Í tiltekt dagsins rakst ég á gamla bók sem heitir Unga stúlkan og eldhússtörfin. Hún er gefin út árið 1967 og tilheyrði pabba þegar hann var í 7.bekk grunnskóla. Ég man eftir að hafa bakað pönnukökur og súkkulaðikökur eftir uppskrift úr þessari bók sem krakki.
Það sem vakti athygli mína var að á fyrstu síðum bókarinnar kemur skýrt fram að bókin sé einkum tileinkuð ungum stúlkum. Á þessum tíma þótti þetta ef til vill afar eðlilegt.
Mér finnst undarlegt að hugsa til þess að kynslóð svo nærri mér hafi alist upp við þessar upplýsingar í skóla. Atriðin sem varða hreinlæti og ,,augnayndi” eins og það er orðað í bókinni eru bara sniðug og hægt að hlæja að – en þetta með hlutverk kynjanna… látum myndirnar tala.
Ég tek fram að ég geri mér fyllilega grein fyrir breyttum tímum og aðstæðum þá og nú þegar ég geri smá glens!
Hér eru dæmi um setningar sem mér þóttu fyndnar:
,,Flest störf krefjast þekkingar og eru heimilisstörfin þar sízt undantekning. Konur þurfa að afla sér hennar á unga aldri og æfa saman huga og hönd, þá verða störfin léttari og ánægjulegri og nýting tíma og fjármuna betri”.
Í bókinni eru nokkrar teiknaðar myndir af fólki. Ein er af stúlku og dreng þar sem þau eru glöð að ganga og hann með skjalatösku. Hinar eru allar af stúlkum, því jú, stúlkur baka, þvo þvott, vaska upp, strauja og vinna eldhúsverk.
Um hirðingu líkamans eru eftirfarandi atriði skrifuð:
,,Þvoið daglega andlit, háls, handleggi, undir örmum, fætur og að neðan.”
Það hefur greinilega þótt frekar ósmekklegt að nota orðin: ,,kynfæri”, ,,typpi” og ,,píka” og því látið duga að segja ,að neðan” -Þá voru allir glaðir. Þarna þurfti þjóðin á einni Siggu Dögg að halda!
,,Gott er að baða sig daglega en vikulegt bað er sjálfsagt. Hárið þarf að þvo á 7-10 daga fresti. Það veldur sjálfum þér leiðindum og öðru fólki óþægindum ef líkaminn er illa hirtur.”
-Já, tíðni hárþvottar hefur líklega aukist til muna á síðustu áratugum…
Um hirðingu tanna er haft eftir bókinni: ,,Ef ekki eru tök á að bursta tennurnar, er gott að borða eitthvert harðmeti í lok máltíðar, svo sem epli, gulrætur eða gulrófur.
-Já, ég geri þetta eiginlega alltaf í staðinn fyrir að bursta..borða bara gulrætur.
Um potta er sagt: ,,Ef pottar eru fallegir, má bera matinn á borð í þeim.” -Jii hvað ætli gerist ef við berum matinn fram í potti sem einhverjum þykir mögulega ljótur?
Um borðskreytingar: ,,Við ýmis tækifæri er notað borðskraut, blóm, ljós o.fl. Notið það af smekkvísi, en í hófi.”
-Já, vörum okkur, hvað ætli lífsstílsbloggarar landsins myndu segja um þetta?
Um mjólk: ,,Við notum eingöngu kúamjólk hér á landi. Kýrnar þarf að hirða vel, gefa þeim gott fóður og fjósið þarf að vera hreint, bjart og loftgott. Kýrnar bera einu sinni á ári.” –Aldeilis hvað þetta eru mikilvægar upplýsingar fyrir börn í grunnskóla og þá sérstaklega stúlkur! Engin stúlka ætti að útskrifast úr grunnskóla án þess að vita hvernig skyldi halda fjósinu björtu og loftgóðu.
Um salöt: ,,Hrá salöt á aðeins að matreiða til einnar máltíðar í senn, rétt áður en þau eru borin fram, svo að fjörvin fari ekki forgörðum.” –Ég hef verið að Googla og held að orðið ,,fjörvi” hafi átt erfitt uppdráttar á netinu. Ég er að hugsa um að fara að fríka fólk út með því að minnast oft á fjörvann og mikilvægi hans.
Og eitt, varðandi eggin. Eru þetta gamlar og úreltar upplýsingar eða erum við öll bara uppreisnarseggir sem snúum eggjunum öfugt í bökkunum? -Gaman að sjá að eggið er einnig teiknað fríhendis!
-Ég læt fylgja með nokkrar uppskriftir úr bókinni góðu og að sjálfsögðu leiðbeiningar um ofnhita.
Hulda Jónsdóttir Tölgyes er 28 ára og úr Reykjavík.
Hulda hefur lokið tveimur háskólaprófum í sálfræði og stefnir ótrauð á að læra enn meira innan þess sviðs á næstu árum.
Hún er jafnframt lærður naglafræðingur úr MOOD skólanum og einn af stofnendum poppkórsins Vocal Project.
Hulda er hundafrík sem naglalakkar stundum tíkina sína!