“Veistu af hverju ég bauð þér út?” spurði maðurinn sem hafði boðið mér út á fínan veitingastað í borginni.
“Tja,” sagði ég til að vinna tíma og hugsa málið .. enda dálítið sérstök spurning frá annars huggulegum manni á fyrsta deiti. Já, hann var bara nokkuð sætur þessi og ég hafði dressað mig upp í 12 cm háa hælaskó til að vera sem flottust!
Reyndar átti ég mjög erfitt með gang í þessu og til að toppa göngulagið var maðurinn svo svangur að hann æddi áfram í áttina að veitingastaðnum … og ég skrölti á eftir leiðandi hann eins og kona sem heldur í stélið á gullgæsinni – vill ekki og getur ekki sleppt!
Skórnir voru fallegir þótt óþægilegir væru og þeir pössuðu heldur ekki við veitingastaðinn. Þar var búið að brasa svo mikið að gólfin voru glerhál og ég rann utan í manninn þegar við gengum inn. Obbosssí, þú mikli snillingur, kona!
“Já, af hverju bauðstu mér út?” spurði ég forvitin.
“Af því að þegar við hittumst á Austur spurðirðu mig ekki við hvað ég starfaði – og ég fílaði hvað þú varst kúl.”
Þessi setning situr dálítið í mér. Þtta var ekkert trix af minni hálfu ég hef bara alltaf haft einn sið og hann er þessi: Að spyrja aldrei nokkurn mann hvað hann geri þegar við erum að kynnast.
Ég vil líka síður flokka menn í hópa og mynda mér þannig fyrirfram skoðanir á þeim. Betra er að leyfa fólki að láta ljós sitt skína, flottustu menn geta leynst undir “horror” stöðumælavarðarbúningi – og þeir sem virka hvað flottastir, sjálfstæðir menn í toppstöðum reynast jafnvel hreinræktaðir drullusokkar við nánari viðkynningu. Allir eru allskonar, líka við konurnar.
Það er fjör að deita í Reykjavík, margar flottar konur á lausu en því miður finnst mér ekki alveg eins mikið af jafn glæsilegum mönnum.
Það virðist líka sem þessi glæsimenni, ef marka má kavalerinn minn, hafi sín ráð til að prófa okkur skvísurnar – minn vildi ekki láta dæma sig út frá starfi sínu og alveg óvart small ég inn með flott svar.
En hey, minnir þetta þig ekkert á öskubusku og prinsinn hennar sem mátaði glerskóinn á milljón konum?
Ein hjó af sér hælinn, önnur skar af sér stórutánna svo blóðið fossaði ofan í skóræsknið! Og allt kom fyrir ekki því hvorug passaði í skóinn. Ég var svo ljónheppin að koma vel fyrir mig orði í þetta skipti og vann út að borða með sætum gæja!
En svona þér að segja … þegar ég var búin að andvarpa út úr mér þessu “tja..” og hugsa málið, ákvað ég að svara nú manninum eins og mér einni er lagið. Þannig er að ég er í tannréttinum og á satt að segja nokkuð erfitt með að borða með þessa vírana uppi í mér. Ég hef grennst mikið og sumir telja mig vera í sjúklegri megrun, þótt það sé fjarri lagi.
Svo ég svaraði auðvitað:
“Já, sjáðu líka hvað það er sniðugt að svelta sig bara nógu mikið, þá bíða menn í röðum eftir að bjóða mér út að borða. Þeir halda allir að ég sé svooooo svöng!”
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.