Nú er tími áramótaheita og fólk niðursokkið í að finna leiðir til að gera betur en í fyrra eða bæta sig á einn eða anna hátt.
Skiptar skoðanir eru á því hvort áramótaheit sé vænlegt til árangurs, en það að setja áramótaheit er ef til vill ákveðin tækni í að endurskoða sjálfan sig og það er gott fyrir sálina að kafa ofan í hana og athuga hvaða mann maður hefur að geyma.
Vinkona mín sagði við mig í dag að lífið væri svo stutt að maður ætti að einbeita sér að því að vera góð manneskja. Mér finnst nokkuð til í þessu hjá henni og þetta er góður efniviður í flott áramótaheit.
Ef þú ert á höttunum eftir áramótaheiti þá er gott að hafa þessi atriði bak við eyrað sem ég fann á vef Landlæknisembættisins, en væntanlega er hægt að yfirfara þau á flest öll þau heit sem hægt er að setja sér fyrir árið 2012.
- Setja raunhæf markmið og flýta sér hægt, þ.e. að ná markmiðinu í áföngum.
- Undirbúa sig andlega til að takast á við verkefnið og gera sér grein fyrir hvernig það verður gert.
- Tryggja stuðning frá fjölskyldu eða vinum, þá eru meiri líkur á að áætlunin standist.
- Gera sér grein fyrir hvaða aðstæður það eru sem auka líkur á að maður „falli”, þ.e. að allt fari aftur í sama farið og vera tilbúin(n) með varnaraðferð.
- Ef svo fer að maður „fellur” er mikilvægt að gefast ekki upp heldur setja sig aftur á kúrs og vera búin(n) að ákveða hvernig maður bregst við þeim aðstæðum.
Manneskjan er vanaföst og það kostar vinnu og andlega einbeitingu að bregða út af vananum. Þess vegna er mikilvægt að undirbúa sig vel og velja tíma sem hentar manni sjálfum. Það er ekki endilega víst að það séu áramótin. – Anna Björg Aradóttir, Hjúkrunarfræðingur
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.