Nafn: Andrea Rán Jóhannsdóttir – Alvia Miakoda Islandia
Aldur: 22 ára
Stjörnumerki: Tvíburi og rísandi vog
Á dögunum tók ég viðtal við Andreu Rán eða Alviu Islandiu sem hefur verið að gera góða hluti í tónlistarsenunni á Íslandi.
Nýlega gaf hún út sitt fyrsta tónlistarmyndband sem er ótrúlega skemmtilegt og fjörugt.
Alvia er einstaklega frumleg og varla hægt að líkja tónlist hennar við neitt annað hér á landi.
Hún er sjarmerandi álfur sem ákvað að nefna sig upp á nýtt þegar hún var 16 ára því henni fannst hún aldrei vera neitt sérstaklega mikil Andrea.
Nafnið Alvia Islandia Miakoda kemur úr álfheimum og þýðir Alvia=Andlegt, Miakoda er indjánanafn sem þýðir kraftur tunglsins og Islandia þýðir hið nýja Ísland. Hún byrjaði að búa til tónlist aðeins 16 ára og hefur þroskast mikið síðan þá og sífellt að þreifa fyrir sér.
Hvernig myndiru lýsa sjálfri þér ?
„Ég get ekki lýst mér á einhvern einn hátt því ég er mjög margbreytilegur persónuleiki og fylgi mjög mikið tilfinningum mínum. Ég reyni að fylgja bara hreinni orku, gleði og ást en get á sama tíma verið malandi flippkisi!”
Hvernig myndiru lýsa tónlistarstílnum þínum ?
„Hann er mjög breytilegur núna. Mér fannst ég aldrei vera að rappa, mér fannst ég vera að mantra þannig ég var alltaf mantra-tantra-barn. Ég er að þreifa svolítið fyrir mér núna með hvað mér finnst skemmtilegast og ég fýla mjög svona dreamy beat með miklum bassa. Ég er búin að vera að skapa með fólki sem er að koma úr elektróník og house tónlist sem er að gera líka hiphop beats.”
Hvenær byrjaðiru? „Ég tók upp fyrsta lagið mitt þegar ég var 16 ára. Ég var alltaf búin að vera að skrifa tilfinningarnar mínar eða bara skrifa og dútla og svo byrjaði þetta allt að ríma. Ég bjó ein þannig maður átti ekki alltaf mikinn pening til að gefa jólagjafir og maður var svona búin að föndra sig í gegnum ákveðin jól og þá ætlaði ég að taka upp rappdisk sem ég gerði og gaf fjölskyldunni tveggja laga disk í jólagjöf. Alter hét hann, samdi eitt lag sem heitir árstíðirnar og annað sem heitir himin háar hæðir sem er inná soundcloudinu mínu.”
Hver gefur þér mestan innblástur ? „Það er búið að vera mjög breytilegt í gegnum tíðina en eins og er þá er Björk mikill innblástur með að vera útúr boxinu, mér finnst hún bara flott og sannleikur. Ég þoldi aldrei Nicki Minaj til að byrja með en ég er algjör fan núna, mér finnst hún alveg mega powerful og töff.”
En í lífinu ? „Það er mamma mín, ég veit að það er corny að segja það en hún er það. Hún er stjarna.”
Hvaða áhugamál hefuru fyrir utan tónlist ? ,,Ég teikna, mála og geri mikið clipart. Ég hélt listasýningu með tveimur vinum mínum í Exodus, gömlu hiphop búðinni áður en hún lokaði. Þá var ég með öll listaverkin mín verðmerkt yfir milljón og það keypti enginn neitt,” segir hún og hlær. „Ég vildi heldur ekki selja neitt. Ég fýla líka geðveikt að liggja uppí sófa og horfa á Klovn.”
Hvað gerir tónlist fyrir þig tilfinningalega ? „Hún gerir mikið fyrir mig tilfinningalega, hún losar. Maður er stundum hálf villtur og með einhverjar tilfinningar sem erfitt er að losa. Ég hef mikið þurft að standa á eigin fótum, þá hjálpar tónlist mér að setja mér lífsreglurnar, þetta eru galdrar. Ég hef gert lög sem eiga að vera hvítagaldrar um hvað á að gerast í lífinu mínu og það hefur allt gerst.”
Hver eru top 5 uppáhaldslögin þín ?
1. Björk – Wanderlust (Ratatat remix)
2. Burial & Four Tet – Moth
3. Dialated Peoples – Worst comes to worst4. Massive Attack – Teardrop
5. Tricky – Stay
Hvernig gömul kona helduru að þú eigir eftir að verða ?
„Ef ég verð gömul kona sem ég vona, því mig langar ROSA að vera gömul kona í framtíðinni, þá held ég að ég eigi eftir að vera galdrakona, galdraömmukona. Mig langar að vera skrítin til ég dey. Og eiga nóg af fjölskyldu, svo maður deyji ekki úr leiðindum.”
Finnst þér vanta fleiri stelpur í hiphop senuna ? „Já ég spái samt svo lítið í því hvort maður sé stelpa eða strákur. Þegar ég byrjaði að taka upp mitt stöff þá voru engar sem ég vissi um nema Cell 7 og einhverjar stelpur sem voru að leika sér að þessu. Mér finnst bara að fólk sem vill skapa ætti að skapa og ef þú ert með passion þá geriru það, strákur eða stelpa.”
Hvað hefuru að segja við þær er vilja en ekki þora ? „Bara dú it maður! Það er ekkert að vera hræddur við, það bítur enginn hérna. Þú verður bara að vera; Mig langar að skapa… þannig… fokkjú. Ég fæ alveg mótlæti en maður hættir ekki, maður verður að skapa fyrir sjálfið.”
Hvað er spennandi framundan ? „Húbba Búbba heimsmeistaramót í bubbleblowPop.”
Hver er svo draumurinn ? „Hann breytist á hverri nóttu. Bara vera hamingjusöm og ef mig langar ekki að gera þetta á morgun þá bara geri ég þetta ekki. Það má aldrei vera pressa skiluru, mig langar ekki að líða eins og ég þurfi að gera annað lag. Ég gerði þetta, kannski er það bara nóg ? Samt ekki, auðvitað er draumurinn að skapa og lifa á listinni og einfaldlega vera hamingjusöm.”
Lífsmottó? Kósýslide!
Það er hægt að fylgjast betur með Alviu Islandiu á:
www.soundcloud.com/Islandia
Instagram: Alviaislandia
Snapchat: Alviaislandia
Youtube: Alvia Islandia
[youtube]https://www.youtube.com/watch?v=Kjt0THoFuxc[/youtube]
Róberta Michelle Hall er fædd í Reykjavík en rekur rætur sínar til Bandaríkjanna eins og nafnið ber með sér. Hún á erfitt með að sitja kyrr og líður best með mörg járn í eldinum. Helstu áhugamál Róbertu eru líkamsrækt, sálarrækt og bakstur. Hún bakar allt milli himins og jarðar hvort sem það er óhollt eða hollt og lætur stundum aðra um að klára kökuna sem hún smakkar þó sjálf því gott skal það vera!