ANDLEGA HLIÐIN: Taktu tíma frá fyrir sjálfa þig, farðu úr hversdagshlutverkinu

Hugsar þú stundum að dagarnir/vikurnar  líði alltof hratt? Þú hafir engan tíma til að gera neitt fyrir sjálfa þig! Ferðast, fara í SPA eða jafnvel bara í bíóferð með þínum heittelskaða?

Ég hugsaði svona í alltof langan tíma. Ég er móðir í fullu starfi, vil hafa heimili mitt hreint og fínt. Vil hafa kvöldmatinn á réttum tíma. Vil að börnin fari í tómstundirnar sínar alla daga vikunar og fylgja þeim eftir.

Það þýðir að eftir að ég vinn vinnuna mína, fer í Bónus að versla, keyri og sæki börnin í tómstundirnar, elda matinn, þvæ þvottinn, vaska upp eftir matinn, renni yfir gólfin og að lokum svæfi börnin – er nákvæmlega enginn laus tími fyrir mig.

Dagarnir gjörsamlega þjóta áfram og hver vika verður eins. Svo kemur að því að manni líður eins og maður hafi nákvæmlega ekki gert neitt fyrir sjálfan sig. Maður lifir einhverju „robot“ lífi.

Fyrir nokkrum árum ákvað ég samt að taka svona „me-time“. Taka tíma frá sem ég myndi fara út úr hversdagshlutverkinu og hlaða batteríin. Sirka annan hvern mánuð tek ég einn dag fyrir mig, hvort sem það er um helgi eða á virkum degi. Ég fer á snyrtistofu, fer út í göngutúr með myndavél, skelli mér í ræktina og sund á eftir. Fer í verslunarleiðangur og/eða kaffihús með vinkonunum.

En uppáhaldið mitt er að leika túrista í Reykjavík!

Það virkar þannig að þú tekur þér einn sumarfrísdag úr vinnunni (eða notar laugardag). Skellir börnunum í skólann/leikskólann eða pössun, hóar í  manninn þinn eða góða vinkonu og ferð í miðbæ Reykjavíkur.

Byrjar ferðina til dæmis í Hallgrímskirku og ferð upp á topp. Útsýnið frá toppnum er dásamlegt og það er síbreytilegt eftir veðri og vindum. Taktu með þér myndavél og myndaðu eins og þú værir stödd á framandi stað sem þú hefur ekki séð áður. Taktu eftir húsunum, litunum, hvernig göturnar liggja og skipulaginu yfir Reykjavík.

Taktu svo röltið niður Skólavörðustíginn og farðu inn í öll litlu fallegu galleríin og krúttlegu búðirnar. (Það þarf ekki að vera menningarnótt til að fara og skoða galleríin). Fólkið sem vinnur þarna er svo vinalegt og yndislegt að það er bara gaman að heilsa upp á það. Svo er líka ofsalega margt sniðugt til í þessum krúttlegu búðum sem gaman er að skoða.

Kaffihús eru á hverju horni og mæli ég með því að fara í bröns á Laundromat eða fá sér smurbrauð á Jómfrúnni. Eða jafnvel hvítvínsglas og salat á Bistro. Það eru ótalmargir góðir staðir á þessu svæði.

Eftir góðan bröns er frábært að kíkja í Grjótaþorpið, skoða litlu fallegu húsin sem byggð voru fyrir 100 árum eða meira. Skoða sögu þeirra og taka myndir. Einnig eru komnar skemmtilegar hönnunarbúðir í því hverfi.

Harpa er líka skemmtilegur staður til að skoða í rólegheitum, yndisleg kaffihús/matsölustaður og stórkostleg hönnun. Allt á einum stað.

Endaðu svo daginn á því að skella þér í sund, heitan pott og gufu! Sundhöllin er bara klassík, alltaf dásamlegt að liggja í heita pottinum og gleyma stund og stað.

Ég lofa þér að eftir svona dag líður þér ekki eins og úttaugaðri móður. Þú nærð að fylla  á batteríin hjá sjálfri þér og ert tilbúin til að halda áfram með hversdagsleikann. Njóttu lífsins það er dásamlegt!

Við þurfum ekki alltaf að kaupa okkur farmiða til útlanda til að upplifa hluti, þeir eru hérna handan við hornið! Mundu eftir sjálfri þér og passaðu að gefa sjálfri þér tíma inn á milli, það er vel þess virði!

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest

Færsla: ANDLEGA HLIÐIN: Taktu tíma frá fyrir sjálfa þig, farðu úr hversdagshlutverkinu