Hver er töfralausnin við vandamálum lífsins? Hvað er það sem við getum gert til að verða hamingjusöm?
Leiðinlega svarið er að lausnin við lífshamingjunni er ekkert flókin. Allir helstu gúrúar heimsins hafa fyrir löngu áttað sig á henni.
Svarið er að það er engin töfralausn. Að vera hamingjusamur er að taka ákvörðun um það, hvern morgun er maður vaknar, að ákveða að þetta verði góður dagur. Að ákveða að í dag ætli ég að vera hamingjusöm. Ákveða það svo aftur næsta morgun og morguninn þar á eftir og alla morgna það sem eftir er af ævi okkar.
Það er að gera sér grein fyrir að stundum muni maður hreinlega ekki nenna að vera í góðu skapi. Að maður nenni ekki alltaf að leggja sig fram. Af því að það er nefnilega ekkert auðvelt. Við vitum alveg hvað er hollt og gott fyrir okkur: Að búa við rútínu líkt og að fara að sofa á sama tíma á hverju kvöldi og vakna á sama tíma hvern morgun, að borða fjölbreytta fæðu, að drekka vatn í staðinn fyrir gos, að sleppa neyslu áfengis og fíkniefna, að stunda reglulega hreyfingu sem við höfum gaman af.
Þetta er ekkert flókið. Við vitum þetta allt. Að lifa heilbrigðu líferni aðstoðar okkur við að halda líkama okkar og huga í góðu ástandi. Hollt líferni gerir það að verkum að það er auðveldara að vera jákvæður enda er mun erfiðara að vera ánægður með lífið og tilveruna þegar þreyta og streita tekur yfir. Þetta snýst alltaf um að taka góðar ákvarðanir.
Stundum tökum við þessar góðu ákvarðanir samt ekki, jafnvel þó við vitum betur. Við svindlum á rútínunni. Erum ekki fær um að standa okkur þann daginn. En það má líka. Þá þarf að passa sig á því að fara ekki í niðurrifsstarfsemina, sem er alltof auðvelt. Þess í stað væri mun betra að leyfa sér að eiga dag eða viku eða mánuð þar sem lífið er ekki alveg í föstum skorðum.
Að elska sjálfan sig þó svo að maður gæti verið að gera betur. Að slaka á fullkomnunaráráttunni og leyfa sér að vera ófullkominn. Það má líka.
Guðný Guðmunds fæddist árið 1986 og ólst upp á Vestfjörðum. Hún hefur aðallega verið búsett í Reykjavík en líka alið manninn í Barcelona, Finnlandi og Englandi. Í dag starfar hún sem texta- og hugmyndasmiður auk þess sem hún rekur Innblástur.is, upplýsingasíðu um nám, atvinnu og ferðalög fyrir ungt fólk. Guðný hefur þó mestan áhuga á andlegum málefnum og sjálfsrækt.