Breski rithöfundurinn E. L. James sló aldeilis í gegn með bókunum um Christian Grey og vinkonu hans Anastasiu.
Í bókunum “Fifty shades of grey” er íbúð Christian Grey í stórglæsilegu háhýsi sem heitir Escala en bygging sú er í Seattle borg í Bandaríkjunum.
Fyrir mánuði var bíómynd byggð á þessum bókum kynnt til leiks og hefur fasteignasalinn Erik Mehr, sem sér um þetta glæsilega háhýsi, varla haft undan við að svara símanum síðan. Eru það æstir aðdáendur sem vilja endilega leigja eins og eina eða tvær nætur og eiga ánægjulega stund í sérstöku rauðu herbergi sem kemur ansi oft við sögu í bókunum. Konurnar, sem eru á aldrinum 19-50 ára, grátbiðja Erik um afnot af íbúðinni og ef það er ekki hægt þá vilja þær ólmar fá mynd af sér í anddyrinu, á ganginum eða bara hvar sem er í byggingunni.
Leigusalinn hefur nóg að gera þessa dagana við að halda spenntum aðdáendum og ferðamönnum frá byggingunni og útskýra fyrir þeim að þetta sé venjulegt íbúðarhúsnæði og enginn Christian Grey sé þarna á svæðinu. Öryggisgæslan kringum húsið hefur verið tvöfölduð og nokkrar auka myndavélar settar upp til að auka öryggi þeirra sem búa á svæðinu.
Rithöfundurinn heyrði af þessari byggingu við gerð bókanna og notaði hana í sögu sinni. Auðvitað bætti höfundurinn allskyns hlutum við til að auka ímyndunarafl lesendans og gerði íbúð Christians Grey mjög glæsilega, með nóg af plássi í allar áttir, stórkostlegt útsýni, rautt herbergi þar sem allskyns “kinky” hlutir fóru fram og þyrlupall á þakið svo fátt eitt sé nefnt.
Vitanlega hafa íbúar byggingarinnar einnig grætt á þessari umfjöllun. Fasteignaverðið hefur hækkað um 75% frá því bækurnar komu út en á öðrum svæðum í Seattle hafa fasteignir hækkar um 10% frá árinu 2010. Rithöfundurinn E. L. James hélt líka sérstakan bókalestur við útgáfu bókanna og gaf hverjum íbúa bók með áritun.
Það má með sanni segja að vinsældir bókanna og herra Christian Grey séu enn jafn miklar og við útgáfu þeirra en búast má við annari vinsældarsprengju þegar kvikmyndin verður frumsýnd. Hennar hefur verið beðið með mikilli óþreyju.
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.