Pistlahöfundur gleymir aldrei kennara sem hún hafði eitt sinn í barnaskóla. Kennari þessi, sem var kona á fertugsaldri, þjáðist af einhverskonar truflunum í svitakirtlum en þetta olli því að öll skólastofan angaði af sterkri svitalykt.
Vesalings konan hefur eflaust verið samdauna þessu en lyktin fór sannarlega ekki framhjá nemendunum. Við áttum yfirleitt í mesta basli með að einbeita okkur að náminu því megnið af andlegu orkunni fór í að reyna að útiloka þessa yfirþyrmandi lykt frá skilningarvitunum.
Eins dásamlegt og það nú er þegar kennarinn ilmar vel er það jafn slæmt þegar hann eða hún gerir það ekki.
Vitaskuld á það að vera skylduverkefni allra kennara að vera snyrtilegir og vel til fara og sjá til þess að líkaminn gefi ekki frá sér truflandi lykt sem fer ekki framhjá neinum, nema þá kannski honum sjálfum.
Á sama hátt er virkilega ljúft að umgangast manneskju sem ilmar vel öllum stundum.
Til að ilma vel má fara ýmsar leiðir en það verður alltaf að gæta þess að lyktin verði ekki of sterk. Það er þessi fíni millivegur sem þarf að rata.
Vanillu ilmur sem fyllir kennslustofuna – endilega!
‘Body lotion’ og sturtusápur með góðri lykt eru t.d. vörur sem eru vel til þess fallnar að láta þig ilma vel án þess að það fari of mikið fyrir því. Þannig getur t.d. ilmurinn af mildri vanillu lagst vel í nemendurna því vanilla vekur alltaf upp góðar tilfinningar enda vanilla í öllum rjómaís.
Merki eins og Biotherm framleiða svo ýmsar góðar líkamsvörur með sérlegum ilmkjarnaolíum sem ætlað er að hafa jákvæð og góð áhrif á skilningarvitin.
Létt ilmvötn eru jafnframt dásamleg svo lengi sem þau eru ekki ofnotuð. Þannig skaltu heldur úða aðeins yfir hárið eða út í loft og ganga svo inn í mistrið. Þetta gerir það að verkum að þú ilmar mátulega mikið og kemur ekki til með að kæfa neinn þegar þú horfir yfir öxlina á nemandanum. Ilmurinn helst líka betur í hárinu en á húðinni.
Auðvitað er kennurum svo skylt að fara í sturtu á hverjum morgni, eða bað á hverju kvöldi, en gættu þess að nota sápur sem þurrka ekki upp húðina og vel af rakagefandi og vellyktandi kremi á eftir.
Við íslendingar erum þjakaðir af rakaskorti enda erum við flest með of þurra húð. Húðlæknir einn tjáði mér að rakastigið í loftinu á Íslandi getur farið um 50% niður fyrir það sem æskilegt þykir svo að húðin hafi það sem best. Við þurfum því að hafa okkur öll við.
Láttu manneskjuna vita
Hvað svitakirtlana varðar þá er um að gera að reyna að benda fólki góðlátlega á
það ef lyktin verður of mikil. Oft gerir það sér nefninlega enga grein fyrir þessu. Of sterk svitalykt getur orsakast af ýmsum kvillum en oft kemur hún til vegna þess að fólk er á lélegu mataræði, drekkur of mikið kaffi, reykir og/eða drekkur of lítið vatn.
Ef um er að ræða vandamál sem truflar verulega mikið, eins og hjá kennaranum mínum í æsku, er til dæmis hægt að kaupa óhollt efni sem heitir aluminum chloride en það fæst í næsta apóteki og á að virka gífurlega vel. Svo eru til fleiri aðferðir eins og að sprauta botox lyfi í handakrika og hleypa rafstraumi í gegnum saltvatn – en förum ekki nánar út í það…
Líkaminn vill að við sinnum honum vel, vökvum hann og nærum og í staðinn skilar hann okkur góðri líðan sem hefur keðjuverkandi jákvæð áhrif á þá sem eru í kringum okkur.
Það líður ekki sá vinnudagur í lífi kennara að hann hitti ekki fullt af fólki á öllum aldri. Eðlilega líður þeim kennara því vel sem hefur jákvæð og aðlaðandi áhrif á allt þetta fólk.
Kennarinn ætti þessvegna ávallt að vera snyrtilegur og vel til fara eftir eigin ‘smag og behag’. Aðlaðandi fyrirmynd ungra nemenda sem eiga jafnvel eftir að muna eftir kennaranum sínum alla ævi og hugsanlega, ef vel tekst til, skíra börnin sín eftir þér.
En það gerist að öllum líkindum ekki ef minnining tengist aðallega sterkri svitalykt…
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.