Fyrir nokkrum árum sá ég kvikmyndin “Gainsbourg (Vie héroïque)”. Hún fjallar um franska söngvarann og tónskáldið Serge Gainsbourg, líklega þekktastur fyrir að stynja lagið Je t’aime…mon non plus, ásamt þáverandi konu sinni Jane Birkin, við ónefndar aðstæður.
Gubbupest hafði verið gestur á bænum yfir þá helgina og því lágu heimilismenn þungt haldnir af sjálfsvorkunn. Sem partur af uppbyggingarferlinu var sett mynd í tækið og vonast eftir að safna kröftum yfir sjónvarpinu.
Ég hafði ekki hlustað mikið á Gainsbourg upp að þessum tímapunkti, það er skjalfest að ég er allt annað en tepra en ég hef þó ekki ennþá fundið þörfina til að hlusta á stunu-músík. Það er staður og stund fyrir svoleiðis.
Burtséð frá því þá er myndin æðisleg. Gainsbourg lifði ótrúlegri ævi en hann var eins og margir hæfileikaríkir menn haldinn sjálfseyðingarhvöt sem olli mikilli óreiðu í lífi hans.
Margar konur í samfloti við margar vínflöskur. Tónlistin, sem einkenndi ævistarf hans, fer upp og niður með honum og fléttast frábærlega við atburðarásina. Inn í koma svo teiknimyndapersónur sem elta hann um söguna en þær gefa góða innsýn inn í hvernig hugur hans virkaði og hversu sterkt ímyndunarafl hans var.
Meira um ævidaga Gainsbourg ætla ég ekki að útlista enda vona ég að þið sjáið myndina sem fyrst (en sleppið gubbupestinni ef þið getið!)
Frá og með þessari ólukku helgi hef ég hlustað mikið á Serge Gainsbourg og hugsa oft tilbaka til myndarinnar. Ég læt það þó vera að horfa á hana í annað skipti því ég er trú nostalgíunni og að hlutir eins og góðar bíómyndir hafi alltaf meira vægi ef þeim er leyft að liggja í minningunni einni. Tónlistina leyfi ég mér samt að hlusta á, aftur og aftur.
Ég lýk lofræðu minni á þessari stórgóðu kvikmynd með myndbroti af Serge Gainsbourg að syngja Couleur Café.
Hann er kannski ekki á lista pjattrófanna um þann allra myndarlegasta en hann á auðvelt með að draga dansstúlkuna á tálar. Ég þori að veðja að það væri erfitt að standast þennan mann, allavega gátu hvorki Bridget Bardot né Jane Birkin það.
Ég tek það fram að ef Bridget Bardot fannst Gainsbourg heitur þá var hann eldheitur (þ.e. ef maður lokar öðru auganu, blikkar hinu mjög hratt og gerir Macarena-dansinn með hægri fæti). Dæmi hver fyrir sig. Hér er lagið og maðurinn…
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=NDOk6nu9udo[/youtube]
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.