Söng og leikkonan Ágústa Eva Erlendsdóttir skellti sér til Austurríkis á þriðjudaginn og er núna í lausagöngu vopnuð tveimur farsímum og Snapchat aðgangi fyrir Dominos sem kostar hana til ferðarinnar.
Ágústa ráfar þarna um með blaðamannapassa um hálsinn og tekur random viðtöl við gesti og gangandi á keppninni, smellir af þegar hún sér eitthvað skemmtilegt og bregður á leik eins og henni einni er lagið.
Eðlilega er smá kvíði í fólki, þá sérstaklega Rúv-urum á hátíðinni en eins og frægt er orðið skandalíseraði karakter Ágústu, Silvía Nótt, ansi duglega þegar hún tók þátt í keppninni hér um árið.
Henni hefur þó enn ekki tekist að gera neina sambærilega skandala og mögulega urðu þeir allir eftir í Aþenu árið 2006 enda hefur mikið vatn runnið til sjávar á þessum 9 árum.
Það er þó ekki hægt að segja að Silvía sé grafin og gleymd, hún er júrómönnum enn í fersku minni og Ágústa segir að blaðamenn hátíðarinnar séu rétt núna að byrja að átta sig á því að “Silvía Nótt” er á svæðinu:
„Þegar ég segi þeim það taka þeir andköf og vilja rabba á fullu. Svo laumast þeir í tölvurnar sínar og skrifa eitthvað á netið en vilja alls ekki að aðrir blaðamenn á svæðinu frétti af því að “Silvía” er þarna. Ég heyrði samt einn spyrja sessunaut sinn hvernig maður stafar vúlgar,” segir Ágústa og hlær.
Ágústa segir flesta blaðamenn hátíðarinnar ekki vera alvöru blaðamenn heldur fyrst og fremst júróvisjón nörd sem “smygla sér” á hátíðina og setja svo stöðugar upplýsingar á eigið blogg. Nú eru þó sumir þeirra farnir að senda fréttir til síns heimalands, hafi fjölmiðlar þar í landi áhuga á að kaupa af þeim efni.
„Það eru langflest löndin hætt að senda fjölmiðlafólk á keppnina. Þegar ég fór út var Svíþjóð til dæmis með fulltrúa frá Aftenposten og fleiri fjölmiðlum en þetta er löngu breytt. Nú er þetta aðallega þessi skrítni jaðarmennigarhópur sem kemur hingað ár eftir ár og fjallar um keppnina,” segir Ágústa en þeir sem til þekkja vita að Eurovision aðdáendur eru nokkuð svipaðir Star Trek aðdáendum þar sem árlegt mót fer fram í því landi sem keppnin fer fram hverju sinni.
Í gær fékk Ágústa meðal annars fengið tilboð um að taka þátt í fyrirsætukeppni í Tyrklandi og í dag heimsótti hún Auðunn Atlason, sendiherra Austurríkis. Framundan er svo undirbúningur fyrir stóra kvöldið annað kvöld en Ágústa segir Svía og Ísraela sigurstranglegasta og flestir spái þeim nokkuð hörðu einvígi um toppsætið á morgun.
Fylgstu með flippkisanum @dominosisland á SnapChat og á Instagram undir nafninu AgustaEva.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.