Það er í raun alveg merkilegt hvað við getum vanrækt sálarheilsuna. Við vöknum, veljum falleg föt að fara í, burstum tennur, borðum góðan morgunmat og málum okkur og hlaupum á fullu út í daginn og umferðina en gleymum alveg að næra sálartetrið okkar sem þó er undirstaða þess að við getum verið happy.
Við könnumst öll við það að lesa einhverja andlega bók sem veitir gríðarlegan innblástur. Um stund finnst okkur sem við höfum séð ljósið og að héðan í frá skuli lífinu lifað á hverjum degi samkvæmt ráðleggingum bókarinnar! Aha, þetta er bara komið. Nú er maður alveg með þetta.
Eftir lesturinn eru flækjur lífsins einfalt og rakið dæmi. Frægar sjálfshjálpar metsölubækur eru til dæmis Lögmálin 7 um velgengni, Samtöl við Guð og Mátturinn í Núinu, Aldrei aftur meðvirkni og hin ævaforna Konur sem elska of mikið. Þá er skemmst að minnast The Secret sem allir og ömmur þeira lásu í gamla daga.
Það er gott og blessað að lesa góðar sjálfshjálparbækur en þær samt duga skammt ef leiðbeiningunum í bókinni er ekki fylgt. Sjálfshjálparbækur eru nefnilega settar upp eins uppskriftarbækur eða manjúalar. Líkt og þú færð leiðarvísi með nýrri þvottavél eru sjálfshjálparbækurnar ætlaðar til að kenna þér nýjar aðferðir við að lifa lífinu. Sjálfshjálparbækur og skáldsögur eru þannig ólíkar. Þær eru ekki skemmtilestur heldur leiðbeiningar um hvernig á að tækla lífið.
Minntu þig á
Til að koma í veg fyrir að maður gleymi öllum fínu heilræðunum um hvernig sé gott að lifa lífinu og miða að meiri kærleika, ást og velsæld er gott að minna sig reglulega á þessi grundvallar lögmál sem leiða okkur að hamingjunni. Hvort sem er lögmálið um að gefa og þiggja, að lifa í núinu, hjálpa öðrum, komast áfram í vinnunni eða fyrirgefa sjálfum sér fyrir allskonar syndir. Það er svo auðvelt að gleyma þessu öllu í amstri og stressi dagsins.
Pínu ráð til að minna sig á er að hafa einhverja góða andlega bók á eldhúsborðinu og glugga hana meðan þú drekkur kaffið. Svona bækur sem gefa manni gott start á deginum. Það er mun betra að byrja daginn á andlegri næringu en að lesa um morð, svik og skandala á netinu. Sumar bækur eru bara með litlum molum fyrir hvern dag ársins. Það er soldið gott.
Daglegar litlar hugleiðslur
Það geta allir fundið sér góðar bækur af þessari gerð t.d. með því að slá inn Daily Meditations eða smella HÉR. Það er hægt að finna bækur fyrir sjálfsstyrkingu, gegn meðvirkni, sérstakar bækur fyrir konur, karla, listamenn og svo framvegis. Eitthvað fyrir alla.
Hamingjan verður aldrei fengin á einum sólarhring eða eftir lestur einnar bókar. Góður maður sagði mér að hamingjan væri einfaldlega fólgin í athöfnum daglegs lífs. Ef ein þessara athafna er fólgin í að næra andann og sálina með góðum og uppbyggilegum áminningum er ég viss um að hamingjustuðullinn hækkar jafnt og þétt. Let’s do this.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.