Er það “félagslega hættulegt” fyrir stelpur að vera ‘of’ stelpulegar?
Það er að segja… ógnar það jafnrétti kynjanna þegar stelpu langar mest til að vera eins og fröken Barbí, klæðast bleiku og nota að lágmarki 10 mismunandi snyrtivörutegundir á dag?
Þetta vilja sumir meina en persónulega hef ég aldrei nokkurntíma skilið jafnréttismenningu sem samþykkir að tala niður það sem er stelpu (eða hommalegt) og upphefur á sama tíma, þau skemmtiefni og áhugamál sem virðast af einhverjum ástæðum höfða meira til stráka en stelpna.
Kannski stafar þetta skilningsleysi mitt af því að þegar ég var að alast upp, og jafnvel eftir að því göfuga starfi var lokið (þ.e. að ala mig upp), þá voru stelpur og strákar eiginlega nákvæmlega eins og jafnvel bara mjög erfitt að þekkja okkur í sundur.
Ég man ekki eftir því að það hafi þótt slæmt að líta út eins og stelpa enda voru bæði strákar og stelpur með augnblýant, varalit og maskara, nú eða sítt að aftan, í níðþröngum gallabuxum og hermannaskóm. Hvort sem þú hallaðir til hægri eða vinstri menningarafkima, fórst í MH eða Versló, varst diskófrík eða pönkari, þá voru stelpur og strákar eins klædd og lítið um að sett væri út á stelpur fyrir að vera stelpulegar. Að minnsta kosti ekki þegar kom að útlitinu.
Stelpulegar nærbuxur
Nú er árið 2014 og dóttir mín er í fjórða bekk. Um daginn hafði einhver stelpa í bekknum hennar orð á að hún væri í svo stelpulegum nærbuxum eftir að þær luku handboltaæfingu og þetta þótti þessari vinkonu ekki nógu fínt. Boxer eru ‘ríkis’ nærbuxur hjá þessu handboltaliði. Af því þær eru strákalegar.
Það fauk rækilega í mig. Það fýkur líka í mig þegar orðið ‘stelpa’ dugar sem lýsingarorð fyrir eitthvað neikvætt; Að keyra eins og stelpa… hlaupa, flissa eða tala eins og stelpa. Í hvert sinn sem karlar, eða konur, tala hið kvenlega niður þá tekur eitthvað innra með mér jafnréttiskipp og ég roðna undir meikinu mínu. Hjartað slær örum slögum réttlætiskenndarinnar. Ég ímynda mér jafnvel að ég sé að “meisa” manneskjuna með Stellu McCartney ilmvatninu mínu. Bara í eina sekúndu.
Að vera hommalegur þykir slæmt af sömu ástæðu og það er ekki ásættanlegt fyrir litla stelpu að vera í ‘stelpulegum’ nærbuxum. Það stelpulega er nefninlega ekki nógu gott.
Við ættum að raða okkur með ilmvatnsglös kringum alþingshúsið og úða af krafti.
Þetta hefur verið svo rækilega innprentað í okkur að jafnvel ungir krakkar, nú á því herrans ári 2014, eru haldin stórkostlegum misskilningi um að hið mjúka og kvenlega sé eitthvað síðra eða óæðra en hið sterka, töffaralega, karllæga.
Í bleikum Pollapönk galla
Þetta sést t.d. vel á Pollapönks tískunni sem nú tröllríður leikskólum landsins. Vinkona mín ein þurfti að hvæsa á leikskólabróður sonar síns þegar sá síðarnefndi setti út á bleika Pollapönks gallann sem sá stutti sportaði glaður. Bleikt var nefninlega stelpulegt og stelpulegt var alls ekki gott.
Svei mér þá ef það er ekki kominn tími á nýja uppreisn?
Uppreisn sem gengur út á að við hefjum upp í efstu þrep virðingarstigans allt sem er bleikt, stelpulegt og kvenlegt. Við ættum að raða okkur með ilmvatnsglös kringum alþingshúsið og úða af krafti. Flissandi á pinnahælum með túberað hárið og maskara fyrir allann peninginn. Bæði stelpur og strákar. Og með okkur væri ungviðið – Allt í bleikum Pollapönksgöllum. Enga fordóma. Ekkert bull.
Stelpuleg áhugamál eru góð
Það þarf að útrýma þessu endanlega að stelpulegt sé ekki gott og að stelpur og konur verði endilega að tileinka sér sem flest áhugamál og störf karla og stráka til að njóta sömu virðingar. Það er mikið nær að krefjast þess fyrst að það sé borin virðing fyrir kvenlegheitum?
Það á alls ekki að vera samþykkt að gera grín að konu sem tekur sér góðan tíma í að punta sig áður en hún fer út, bara af því karlinn kýs að nota ekki fleiri snyrtivörur en greiðu og svitasprey. Hvað er það?
Í stað þess að leggja áherslu á að stelpur spili fótbolta, stúderi geimferðir og leiki sér með Legó væri fallegra, að mínu mati, að hefja stelpulegheit og áhugamál kvenna til vegs og virðingar. Hvaða áhugamál sem það kunna að vera að fótbolta og geimferðum algjörlega ólöstuðum.
Það er nefninlega svo innilega ekki í lagi að litlar stelpur setji út á aðrar stelpur fyrir að vera of stelpulegar. Eða að litlir strákar setji út á stráka fyrir að vera stelpulegir. En hvernig eiga þau að vita betur þegar pabbi segir að vinur sinn keyri eins og stelpa eða “femínísk” mamma fussi yfir því að litla prinsessan sé yfir sig heilluð af Öskubusku og Barbí. Skilaboðin eru þau að dæmigerð stelpulegheit séu ekki góð – en við vitum betur.
Það er ekkert að því að vera stelpuleg stelpa með stelpuleg áhugamál. Það er ekkert að því að vera strákur með stelpuleg áhugamál. Það er ekkert að því að vera strákur í bleiku, hrífast af Barbí og hafa gaman af að búa til hárgreiðslur. Passa börn, rækta grænmeti, sauma föt, hanna skartgripi eða hvert sem ‘kvenlega’ áhugamálið kann að vera.
Það að við séum stelpulegar, eða stelpuleg, ætti alls ekki, aldrei, enganveginn, aldrei nokkurntíma að verða til þess að við njótum ekki sömu virðingar og karlmannlegir strákar.
Við þurfum að skoða okkar eigin viðhorf, passa það sem við segjum og vanda okkur þegar við tölum um okkur sjálfar og um konur almennt.
Enga fordóma! Áfram stelpulegar stelpur! (og stelpustrákar)! Áfram bleiki polli!
Góðar stundir.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.