfi á spjaldið nógu oft þá ósjálfsrátt fari ég að haga lífí mínu að markmiðum mínum. Ég veit ekki hvort það virkar alveg 110% en það sakar ekki að reyna þar sem spjaldið er sett fram sem jákvæður stuðningur.
En hvað um það… mig langar að gerast svolítið persónuleg og deila spjaldinu með þér og í kjölfarið vonast ég til að það verði lesendum okkar hvatning að setja niður á blað væntingar, markmið, óskir og þrár.
Hér má sjá útskýringar á spjaldinu mínu en það er myndin hér að ofan :
Brjóst – Já brjóst! Ég er nefnilega bara með eitt og mig langar í annað.
iPhone 5 – Ég er svoddan nörd og langar alltaf í það nýjasta og mig langar svooo í iPhone 5 þegar hann kemur út.
Vinna – Þrái að komast aftur í vinnuna mína og get ég ekki beðið eftir að byrja.
Fjölskyldan – Ég vil eiga skemmtilegar stundir með fjölskyldunni minni og að allir séu frískir og kátir.
Hlaupa hratt – Stefni á að hlaupa hratt hratt hratt á næsta ári og slá persónuleg heimsmet.
Komast í form – Stefni á að losna við aukakílóin og komast í form.
Taka þátt í hjólakeppni – Mig langar að æfa mig að hjóla og næsta sumar taka þátt í hjólakeppni.
Boston – ÉG ELSKA BOSTON OG MIG LANGAR SVO TIL BOSTON.. Ó BOSTON Ó BOSTON….
Fjárhagslegt öryggi – Peningaáhyggjur er eitthvað sem ég vil ekki vera með og þar af leiðandi vil ég njóta fjárhagslegs öryggis.
Maður á ekki að skammast sín fyrir óskir sínar og þrár og það sem mig langar í langar þig kannski ekki í, en ég veit að þig langar örugglega í eitthvað. Margt getur orðið til að gera okkur að betri manneskjum, annað getur verið yfirborðskennt og sumt verið veraldlegt en allt hefur rétt á sér þar sem þetta eru ÞÍNIR draumar og ÞÍNAR væntingar.
Ég held að við séum ansi oft að láta okkur dreyma um hitt og þetta og þar sem við skrifum það oft ekki niður þá gerum við okkur ekki grein fyrir því þegar draumar okkar rætast.
Prófaðu að skrifa niður drauma þína eða gerðu þér óskaspjald, kíktu svo á það af og til og viti menn kannski rætast draumarnir!
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.