Í dag var hræðilegur mánudagur, ég var ofsalega pirruð, pirruð yfir útvarpinu sem bara spilaði ömurleg lög, fáránlegum spurningum fólks í vinnunni, öllum hálfvitunum í umferðinni, það að vatnið gusaðist yfir mig við uppvaskið og að sonur minn hékk í fætinum á mér og grenjaði á meðan ég var að reyna elda mat. Ég var alveg ógeðslega pirruð allt þar til fjölskyldumeðlimir voru farnir að sofa og ég fékk smá frið fyrir sjálfa mig og til að íhuga þennan “ömurlega” dag.
Sem betur fer á ég ekki oft svona daga, en einu sinni var ég mjög oft pirruð. Ég var undir álagi, fékk stressköst, svaf of lítið, fékk rosalega höfuðverki og varð oft veik. Ég hafði ekki þolinmæði með öðru fólki og því sem ekki fór eins og ég hafði áætlað.
Ég tel það marga samverkandi þætti sem orsaka það að maður sér það neikvæða í lífinu og vorkennir sjálfum sér upp að því marki að maður finnst maður hafa rétt á því að vera reiður og pirraður yfir öllu og engu. Matarræði, álag og heilsubrestur getur orsakað streitu.
Það sem hægt er að gera til að minnka álagið á sál og líkama og lifa hamingjuríkara lífi er t.d. :
- Að breyta matarræðinu og taka að mestu leyti út það sem er óhollt.
- Að hreyfa okkur daglega, finna eitthvað sem okkur finnst gaman að hvort sem það er göngutúr, tai-chi eða mótorkross.
- Sofa nóg og næra sálina með lestri góðra bóka, 12 spora kerfi eða hugleiðslu.
- Taka til í lífi okkar, skoða sambönd okkar, eru þau uppbyggileg fyrir okkur? Hvað getum við gert til að bæta þau og hvaða einstaklingar gera ekkert nema draga úr okkur orku og koma illa fram? Lærum að setja mörk.
- Einfalda líf okkar, hver eru aðalatriðin í lífi okkar, hvað gerir okkur hamingjusöm, hvað viljum við, hverjir eru draumar okkar og hvernig getum við náð þeim?
- Erum við stöðnuð í vinnu sem okkur leiðist, getum við gert gott úr henni eða er kominn tími til að skipta?
- Leyfum okkur sjálfum að blómstra, stöndum með okkur sjálfum, segjum meiningu okkar og verum heiðarleg við okkur sjálf og aðra.
Þessi ráð eru eflaust sjálfsagður partur af lífinu í augum margra en fyrir aðra virðist þetta allt saman of erfitt og mikið. En með því að taka bara eitt skref í einu getum við komið okkur út úr viðjum vanans og öðlast hamingjuríkara líf. Með bjartsýnina að vopni er allt hægt, og ef þér finnst það hljóma sem margtuggin klisja þá ert þú kanski einmitt ein af þessum pirruðu einstaklingum sem þarf að fara taka til í lífi þínu 😉
Þegar fíflunum fjölgar í kringum þig er kominn tími til að líta í eigin barm.
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.