Öll eigum við okkur drauma enda gefa draumar lífinu tilgang og gleði.
Draumana þarf að uppfylla og einn í einu er ansi gott markmið. Einn af mínum draumum er að fara í pílagrímsferð sem ég las fyrst um í bók eftir Paolo Coehlo.
Fyrstu kynni mín af Paolo Coehlo var bókin um Alkemistann. Ég heillaðist svo af lífsspeki hans og skrifum að ég hef lesið allar bækur sem hann hefur gefið út eftir það rétt eins og milljónir manna um heim allan.
Í einni af bókum hans lýsir hann pílagrímaferð sinni til Santiago de Compostela en það er mánaðarlöng ferð um 500 kílómetra yfir þveran N- Spán. Leiðin heillaði mig svo að ég ákvað að þessa leið skyldi ég ganga og best væri að fara að æfa sig strax! Við það dreif ég mig uppá Esju á tátiljum… og síðan hef ég ekki klifið fleiri fjöll þrátt fyrir einlægan vilja og fjárfestingu í gönguskóm.
En ef það er eitthvað sem Paulo kennir manni þá er það að gefa drauma sína aldrei upp á bátinn og því er ég enn ákveðin í að láta þennan draum verða að veruleika einn daginn og æfa mig á fjöllum landsins fram að því.
Ástæðan fyrir því að ég deili þessu hér er að þjóðfélagið er hálf uppgefið vegna efnahagshrunsins og ein afleiðing þess er að margir neita sér um að elta drauma sína en mig langar að minna á að við eigum aðeins þetta líf og verðum að gera gott úr því -setja okkur markmið og byrja að lifa einn draum í einu.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.