Afbrýðisemi getur tekið á sig ýmsar myndir. Hún getur verið allt frá því að sú sem finnur fyrir henni, segir ekki neitt heldur kyngir þessu til að halda kúlinu, yfir í bandóða brussu sem brýst inn til fórnarlambsins og bakar köttinn hans í brauðvélinni.
Afbrýðisemi er eyðileggjandi tilfinning sem getur breytt sjálfstæðum og sætum stelpum í einstakling sem endar jafnvel á því að leggja eigið líf og annara í rúst.
Þessi tilfinning, afbrýðisemi, getur tekið frá þér tíma, einbeitingu, peninga og geðheilsu. Þessvegna ættiðu að gæta að því að díla strax við afbrýðisemi ef þú finnur fyrir henni og reyna eins og þú getur að láta þessa vondu tilfinningu aldrei nokkurntíma ná tökum á þér.
Lestu endilega þessa grein til enda…
• Ef þú ert með kærastann þinn eða sambandið á heilanum.
• Ef þig grunar stanslaust að kærastinn sé að halda framhjá þér (án þess að neitt bendi beinlínis til þess).
• Ef þú bregst allt of ýkt við öllu sem hefur með kærastann þinn og annað kvenfólk að gera.
Öfundsýki og afbrýðisemi eru skyldar tilfinningar sem eiga það sameiginlegt að sá sem finnur þessar tilfinningar er haldin óöryggi. Í tilfelli afbrýðiseminnar kemur þetta óöryggi hinsvegar undantekningalaust á einn eða annan hátt niður á sambandinu, á meðan öfundsýkin herjar mest á þann sem er haldin henni. Afbrýðisemi leiðir nánast undantekingalaust til þess að sú sem er afbrýðissöm bregst við tilfinningunni og endar til dæmis á því að garga á kærastann, kannski eitthvað á þessa leið:
Hvern djöfulinn varstu að gera með Hönnu Rut á Prikinu!? Ég sá þig þegar ég gekk framhjá og þú horfðir ekkert smá í augun á henni! Eða koma með romsuna: Hvar varstu? Með hverjum? Hvert fóruð þið? Og… Af hverju varstu svona lengihh?
Svo endar hún romsuna með því að stara stóreyg og ásakandi á hann með samanherptar varir.
Vont að vera ranglega ásakaður
Svona samskipti verða óhjákvæmilega til þess að kærastanum fer að líða illa og þá gildir það einu hvort hann virkilega VAR að horfa í augun á Hönnu Rut eða ekki. Það er enn verra ef hann var ekki að því þá erum við að tala um blásaklausann mann sem er ásakaður fyrir svik og pretti og eins og allir vita sem hafa einhverntíma verið ranglega ásakaðir um eitthvað þá er fátt verra en það.
Ef hann hinsvegar var hreinlega að undirbúa, eða standa í framhjáhaldi, þá getur sú afbrýðissama nokkurnveginn bókað það að hann á ekki eftir að segja eitthvað á þessa leið:
Já, ég veit það. Ég er hættur að elska þig og nú elska ég Hönnu. Það sem þú sást var ég að biðja hana um að trúlofast mér. Þessvegna horfði ég svona á hana. Eða: Já, ég var í trekant með Fjólu og Dóru og við Fjóla erum eiginlega byrjuð saman. Ég þurfti að keyra hana heim á eftir og þessvegna var ég svona lengi sko…
Nei, þvert á móti á hinn “seki” eftir að fara undan í flæmingi og ljúga einhverju sem kannski, og kannski ekki, friðþægir þig í einhvern tíma og svo er það háð öðrum atvikum hvort þið endist eitthvað saman, þó það sé ansi ólíklegt, því framhjáhald kemst yfirleitt upp og þá er traustið svo gott sem farið. Erfitt að byggja samband á því.
Afbrýðisemi, eða tilfinningalegt óöryggi sem brýst út á þennan hátt, er á allan hátt verst fyrir þig sjálfa. Þú sjálf ert með réttu fórnarlambið. Það ert þú sem eyðir í þetta ómældri orku. Það ert þú sem gengur jafnvel svo langt að fara að skoða símann hans, lesa tölvupóstinn, fara í gegnum vasana og stara á eftir honum ef hann skyldi bregða sér á klósettið þegar þið eruð úti að skemmta ykkur. Svo ert það þú sem verður æst og reið eða þunglynd þegar þú ferð út í það að vilja ræða þetta við hann. Og æsingurinn eða reiðin eða þunglyndið skilar heldur engu öðru en þunglyndi, æsing og reiði.
Hvers vegna?
Vegna þess að það er ekki hægt að pína fólk til að elska mann og vera heiðarlegt og skyldi hann raunverulega elska þig þá máttu prísa þig sæla ef hann heldur þetta út þar til storminn lægir og þú byrjar að finna að þú treystir honum. Þú mátt líka prísa þig sæla ef hann langar enn til að vera í sambandinu því afbrýðisemi er mjög eyðileggjandi.
Sumt fólk hefur gaman af því að reyna að gera makann afbrýðisaman. Svona til að tékka á því hvar það stendur. Þannig leiki ber okkur að varast eins og heitann eldinn. Það er engum greiði gerður með svona tékki vegna þess að það er ekkert samasem merki á milli þess að elska og vera afbrýðissöm eða samur.
Þitt vandamál
Þegar öllu er á botninn hvolft þá er afbrýðisemi fyrst og fremst vandamál manneskjunnar sem er haldin henni.
Ef þú ert að tapa þér yfir því að hann skuli sýna einhverri annari þá athygli sem þér finnst þú eiga rétt á, þá er það alfarið á þína ábyrgð hvað þú gerir næst. Hvort þú ferð frá honum eða heldur áfram að arga og garga á hann þar til sambandið er ónýtt. Þú NEYÐIST til að trúa því sem hann segir. Í það minnst þar til óhagganlegar sannanir fyrir öðru koma í ljós. Þessvegna er það bara sóun á orku og tíma að vera að hamast við að vera afbrýðisöm. Mundu líka að það ekki hægt að “láta” fólk finna einhverjar tilfinningar sem það finnur ekki af sjálfu sér.
Þú getur ekki stalkað karlmann þar til hann verður hrifinn af þér. Það hefur bara því miður algerlega öfug áhrif. Ást í sambandi er svipuð og vinátta: Tilfinning sem verður til af sjálfri sér og af því að fólk tengist vináttu og tryggðarböndum, en ekki vegna þess að öðrum aðilanum tekst að pína og kreista tenginguna út úr hinum með stjórnsemi og taugaveiklun.
Taktu til í þínum andlega garði og gefðu honum frelsi
Ef þér finns mjög erfitt að díla við afbrýðisemina þá er upplagt að leita til sálfræðings eða geðlæknis til að komast að rótum vandans. Sumar/ir geta jafnvel rakið ósköpin til æsku sinnar þegar þær fengu ekki þá athygli, öryggi og þann stuðning sem öll börn ættu að hafa fæðingarrétt til. Sumar voru bara sviknar snemma. Til dæmis af kærasta á unglingsárum og hafa þar með lært að karlmönnum sé ekki treystandi. Hver sem ástæðan fyrir þessu er þá er það ljóst að þú getur ekki verið svona til lengdar. Gamla klisjan um að maður eigi að gefa fólki frelsi og vita svo að ef það kemur til manns aftur þá sé það “ment tú bí” er á allan hátt sönn.
Alveg jafn sönn og sú staðreynd að þú getur ekki lagt karlmann í einelti þar til hann allt í einu byrjar að elska þig. Þetta bara virkar ekki svona.
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.