Ágústa Johnson hefur um árabil verið meðal helstu fyrirmynda landsmanna þegar kemur að uppbyggilegum lífsstíl og heilsueflingu.
Hún segir að okkur sé hollast að hafa 80% mataræðisins heilsumegin og að öfgar séu ekki af hinu góða.
Hvað gerir þú helst til að halda góðri heilsu?
Stunda reglulega þjálfun, alltaf. Vanda valið á því sem ég set ofan í mig og gæti þess vel að fá nægan svefn.
Hvað hreyfirðu þig oft í viku og hvernig?
Reyni að æfa ekki sjaldnar en fjórum sinnum í viku, helst fimm sinnum. Æfi fjölbreytt, sæki Club Fit tíma, Þrek tíma, 5*FIT æfingakerfið, æfi í tækjasalnum, fer stundum út að hlaupa og hjóla. Ég þarf að hafa mikla fjölbreytni, annars fæ ég fljótt leið.
Eftir því sem maður verður eldri og vitrari áttar maður sig á því að meira er ekki alltaf betra. Öfgar eru ekki málið.
Hverju finnst þér auðvelt að sleppa og hvað gætirðu aldrei gefið upp á bátinn?
Gæti aldrei gefið súkkulaði upp á bátinn. Lífið er of stutt til að neita sér um það sem gleður mann og kætir. Lykilatriðið er að borða hollt 80% af tímanum og passa skammtastærðir.
Hvað færðu þér í morgunmat?
Hafragraut með bláberjum og kanil eða grófkorna brauð með möndlusmjöri. Ca 4x í viku skelli ég í safapressuna einhverri hollustu t.d. hveitigrasi, engifer, eplum og gulrótum. Svo er morgunkaffibollinn himnesk stund hjá mér!
En á milli mála?
Er alltaf með lífrænar ósaltaðar möndlur/hnetur og goji ber í skrifborðsskúffunni í vinnunni og narta í það þegar ég finn fyrir svengd. Eplabátar með möndlusmjöri svaka gott millimál líka.
UPPSKRIFT
Súkkulaðidrykkurinn minn er í uppáhaldi núna, fastur passi um helgar og börnin elska hann líka.
- 1 banani
- Chia fræ lögð í bleyti í 1 dl vatni
- 1 kúfuð msk hreint kakó
- 1 dl. möndlumjólk (eða Fjörmjólk)
- 1 msk möndlusmjör (eða lífrænt hnetusmjör)
- 5-7 dropar vanillu Stevia
- slatti klaki
Allt í blandara
Skiptir máli að vera töff í ræktinni? Áttu þér uppáhalds línu í íþróttafötum?
Skiptir fyrst og fremst máli að vera í þægilegum ræktarfatnaði sem er léttur og hindrar ekki hreyfingar. Um að gera að vera smart líka 🙂 Casall og Asics í algjöru uppáhaldi hjá mér.
Nefndu eina konu eða karl sem þér finnst hreint afbragð þegar kemur að heilsusamlegum lífsstíl.
Það er almennt mikil vakning fyrir heilsusamlegum lífsstíl og sífellt fleiri vinna að því af miklum áhuga að tileinka sér heilbrigðari venjur. Held að það sé dagleg áskorun hjá flestum og þar á meðal mér. Það er stutt í “sykurpúkann” í okkur enda freistingar allt í kringum okkur. Veit ekki um neinn sem hefur náð fullkomnun í þessum efnum frekar en öðru en margir sem eru góðar fyrirmyndir.
Hvort ertu meira fyrir lífrænan lífsstíl eða prótein og lyftingar?
Ég er aðallega fyrir sitt lítið af hverju. Ég kaupi talsvert af lífrænu, fæ mér stundum próteindrykk og lyfti auðvitað lóðum. Mitt mottó er – Flest er gott í hófi.
Ertu með einhver ný markmið þegar kemur að heilsunni?
Í stuttu máli er markmið mitt hreysti og vellíðan. Mér þykir vænt um þennan eina skrokk sem ég á og stefni að því að láta hann starfa sem best og endast sem lengst. Því er markmið mitt að fara vel með hann, æfa hann á fjölbreyttan hátt, ekki of lítið og ekki of mikið. Sjá til þess að hann fái góða næringu í passlegu magni og næga hvíld. Eftir því sem maður verður eldri og vitrari áttar maður sig á því að meira er ekki alltaf betra. Öfgar eru ekki málið.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.