Allir í heiminum (um það bil 7 milljarðar manns) eru ólíkir. Eins merkilegt að það hljómar, miðað við gríðarstóra tölu, þá erum við hvert og eitt einstök. Enginn er eins og ég, og ekki eins og þú heldur.
Stundum á ég það til, og eflaust er ég ekki ein um það, að hugsa eins og að allir hljóti að eiga vera eins. Eða að minnsta kosti svipaðir. Þessi hugsunarháttur er mjög rótgróinn hjá mér þegar kemur að vexti og útliti. Ef ég er svona hávaxin, og þetta þung þá ætti ég að líta út eins og….einhver sem er jafn þungur og hár og ég. Í sjálfu sér er þetta ekki órökrétt, við mælum hluti alla daga út frá sömu forsendum. Þegar kemur hinsvegar að mannslíkamanum, þá er sagan allt önnur.
Þar sem ég hef átt erfitt með að tileinka mér þessa staðreynd, hef ég oft verið þjökuð af minnimáttarkennd og stend sífellt í samanburði. Stundum er það í hóflegum búning:
Hvað er þessi stelpa búin að hlaupa lengi á brettinu? Hvað lærði skólafélaginn lengi í gærkvöldi? En alltof oft stend ég sjálfa mig að því að hugsa: Af hverju er ég með stærri bingó-vöðva en Michelle Obama? Hvers vegna er ég ekki með jafn stinnan rass og Sofia Vergara? Líklegast finnst ykkur þetta fáránlegar pælingar en ég vil meina að ég sé ekki ein um þær. Í kringum mig eru fjölmiðlar uppfullir af allskonar nýjum og spennandi leiðum fyrir mig til að vera með minnimáttarkennd og fyllast vonbrigði yfir mínum eiginn líkama-hentugt!
Um daginn, þegar ég var nýbúin að andvarpa yfir myndum af Heidi Klum að bora í nefið í bikiní, rambaði ég inn á heimasíðu sem heitir My Body Gallery.
Það er fremur einföld heimasíða, en hefur kröftugan boðskap. Inni á henni áttu að fylla út nokkrar upplýsingar um þig: þyngd, hæð, buxnastærð, líkamsform.
Þá koma upp allskonar myndir af konum sem deila sömu tölum og þú. Ég trúði ekki mínum eigin augum. Enginn þeirra leit út eins og ég. Ekki ein.
Sumar voru mýkri en ég, aðrar virtust vera talsvert grennri-sumar þeirra voru tónaðar og aðrar ekki. Einhverjar áttu líkama sem ég myndi öfunda, en aðrar ekki. Samt voru þær jafn þungar og ég, og jafn háar.
Í þokkabót gætum við allar skipst á buxum, samt var engin þeirra eins og spegilmyndin mín.
Ég gat ekki látið mig vanta þarna, á meðal þessara kvenna sem deildu með mér einhverju sem var mér svo mikilvægt. En við eigum lítið annað sameiginlegt, fyrir utan að vera konur í sömu gallabuxnastærðinni. Á síðunni er mynd af mér, þú getur skoðað hana ef þú villt. Því hvort sem að ég lít út eins og þú, eða er í sömu þyngd og einhver önnur kona, þá skiptir það engu máli. Þetta með að allir séu ólíkir er loksins aðeins farið að skýrast fyrir mér.
Ég skora á alla til að skoða þessa frábæru heimasíðu. Finndu sjálfa þig og skoðaðu alla hina sem deila þinni kíló-tölu.
Hugsaðu svo um það, næst þegar þú fyllist óánægju yfir því að vera ekki svona og hinseginn. Þú ert bara þú-og þú hefur eiginleika sem enginn annar hefur. Njóttu þess!
Síðuna My Body Gallery má finna hér.
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.