Mér finnst alveg svakalega skemmtilegt að pæla í tilgangi lífsins. Hvað við erum eiginlega að gera hérna og hver tilgangur okkar er á þessari jörð?
Það er oft þannig að þegar við leitum að þessum svörum, þá er auðveldara að finna andstæðuna við svarið sem maður leitar að og sama hversu mörg andsvör maður er með, þá kemst maður samt sem áður ekki að neinni niðurstöðu og í kjölfarið finnur ekki endilega svarið við spurningunni. Mér finnst leitin að tilgangi lífsins vera svolítið þannig.
Mér þykir einnig sérstaklega skemmtilegt að skoða hvað annað fólk er að gera til að leita að hamingjunni eða tilgangnum og finnst mér oft líta út fyrir að margir leiti of langt og gleymi að horfa á hvaða efnivið það hefur í lífinu og í nýti það sem það hefur í höndunum.
Ég fór um daginn að velta vöngum yfir setningunni, Grasið er ekki grænna hinumegin.
Ég þekki marga sem lifa lífi sínu þannig að þeir eru alltaf að horfa yfir lækinn eða ánna og reyna að komast yfir og finna fyrir grasinu sem er grænna hinumegin.
En það sem gerist þegar komið er yfir lækinn er að jú, það er aftur horft yfir lækinn og hugsað “hey, grasið er miklu grænna hinumegin” og aftur er farið að vaða yfir blessaða lækinn sem stundum er orðin að á, því jú við tökum líkama okkar og sál með í för, dröslum börnunum okkar yfir, maka, hundi og bíl og þegar upp er staðið eyðir fólk oft lífi sínu í að vera blautt upp fyrir haus út í miðri á, endalaust í einhverjum barningi á móti straumnum, leitandi að einhverju sem það finnur ekki, einfaldlega af því að það gleymir að staldra við og horfa á grasið sem það stóð á, áður en það óð út í ánna.
Ég geri mér grein fyrir að þetta er mikil einföldun á lífsbaráttunni.
Auðvitað verður maður stundum að brjóta sig út úr gömlu fari og vaða lækinn, jafnvel synda yfir hann, gleypa smá vatn, finnast maður vera drukkna, skríða svo í land uppgefin og orkulaus en það er svo mikilvægt að gera sér grein fyrir að þessi barátta hafi verið partur af leitinni að tilgangi lífsins, jafnvel hamingjunni.
Ég geri mér einnig grein fyrir að stundum er manni bara hent út í ánna án þess að hafa stokkið út í eða hafa verið að pæla í því láta vaða.
Þegar við komum yfir ánna er mikilvægt að skoða hvar við stöndum og hvað er í kringum okkur. Ef það er einhver arfi eða illgresi í grasinu sem við stöndum á, þá er gott að byrja á að reita hann upp og sá fleiri grasfæjum, hinkra í smá stund og athuga hvernig málin þróast frekar en að stökkva strax út í lækinn og byrja að vaða.
Grasið er nefninlega ekki alltaf grænna hinumegin.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.