Ágústa Eva Erlendsdóttir ætlar að halda Prince „tribute“ tónleika næsta valentínusardag, eða þann 14 febrúar. Þá mun hún taka nokkur góð Prince lög í kjallaranum á Hard Rock ásamt nokkrum afbragðs tónlistarmönnum og hún lofar bæði rómantískri stemmningu og nördaveislu fyrir sanna Prince aðdáendur en ónefndur vinur hennar, sem veit víst bókstaflega ALLT um Prince, ætlar að vera á staðnum og taka við spurningum úr sal.
Ágústa Eva féll fyrir Prince þegar þessi vinur hennar, sem er að hennar sögn, þriðji mesti Prince aðdáandi jarðar, bauð henni á tónleika með snillingnum árið 2007.
„Ég fór á þessa tónleika með seimingi og var ekkert spennt, en þegar konsertinn var búinn þá gekk ég út með ALLT sem var á sölubásunum þarna. Föt, hálsmen, reykelsi, tambórínu og guð má vita hvað. Ég segi það í fullri einlægni að ég hef aldrei séð annað eins og mun aldrei aftur gera. Þarna varð ég forfallinn aðdáandi Prince, hefði gerst lærisveinn hans hefði mér staðið það til boða og eflaust fórnað mér, tekið kúlu fyrir hann. Ég horfði á hann í fimm tíma spila í sirka 70 metra fjarlægð frá mér og ég hef aldrei, hvorki fyrr né síðar, verið jafn hugblásin. Ég bara gapti, hafði aldrei orðið vitni að öðru eins.“
Af hverju að halda Prince tribjút tónleika á degi heilags Valentínusar?
„Það er ekkert flókið í raun. Ég saknaði þess að spila með Ómari Guðjóns vini mínum og langaði að gera það, febrúar var á leiðinni og Prince kom upp í hugann. Ég er soldið á því að láta bara mínar langanir, þarfir og innsæi ráða ferðinni. Svo finnst mér óskaplega gaman að sprengja upp góð tilefni og tjalda öllu til í gott partý. Eins og Prince sagði í einu lagi sinna: „Dansa þangað til að ég leyfi dauðanum að taka mig.“
Hvað með svona tribjút? Hefurðu oft tekið þátt í að halda þannig tónleika?
„Já ég hef sko tekið þátt í ólíklegustu ábreiðutónleikum: Nirvana, Pearl Jam, Ella Fitzgerald, Hljómar og Lee Hazelwood til dæmis en ekkert af þessum konsertum urðu fyrir mína tilstillan, nema Perl Jam en þar á ég líka sterkar tengingar. Uppáhldslögin hennar ömmu voru reyndar einskonar tribute tónleikar. Sú tónleikaröð gekk í á þriðja ár en þar flutti ég gömul dægurlög sem mér þykir afskaplega vænt um. Ég held reyndar að það sem þú elskar blómstri og dafni best af öllu því sem þú tekur þér fyrir hendur,“ segir hún og lofar um leið svaka fínu væbi á Prince tónleikunum.
„Það verða allskonar ljós við barinn, reykur, rósir, freyðivín og fleira sem færiri okkur nær degi Valentínusar og ástardýrlingsins Prince Rogers Nelson.“
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.