Ný haustlína frá Agent Provocateur: Eitt af því sem ég kolfell alltaf fyrir eru dýrindis nærföt. Það kann að hljóma undarlega en ég hef oft eytt meiri fúlgum í fjársjóði nærfataskúffunnar heldur en í fataskápinn en ég trúi því statt og stöðugt að falleg undirföt veiti manni betra sjálfstraust.
Maður getur kannski verið í svörtum bol og gallabuxunum dögum saman en vitneskjan um að maður sé í einhverju sérlega seiðandi undir venjulegum fötum lætur manni líða betur. Stundum held ég að konur klæðist nærfötum frekar fyrir sig sjálfar heldur en karlmennina í lífi sínu sem finnast þetta fyrst og fremst sniðugar umbúðir sem ættu þó að fjúka af sem fyrst.
Eitt uppáhalds nærfatamerkið mitt í öllum heiminum, Agent Provocateur, er hönnun skötuhjúanna Joseph Corré og Serenu Rees sem stofnuðu fyrstu verslunina árið 1994. Undanfarin ár hafa frægar konur setið fyrir í kynþokkafullum auglýsingaherferðum þeirra en þar má meðal annars nefna Kate Moss og Kylie Minogue.
Agent Provocateur nærfötin eru innblásin af kyntáknum fyrri áratuga, sér í lagi þeim sjötta þegar kvenlegur vöxtur og ávalar línur voru upp á sitt besta. Því miður er engin verslun með þennan dýrindis undirfatnað á Íslandi en það er auðvitað hægt að versla á netinu www.agentprovocateur.com.
Ég mæli þó hiklaust með heimsókn í eina af fjölmörgum Agent Provocateur sem er að finna í helstu stórborgum heims. Innandyra er dásamleg veröld innréttuð í anda „Vargas“ stúlknanna með gnægð af svartri blúndu, bleiku tjulli og íturvöxnum búðardömum.
Haust og vetrarlína Agent Provocateur fyrir 2010 er sem fyrr inblásin af kynbombum fyrri áratuga og meðal annars er að finna gullfallega undirkjóla sem gætu alveg eins verið fullkomnir í fínt kokkteilboð. Svo er að finna skemmtilega dónalegar pallíettupjötlur til að hylja geirvörturnar og fatnað sem þau kalla “ playsuits“ og útskýrir sig sjálfur.

Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.