Ég hef áður skrifað um herferðina #effyourbeautystandards sem módelið Tess Munster hóf á Instagram. Nú er komin af stað ný herferð, undirfata ,,selfies” herferð, til að fá allar konur af öllum stærðum til að elska líkama síma.
Bloggarinn Courtney Mina ákvað, eftir að hafa fylgst með #effyourbeautystandards hreyfingunni, að setja inn nærfata sjálfsmyndir á Instagram í 7 daga og kanna viðbrögðin. Þau létu heldur betur ekki á sér standa!
Courtney segist alltaf hafa verið mjög feimin sem barn og einangrað sig. Henni hafi alltaf fundist eins og eitthvað væri að henni þar sem hún liti ekki út eins og hinir krakkarnir í skólanum. Mikið einelti og sú staðreynd að hún var feit hafi leitt hana til þess að fela sig sem mest frá umheiminun.
Það var ekki fyrr en hún var komin á táningsaldur að hún leiddist út í leiklist í skólanum.
Þar hafi hún fengið að skoða sjálfa sig nánar og hafi þá í fyrst sinn fundið sína einstöku rödd og sinn innri styrk.
Það tók hana samt nokkur ár til viðbótar þar til hún var fullkomlega örugg með sínar skoðanir og hugsanir og var það ekki fyrr en þá að hún var tilbúin til að takast á við líkamlega óöryggið.
Eina vandamálið var að hún var feit. Sama hvernig hún reyndi að klæða það af sér, hún var alltaf feit.
Það var ekki eitthvað sem hún gat horft framhjá eða falið, það var eitthvað sem hún þurfti að samþykkja og viðurkenna.
Hún setti sér því það markmið að finna sér flott undirföt sem gætu hjálpað henni að sjá sig sem kynþokkafulla konu og með því að sjá sig sexý í speglinum færi henni kannski að líða sem sexý og fallegri konu.
Í dag segist hún þakklát fyrir að vera konan sem hún þráði alltaf að vera. Hún er sátt í eigin skinni og örugg með sjálfa sig. Ekki einungis sé hún sátt við líkama sinn eins og hann er heldur gjörsamlega elskar hún hann.
,,Líkami minn er einstakt form af fegurð – hann er stór, feitur, ávalur og unaðslega kvenlegur, og sem talsmanneskja fyrir jákvæða líkamsímynd og módel, er ég meira en glöð að sýna líkamann minn með stolti.”
„Viðbrögðin voru að mestu leyti jákvæð” segir Courtney þegar hún lýsir athugasemdunum sem hún fékk. „Ég vildi hvetja aðrar konur til að hætta að fela sig og læra að elska líkama sína og vera sjálfsöruggar og stoltar.”
„Ef þú getur horft á mig og hugsað að ég sé falleg, þá getur þú vafalaust horft á sjálfa þig og hugsað akkúrat það sama.”
Courtney nefnir líka áhyggju tröllin sem tóku það að sér að hafa miklar áhyggjur af heilsufari hennar. Hún þjáist ekki af neinum sjúkdómum og segir þessar áhyggjur bara vera að hylma yfir það sem raunverulega sé í gangi – mismunun og fordómar útaf stærð hennar.
Það þarf mikið sjálfstraust að koma fram og sýna sig eins og Courtney. Sjálf heyri ég oft fólk spyrja sig hvort nú sé búið að taka horuðu módelin í burtu, og hvort feitar konur eigi að vera fyrirmyndir ungra stúlkna. Svarið er einfaldlega NEI.
Persónulega finnst mér að helstu fyrirmyndir ungra stúlkna eigi að vera mæður þeirra, en það er annar handleggur. En skilaboðin eru einföld. Allar konur hafa rétt á að elska sjálfa sig. Þó ég sé einhverjum kílóum léttari en Courtney gefur það mér engin forréttindi til að elska sjálfa mig meira. Ef þú elskar sjálfa þig ertu alltaf besta mögulega útgáfan af sjálfri þér. Sama hvað aðrir kunna að segja.
Heimild: Bustle
Erna er vatnsberi sem má ekkert illt sjá. Hún býr í stórborginni Bogotá í Kólumbíu ásamt manni sínum og syni. Erna er stúdent í tungumálum og samtímadansi, er yogakennari hjá Yoga Alliance en hún er jafnframt útlærður ferðamálafræðingur frá Ferðamálaskólanum í Kópavogi. Erna talar fimm tungumál og þrjú af þeim daglega. Hennar helstu áhugamál eru ferðalög, fjölskylda, hugur og heilsa.