Ég hef alltaf haldið því fram að fyrsta skrefið í að takast á við fordóma í samfélaginu sé að viðurkenna að við erum öll haldin einhverskonar fordómum.
Þegar ég sá Conchitu Wurst í fyrsta skiptið get ég vel viðurkennt að ég var hissa og með smá fordóma — ég vissi ekki hvort ég ætti að kalla þessa fallegu konu, sem var samt greinilega karlmaður (vegna skeggsins), hann eða hana og ég einfaldlega skyldi ekki tilgang skeggsins.
En eftir að ég stóð mig að þessum hugsunum ákvað ég, að í staðinn fyrir að dæma Conchitu sem eitthvað skrýtið sem ég skildi ekki, myndi ég leita mér upplýsinga.
Conchita er alter-egó, eins og t.d. Silvía Nótt
Samkvæmt Wikipedia, og mörgum öðrum miðlum, er Conchita karakter Tom Neuwirths, sem er samkynhneigður karlmaður. Tilgangur hans með Conchitu og þess að hún er með skegg er sá að skapa umburðarlyndi gagnvart öllu sem fólk flokkar vanalega sem frábrugðið “norminu”.
Þegar Tom er klæddur upp sem Conchita vill hann að notuð séu kvenkynsfornöfn þegar talað er um hana.
Eftir þessa útskýringu var ég enn smá hugsi en komst svo að þeirri niðurstöðu að það þjónaði engum sérstökum tilgangi að vera að velta fyrir sér af hverju Tom notaði þessa aðferð til að berjast fyrir því sama og við ættum öll að vera að berjast fyrir; að skapa umburðarlyndi gagnvart öllu sem virðist vera frábrugðið norminu svokallaða.
Engin skaðleg áhrif!
Það að Tom skapi karakter sem er kona sem er með skegg hefur engin skaðleg áhrif á nokkurn einasta mann og þegar hann vinnur svo Eurovision get ég ekki séð annað en það hafi góð áhrif.
Hann er líka í rauninni ekki aðeins að berjast fyrir réttindum samkynhneigðra, eða þeirra sem líffræðilegt kyn og raunverulegt kyn þeirra er ekki það sama. Hann er að berjast fyrir hönd allra sem passa ekki inn í “normið” hvort sem það eru hefðbundnir fegurðarstaðlar, fólk sem lifir lífinu þannig að það er litið hornauga eða einfaldlega klæðir sig þannig að samfélagið sem heild viðurkennir það yfirleitt ekki.
Þó að ég persónulega hafi ekki haldið neitt sérstaklega upp á lagið hennar Conchitu þá er staðreyndin samt sem áður sú að það var eitt flottasta lagið í ár, já ég ætla að ganga svo langt að segja að það sé staðreynd.
Ég hélt persónulega með Hollandi en bjóst ekki við að það ynni. Þetta eru álög – lag sem ég held með hefur aðeins þrisvar unnið á seinustu 15 árum svo ég var bara mjög sátt að lagið sem lenti í fyrsta sæti væri flott lag, með flottan boðskap og þrusuflottan flytjanda.
Sigurlagið í Eurovision hefur sjaldan búið yfir svo öflugri þrennu!
Gleðivíman dvínaði á Facebook
Eftir Eurovision rataði ég inn á Facebook síðuna hjá Conchitu þar sem öll mín vellíðan yfir sigrinum hennar hvarf eins og dögg fyrir sólu.
Þar var auðvitað að finna helling af hamingjuóskum en af þeim athugasemdum sem ég leit á inn á síðunni hennar voru um 40% hatursskilaboð og morðhótanir eða beiðni um það að Conchita myndi fyrirfara sér.
Ég tók mig til og tilkynnti slatta af þeim, allra grafískustu morðhótanirnar og sjálfsmorðsbeiðnirnar sem innihéldu myndrænar lýsingar sem og allra grófstu hatursskilaboðin.
Þó þetta hafi ekki verið mikið þá leið mér samt vel með að hafa allavega gert eitthvað, alveg þar til daginn eftir.
Facebook sér ekkert að hatrinu
Daginn eftir vaknaði ég með tilkynningar Frá Facebook þar sem þeir tilkynntu mér að engin af þeim athugasemdum sem ég tilkynnti hafi verið fjarlægð þar sem engin þeirra bryti þeirra samfélagsreglur… já við erum að tala um sama Facebook og hefur margsinnis fjarlægt myndir af konum að gefa börnum brjóst.
Þar að auki voru nokkrir kunningjar mínir á Facebook voru farnir að dreifa þessari mynd hér að ofan á tímalínuna hjá sér. Við myndina eru skilaboð á finnsku sem ég náði að skilja með hjálp Google Translate: Þróunin þróar af sér blendinga, er vinalegt að leyfa þeim að lifa? Þetta tvennt fékk mig til að sjá eftir því að hafa ekki haldið með Conchitu.
Það er ekki nokkurs manns að ráða því hvernig annað fólk lifir lífi sínu á meðan fólk er ekki að særa eða meiða aðra viljandi.
Því síður er það nokkurs að óska öðrum dauða þegar það ákvarðast eingöngu af því hvernig fólk klæðir sig, hjá hverjum það sefur eða sefur ekki eða hvern viðkomandi elskar. Þó að fólk sé frá öðrum menningarbakgrunni, sé annarar trúar, samkynhneigt, tvíkynhneigt eða alls ekki neitt hneigt þá er það allra réttur að fá að lifa lífinu með sömu réttindi og við hin sem flokkumst undir „normið“.
[youtube]http://youtu.be/xXAoG8vAyzI[/youtube]
Ef við erum raunsæ þá viðurkennum við að það á eftir að taka okkur flest tíma að venjast því að sjá konu með skegg í sjónvarpinu, eða úti á götu og bregðast ekki við og það á eftir að taka okkur tíma að læra á þær hneigðir sem við vorum að heyra af í fyrsta skipti í seinustu viku… en þangað til er um að gera að spyrja sjálf okkur spurninga bæði til að komast að rótinni í okkar fordómum og til að gera út af við þá.
Sem betur fer eru þeir sem flokkast utan normsins í dag að finna frelsi til að koma „út úr skápnum“. Fólk eins og Conchita Wurst eru að hjálpa til við að hleypa þeim út í samfélag sem vonandi bráðum mun taka á móti öllum alveg eins og þeir/þær/þau eru og vilja vera.
[youtube]http://youtu.be/SaolVEJEjV4[/youtube]
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.