Pjattrófurnar hafa verið duglegar að birta myndir eftir fræga og flotta ljósmyndara. Ég sá mynd af hundinum Chanel og taldi í fyrstu að ljósmyndin væri eftir erlendan dýraljósmyndara.
Því varð ég skemmtilega hrifin þegar mér var sagt að myndin væri eftir 16 ára gamla stúlku og við frekari eftirgrennslan hafði ég samband við Ástu Katrínu, fékk að skoða ljósmyndir hennar og taka saman brot af þeim myndum sem hún hefur tekið til að sýna ykkur.
Það er greinilegt að hér er á ferðinni ljósmyndari með næmt auga fyrir myndefninu. Það verður því gaman að fylgjast með henni Ástu Katrínu vaxa og þroskast í sínu fagi – því hver hefur ekki gaman af ungum talentum?
Ásta Katrín er 16 ára stelpa sem stundar nám við Fjölbrautaskólann í Breiðholti en býr í Garðabæ. Hefur gríðalegan áhuga á listum og þykir fátt skemmtilegra en að teikna og taka myndir.
Hvenær byrjaði áhugi þinn á ljósmyndun?
Ég hugsa að ég hafi verið um 12 ára þegar ég fór að stelast í vasamyndavélina hennar mömmu, en þegar það fór að gerast oft á dag hugsa ég að ég hafi áttað mig á hversu skemmtilegt og áhugavert mér þótti að taka myndir. Ég fékk síðan fyrstu vélina mína í fermingargjöf og þá þótti mér enn skemmtilegra að mynda.
Hvaða myndavél ertu með og hvaða tækni notarðu?
Ég er með Canon EOS 400D. Ég reyni hvað ég get að ná fallegum myndum sem lýsa myndefninu sem best.
Hvert er uppáhalds myndefni þitt?
Ég hef brennandi áhuga á dýrum og þar af leiðandi þykir mér afskaplega gaman að mynda dýr. Það er alveg einstakt að mynda dýr. Krefjandi, en skemmtilegt. Ég þarf ekki að leita langt til að mynda gæludýr enda á ég nokkur sjálf. Mér þykir þó alltaf gaman að fá að mynda dýr annarra.
Hvað langar þig til að gera þegar þú verður stór?
Mig langar alveg ótrúlega margt en mig hefur lengi dreymt um að verða ljósmyndari og mér þykir alls ekki ólíklegt að það sé það sem ég komi til með að gera.
…og skyldi snillingurinn vera pjattrófa?
Hvaða snyrtivörur notar þú?
Merki skipta mig ekki miklu máli en ég á og nota snyrtivörur frá til dæmis Lancome, Maybelline og Avon.
Hver er uppáhaldsfatabúðin þín?
Ég verð að viðurkenna að ég á mér enga uppáhalds fatabúð. Ég held mikið upp á Zöru en aðrar búðir með flottar vörur heilla mig alls ekki minna.
Smelltu á myndirnar henna til að sjá þær í stærri upplausn:
Fleiri myndir eftir Ástu Katrínu er að finna á flicker síðunni hennar.
Díana Bjarnadóttir útlitsráðgjafi og stílisti hefur margra ára reynslu við að aðstoða fólk með fataval. Hún starfaði meðal annars á Ítalíu og í London þar sem hún var stílisti stjarnanna hjá Giorgio Armani og Gucci.
Hefur einnig verið búsett í svíþjóð, Hollandi og á Selfossi en býr nú í Reykjavik. Díana er einnig með menntun í förðunarfræði. Greinar og ljósmyndir Díönu hafa m.a. verið birtar í tímaritunum Veggfóður, Ský og Smáralindarblaðinu. Díana er fædd 1. maí og er því naut.