Meðferðastofan Shalom hefur verið starfrækt frá árinu 2010 en þar starfa nú ráðgjafar með fjölbreyttan bakgrunn og reynslu.
Einn af þeim er Inga Valdís Heimisdóttir en hún býður upp á höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð, innri líffæra vinnu, heilun og hugleiðslu- og slökunarkvöld.
Inga Valdís leiddist út í andleg málefni vegna sinnar eigin áfallasögu sem hófst þegar hún var lítil. Hún byrjaði að horfast í augu við hana fyrir ellefu árum síðan og fór út frá því að stunda mikla sjálfsvinnu.
Það þróaðist út í löngun til að hjálpa fólki en ásamt því að taka á móti fólki og börnum á öllum aldri á stofunni aðstoðar hún einnig á námskeiðum hjá Upledger.
„Næmni mín er þannig að ég vissi alltaf ótrúlega margt en ég gerði mér ef til vill ekki grein fyrir því fyrst. Að ég væri að sjá hluti fyrirfram og þess háttar. Svo opnaðist ég bara einn daginn.“
Inga Valdís vinnur að mestu leyti með áfallakerfi fólks og orkustíflur, sem og gömul og ný áföll og líkamlegu einkennin sem eru afleiðing af þeim. Hennar reynsla er sú að verkir í líkamanum eigi sér oft tilfinningalega orsök sem vinna þarf úr. Það sé bara spurning hvaðan verkurinn komi.
Samkvæmt Ingu Valdísi fer það eftir hverjum og einum hvaða meðferð hentar best. Þegar hún fær manneskju á bekkinn byrjar hún á því að leggja hendurnar á fætur þess en þar með fer af stað eins konar skanni innra með henni sem gefur til kynna hvers konar meðferðar sé þörf.
Stundum er einfaldlega verið að vinna með aftanákeyrslu frá því í síðustu viku en á öðrum tímum er um gamla áfallastreitu úr fortíðinni að ræða. Fyrir þá sem ekki hafa tök á því að koma á stofuna býður Inga Valdís jafnframt upp á fjarheilun.
Andleg málefni og óhefðbundnar lækningar eru enn litnar hornauga af mörgum en Inga Valdís mælir með því að fólk stígi inn í óttann og prófi áður en það dæmir. Það má senda henni póst á ingavheimis@gmail.com
„Taugasérfræðingar út í heimi eru loksins farnir að viðurkenna að viðtalsmeðferð sé ekki nóg, af því að við geymum öll okkar áföll í líkamanum – það er bara misjafnt hvar. Sem betur fer er heimurinn hins vegar að opnast fyrir því að við þurfum að vinna úr þessum líkamlegu einkennum okkar.“
Frekari upplýsingar um nám hennar og bakgrunn er að finna á Shalom.is.
Guðný Guðmunds fæddist árið 1986 og ólst upp á Vestfjörðum. Hún hefur aðallega verið búsett í Reykjavík en líka alið manninn í Barcelona, Finnlandi og Englandi. Í dag starfar hún sem texta- og hugmyndasmiður auk þess sem hún rekur Innblástur.is, upplýsingasíðu um nám, atvinnu og ferðalög fyrir ungt fólk. Guðný hefur þó mestan áhuga á andlegum málefnum og sjálfsrækt.