Oft þarf maður að galdra fram góðan eftirrétt á örskots stundu. Ég lenti einmitt í því um daginn þegar ég stóð ráðavillt í búðinni og vissi ekkert hvað ég ætti að hafa í eftirrétt.
Allt var á seinustu stundu og matargestirnir að fara leggja af stað heim til mín. Ég mundi eftir því að samstarfskona mín hafi sagt mér frá eftirrétti sem tæki enga stund. Uppskriftin var svo einföld að ég mundi hana þannig málinu var reddað. Ég skellti svo í eftirréttinn á nokkrum mínutum og enginn matargestana tók eftir því að ég hafði verið í tímaþröng. Það geta nánast allir útbúið þennan æðislega góða og einfalda eftirrétt.
INNIHALD:
- 500 ml rjómi
- 1 lítil dós KEA vanillu skyr
- 1 tilbúinn brúnn marengs botn
- Ávextir, ber eða nammi sem þér finnst gott
Marengsbotninn er brotinn niður á disk eða fat sem þér finnst fallegt. Rjóminn er þeyttur með þeytara og vanillu skyrið svo hrært út í með sleikju.
Setjið ávextina, berin og nammið út í blönduna í því magni sem þið viljið. Betra er að byrja á því að setja lítið í einu og hræra með sleikjunni, setja svo meir ef vill.
Ég notaði jarðaber, bláber, kókosbollu og súkkulaðirúsínur.
Rjómablandan er svo lögð yfir marengsbotninn og skreytt að vild. Ég valdi að skreyta eftirréttinn með bláberjum. Gott er að leyfa eftirréttinum að standa smá stund áður en hann er borinn fram til þess að marengsbotninn blotni svolítið.
Einfalt, fljótlegt og rosalega gott!
Linda fæddist þann 23. október árið 1988. Í dag er hún mamma í sambúð og með geysilegan áhuga á innanhúshönnun en áhuginn vaknaði þegar hún keypti fokhelt hús árið 2013. Verandi lífefnafræðingur hefur Linda líka mikinn áhuga á snyrtivörum og virkni þeirra. Linda er líka mikill bakari en hún bakar til að fá útrás fyrir sköpunargleðina og nýtur þess að taka fallegar myndir af afrakstrinum. Allar myndir í matarbloggfærslum eru því teknar af Lindu sjálfri og þú getur lesið meira af efni frá henni bæði hér undir notendanafninu og á mondlur.com