Meðvirkni er orð sem maður heyrir fleygt en orðið er samnefnari yfir allskonar hegðun sem ekki er talin æskileg eða uppbyggileg.
Meðvirkni er einnig notað hjá Al-anon, samtökum fyrir aðstandendur alkóhólista. Flest þekkjum við eða höfum amk. einn alkóhólista í fjölskyldunni og þeir sem alast upp við eða búa við alkóhólisma temja sér oft leiðir til að takast á við alkóhólistann (leiðir til að lifa af og leiðir til að reyna breyta alkóhólistanum, fá hann til að verða edrú.)
Þessar “leiðir” verða oft að hugsýki, sérstaklega ef það sem við reynum að gera ber ekki árangur eða gerir ástandið verra. Það er þetta sem við köllum meðvirkni og hún kemur einnig út sem stjórnsemi, ótti, reiði, örvænting og kúgun sem fer úr böndunum.
Pistlahöfundi finnst meðvirkni best líst þannig að: “Alkóhólistinn drekkur en vínið hellist yfir alla sem nálægt honum eru!”
Þetta má færa yfir á allar aðrar fíknir eða sjúkdóma, þeir sem eru næstir komast ekki hjá því að verða fyrir áhrifum.
Meðvirkni getur leitt til algjörs niðurbrots einstaklings og í örvæntingu sinni á hann von hjá Al-anon þar sem fólk kemur saman, deilir reynslu og styrk og fer eftir því sem kallað er 12 spora kerfið. Al-anon hefur bjargað mörgum lífum og hjálpað fólki að finna lífshamingjuna þegar það taldi alla von úti. Einnig hafa Al-Anon samtökin hjálpað mörgum fjölskyldum alkóhólista og auðvitað alkóhólistunum líka.
(Pistlahöfundur hefur verið í Al-anon í 12 ár og þekkir engan sem séð hefur eftir að fara þangað. “Að taka 12 sporin er það besta sem ég hef gert fyrir líf mitt og ég þekki heldur engan sem séð hefur eftir því.)
Sumir halda að 12-spora samtök séu trúarsamtök en svo er ekki. Al-Anon eru ekki ofstækis-samtök – þarna er enginn að reyna heilaþvo þig, dæma eða skipa þér að gera eitt né neitt. Í Al-anon er fólk samankomið að hjálpa hvert öðru og hafa 12 sporin til viðmiðunar.
Pistlahöfundur dettur inn og út úr samtökunum en býr alltaf að því sem hún hefur öðlast þar þegar erfiðleikar hrjá hana og er því ómetanlega þakklát. Hún les reglulega bók sem heitir “Einn dagur í einu í Al-anon”. Samansafn af reynslusögum frá félögum fyrir hvern dag.
Hér er brot úr bókinni:
Einn dagur í einu, 25 Febrúar
Hef ég nokkurn tíma reynt að finna neistann litla sem sprengdi af sér bitur orð og beiskar skammir innan fjölskyldunnar? Get ég viðurkennt að hafa valdið sprengingunni með því að bregðast of fljótt við fáránlegum ásökunum og ávítum? Tek ég allt það sem alkóhólistinn segir – í óbærilegri reiði gagnvart sjálfum sér- sem móðgun við mig?
Þegar sektarkennd alkóhólistans brýst út verð ég að gera mér grein fyrir því að henni er alltaf beint að hans nánustu og oft þeim sem eru honum kærastir. Ég ætla að minna mig á að slík hegðun sýnir aðeins vanlíðan alkóhólistans. Ég ætla ekki að gera ástandið verra með því að taka það alvarlega sem alkóhólistinn segir á slíkum stundum.
Til umhugsunar í dag:
Þula frá löngu liðinni bernsku gefur einfalt svar:
„Stokkar og steinar geta brotið mín bein en uppnefni getur ei gert mér mein.“ –Nema við leyfum því að gera það.
„Láttu mig halda frið við þögnina, þegar ekki er réttur tími til að segja það, sem mér kemur í hugann.“
„… að þegja hefur sinn tíma og að tala hefir sinn tíma.“ (Predíkarinn)
Ef þig langar að fræðast meira um meðvirkni og al-anon þá er þetta linkurinn.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.