Ágústa Eva Erlendsdóttir er af mörgum álitin ein besta leikkona sem Ísland hefur alið en hlutverk hennar sem Silvía Nótt er enn í minnum haft þó ekkert hafi heyrst í þeirri stórkostlegu týpu síðustu fimm árin.
Ágústa er enn á fullu í leiklistinni og mun meðal annars taka þátt í hvorki fleiri né færri en fimm uppfærslum í Þjóðleikhúsinu næsta haust en í sumar ætlar hún að leika í framhaldi af Borgríki eftir Ólaf Poppoli en þeir Hrafnkell Stefánsson skrifa saman handritið.
“Ég byrja eftir tvær vikur á tökum á Borgríki 2 og verð að því í allt sumar. Þar leik ég áfram lögreglukonuna Andreu sem vinnur hjá fíkniefnadeildinni. Hún varð helvíti illa úti í síðustu mynd, bæði persónulega og í vinnunni, en í Borgríki 2, sem hefur fengið nafnið BLÓÐ HRAUSTRA MANNA, er hún búin að ná heilsu aftur og vinnur í því að endurheimta mannorðið sem varð fyrir hnjaski,” segir Ágústa og heldur áfram:
“Í Borgríki 2 verða flestar persónurnar sem voru þeirri fyrri en svo bætast einhverjar nýjar við, það má segja að þetta sé sjálfstætt framhald, þannig að myndin virkar bæði í samhengi við fyrri myndina en líka sem sjálfstæð eining án þess að reiða sig um of á söguþráð fyrri myndarinnar. Í fyrri myndinni eru það þrír hópar sem eru að takast á, tveir glæpahópar og lögreglan en lögreglan innbyrðis skiptist líka upp í einingar sem eiga í deilum. Þetta verður allt mjög spennandi en von er á frumsýningu haustið 2014.”
Ertu búin að undirbúa þig eitthvað sérstaklega?
“Ég undirbjó mig mjög mikið fyrir þessa fyrri, bæði með því að kynna mér störf lögreglunnar og sökkva mér svolítið í sjálfsvarnaríþróttir. Hef verið í því síðan og hef þessvegna í raun verið undirbúin síðustu tvö ár. Líf mitt er svolítið litað af þessum undirbúningi þar sem ég bý núna með manni sem vinnur mjög mikið með lögreglunni, við eigum mikið af vinum innan hennar og erum á kafi í þessum bardagaheimi. Ég þarf þessvegna ekkert að sökkva mér í eitthvað annað en það sem ég er nú þegar, ekki eins og með Engla Alheimsins eða Karíus og Baktus. Það var önnur saga.”
Ertu eitthvað að syngja líka?
“Já, ég er alltaf að því líka. Hef mest verið að syngja með Megasi og mun gera það í sumar þar sem við erum pöntuð, í minni samkomur, svo er ég að fara að syngja með Hljómum í haust. Það verða Hljómatónleikar í Hörpunni. Ég á að syngja fyrir Shadie Owens… og þá skulum við heldur ekki gleyma honum Baktusi hressa og Evu Appelsínu í Ávaxtakörfunni. Hún gerði allt vitlaust í Garðinum um síðustu helgi þar sem var grátið og hlegið og dansað í algleymi. Það voru allir rosalega glaðir og við vorum öll allt of lengi. Steingleymdum okkur. Mjög gaman.”
Hvað er svo framundan?
“Þjóðleikhúsið í haust… ég er að leika þar í fimm stykkjum. Er í báðum sýningunum sem fara áfram af þessu leikári. Karíusi og Baktusi og Englunum. Svo er það uppsetning á Óvitum eftir Guðrúnu Helgadóttur, Spamalot – söngleikur eftir Monthy Python og Eldraunin eftir Arthur Miller.”
Eitthvað að lokum?
“Já, alltaf eitthvað að lokum. Nú vil ég vitna í Megas vin minn. Þetta er úr nýútgefnu lagi eftir hann sem heitir Uglundur en við sungum það saman bara um síðustu helgi. Lagið er um uglu og hund sem urðu svo góðir vinir að þau urðu að lokum eitt. Svokallaður Uglundur.”
Betra er einn að eiga vin
en allann heiminn
vinurinn þér veitir lið
en veröldin er gleymin
og dregur seiminn
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.